Töluverðar breytingar áttu sér stað þann 1. september í tengslum við skráningu merkja hér á landi með gildistöku laga nr. 71/2020, sem breyttu ýmsum ákvæðum laga um vörumerki nr. 45/1997.  Lögin voru samþykkt á Alþingi  þann 12. júní síðastliðinn og með þeim voru ákvæði vörumerkjatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 innleidd en í henni felast fjölmörg nýmæli, bæði til samræmingar á nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna varðandi skráningu, notkun og verndartíma vörumerkja en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki.

Markmið tilskipunarinnar var að færa reglur um vörumerki til nútímahorfs í samræmi við nýjustu tækni og fól hún í sér gagngera endurskoðun á fyrri tilskipunum á sviði vörumerkja. Því var talið nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um vörumerki og laga um félagamerki með tilliti til þeirra breytinga. Til einföldunar og nánari skýringar hafa lög um félagamerki nr. 155/2002 verið felld inn í lög um vörumerki, líkt og hefur verið gert t.d. á Norðurlöndunum.

Með breytingunum opnast ný tækifæri í verndun merkja þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að merki þurfi að vera „sýnileg tákn“ heldur þarf það að uppfylla skilyrði um skýrleika, nákvæmni, aðgengileika o.fl., svo bæði stjórnvöld og almenningur geti áttað sig á inntaki verndarinnar. Þá hafa málsmeðferðarreglur verið skýrðar nánar og ferli vegna niðurfellingar skipt annars vegar í ógildingu og hins vegar niðurfellingu með ólíkum réttaráhrifum. Notkunarskylda mun nú miðast við endanlegan skráningardag og því munu merki ekki fá skráningardag fyrr en að loknu skráningarferli auk þess sem gildistími skráningar verður 10 ár frá umsóknardegi í stað þess að telja frá skráningardegi áður. 

Nýjar tegundir vörumerkja

Ein meginbreytingin sem gekk í gildi 1. september er að horfið var frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“.

Breytingar á málsmeðferð

Með breytingum á lögum um vörumerki sem tóku gildi 1. september urðu ýmsar breytingar á málsmeðferð umsókna og skráninga hér á landi.

Gerðir merkja skýrðar nánar

Með breytingunum 1. september fylgdu ítarlegri ákvæði en áður um félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki.