Helstu breytingar með reglugerð nr. 850/2020

Með nýrri reglugerð er reglugerð nr. 310/1997 felld úr gildi. Málsmeðferð Hugverkastofunnar varðandi umsóknir og síðar skráningar hefur nú verið útfærð nánar. Helstu nýmæli eru þessi:

Í 2. gr. er að finna lista yfir orðskýringar þar sem helstu hugtök á þessu sviði eru útskýrð. Til að mynda er nú skilgreint við hvaða tímamark skráningardagur miðar og þar með upphaf notkunarskyldu. Þegar endanleg skráning liggur fyrir er skráningarskírteini til staðfestingar gefið út, sbr. 18. gr.

Til þess að skýra nánar þær kröfur sem gerðar eru til merkja um skýrleika o.fl., sem settar eru fram í 2. gr. laganna, er kröfum til framsetningar á merki lýst í 7. gr. Tilgreindar eru helstu tegundir merkja og útlistað á hvern hátt þær skuli tilgreina í umsókn um skráningu merkis. Varði umsókn aðra tegund merkis en þarna er talin upp þarf lýsing að fylgja með umsókn. Ávallt er þó heimilt að leggja inn lýsingu. Tæknilegar kröfur til umsókna koma fram í 8. gr. en þeim er að öðru leyti lýst hverju sinni á vefsíðu Hugverkastofunnar.

Hugverkastofan fer samkvæmt 76. gr. ekki lengur fram á að umboðsskjal sé lagt fram þó umboðsmaður sé tilnefndur. Kröfur 35. gr. laganna um það í hvaða tilvikum skylt sé að tilnefna umboðsmann stendur þó óbreytt. Þrátt fyrir þessa tilslökun getur Hugverkastofan ávallt kallað eftir staðfestingu á umboði ef þess gerist þörf.

Málsmeðferð vegna umsókna og skráninga eru gerð skýr skil, frestir eru settir fram með gagnsærri hætti en áður þó Hugverkastofan hafi í einhverjum tilvikum svigrúm til mats á því hvað telst hæfilegur frestur. Málsmeðferð hefur nú verið sett ákveðið hámark og er miðað við að ákvörðun liggi fyrir í máli að 24 mánuðum liðunum frá því það hefst. Málsmeðferð vegna ábendinga á umsóknarstigi er útfærð í 16. gr. og málsmeðferð vegna andmæla, ógildingar og niðurfellingar hefur verið útfærð með hliðsjón af breyttum lagaákvæðum, sbr. VI-VIII. kafla reglugerðarinnar.

Hugverkastofan hefur nú heimild til að sameina mál, þ.e. úrskurða í einu lagi um kröfur ólíkra málsaðila eða í einu lagi um eðlislík mál í eigu sama aðila. Í tilteknum tilvikum er heimilt að fresta málsmeðferð, bæði að eigin frumkvæði stofnunarinnar en einnig í andmælamáli, vilji aðilar máls leita sátta. Þá er kveðið á um frestun réttaráhrifa í þeim tilvikum sem endanlegrar niðurstöðu er beðið fyrir áfrýjunarnefnd eða dómstólum í þeim málum sem fara þá leið.

Tvö ákvæði reglugerðarinnar taka ekki gildi fyrr en 1. apríl 2021. Annars vegar verður þá á grundvelli 4. gr. heimilt að leggja vöru- og/eða þjónustulista vegna landsbundinna umsókna fram á ensku. Eftir sem áður er stofnuninni heimilt að kalla eftir þýðingu ef þörf þykir. Hins vegar verður með 4. mgr. 7. gr. afnumin sú túlkun að merki í svart/hvítum lit nái til allra mögulegra litasamsetninga.

Með nýjum lögum voru skráningarskilyrði merkja skýrari en áður. Helstu viðbætur við almenn skráningarskilyrði merkja (e. absolute grounds) er synjun á grundvelli þess að tákn sýni lögun eða aðra eiginleika sem auka verðmæti vöru svo um munar og ef merki samanstanda af eða sýna í veigamiklum þáttum eldra skráð plöntuyrkisheiti. Þá var því enn fremur bætt við með skýrari hætti en áður að synja megi um skráningu merkis ef umsókn er lögð fram í vondri trú.

 

Á meðan umsókn er til meðferðar getur hver sem er lagt fram svokallaða ábendingu gegn skráningu merkis. Framlögð gögn með slíkri ábendingu verða þá hluti af rannsóknargögnum Hugverkastofunnar en sá sem leggur ábendinguna fram verður ekki aðili að málinu.

Með nýjum lögum varð breyting á verndartíma skráðra vörumerkja. Tíu ára gildistími merkja sem sótt er um eftir gildistöku laganna mun því hefjast á umsóknardegi. Gildistími eldri merkja helst óbreyttur og miðar við skráningardag. Eldri merki verða því áfram endurnýjuð að tíu árum liðnum frá skráningardegi eða alþjóðlegum skráningardegi þegar það á við.

Hugverkastofan tilkynnir um að komið sé að endurnýjun en ber ekki ábyrgð á því að tilkynning komist til skila. Mikilvægt er því að upplýsa stofnunina ávallt um aðilaskipti, breytt aðsetur og/eða netfang á gildistíma.

Málsmeðferð vegna andmæla varð skýrari og er m.a. unnt að óska eftir frestun málsmeðferðar í a.m.k. tvo mánuði vilji aðilar málsins leita sátta. Þá er ennfremur unnt að beita notkunarleysi sem vörn í andmælamáli, þ.e. eigandi þess merkis sem andmælt er getur, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, farið fram á að andmælandi sýni fram á notkun þess merkis sem andmælin byggja á.

Málsmeðferð vegna ógildingar og niðurfellingar var skipt upp. Merki verða ógilt með réttaráhrifum frá umsóknardegi ef þau hefði ekki átt að skrá en þau verða felld niður með réttaráhrifum frá dagsetningu kröfu um niðurfellingu (eða fyrr ef þess er krafist í málinu) ef ástæða kröfunnar er t.d. notkunarleysi.

Kveðið er skýrar á um inntak einkaréttar til merkis en nú er, þ.e. möguleika í tengslum við beitingu réttarins, sem og takmarkanir á honum. Auk þess var skerpt á rétti til að leggja bann við notkun merkis sem viðskipta- eða fyrirtækjaheiti og notkun merkis í samanburðarauglýsingum.

Lög um félagamerki voru sameinuð lögum um vörumerki og málsmeðferð vegna þeirra, sem og ábyrgðar- og gæðamerkja skýrð nánar. Helsta breytingin lýtur að eignarhaldi, sem og reglum eiganda um notkun merkisins. Þær reglur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði auk þess sem þess er nú krafist, verði breyting á þeim eftir skráningu, að nýjar reglur séu lagðar inn hjá Hugverkastofunni. Reglurnar munu fylgja skráningu merkis og verði þær uppfærðar fá þær nýjan gildistökudag.

Breyting á vörumerkjalögum

Þann 1. september áttu sér stað töluverðar breytingar varðandi skráningu merkja hér á landi með gildistöku breytinga á ákvæðum laga um vörumerki nr. 45/1997

Nýjar tegundir vörumerkja

Ein meginbreytingin sem gekk í gildi 1. september er að horfið var frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“.

Gerðir merkja skýrðar nánar

Með breytingunum 1. september fylgdu ítarlegri ákvæði en áður um félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki.