Til samræmis við ákvæði vörumerkjatilskipunarinnar, ná vörumerkjalög nú einnig yfir vernd félaga- og ábyrgðar- og gæðamerkja í stað þess að um þau gildi sérstök lög, sbr. lög um félagamerki, nr. 155/2002. Slík merki eru í eðli sínu vörumerki og um þau gilda að meginstefnu til sömu ákvæði um málsmeðferð, umfang verndar, framfylgni réttinda o.fl. og gilda um vörumerki. Aukin áhersla er hins vegar en áður var á reglur um notkun slíkra merkja. Reglur þurfa eftir sem áður að fylgja með umsókn en taki þær breytingum á gildistíma merkisins er skylt að tilkynna um þær breytingar til Hugverkastofunnar. Uppfærðar reglur eru þá birtar í Hugverkatíðindum og fá nýjan gildistökudag.

Þá er að finna í lögunum skilgreiningu á hugtökunum vörumerki, félagamerki og ábyrgðar- og gæðamerki. Nauðsynlegt var talið að kveða skýrt á um skilgreiningu þeirra og gera greinarmun á þeim, ekki síst þar sem mismunandi er hverjir geta sótt um og átt slík merki. Allir geta sótt um skráningu vörumerkis en aðeins félög og samtök, sem og opinberir aðilar geta sótt um skráningu félagamerkis og aðeins þeir sem setja staðla eða hafa eftirlit með vörum eða þjónustu geta sótt um skráningu ábyrgðar- og gæðamerkis.

Rétt er að taka fram að ákvæði laganna eiga við um allar tegundir merkja jöfnum höndum, þ.e. vörumerki sem og félagamerki og ábyrgðar- og gæðamerki, nema annað sé tiltekið sérstaklega.

Nánari upplýsingar um breytingar á vörumerkjalögum

Breyting á vörumerkjalögum

Þann 1. september áttu sér stað töluverðar breytingar varðandi skráningu merkja hér á landi með gildistöku breytinga á ákvæðum laga um vörumerki nr. 45/1997

Nýjar tegundir vörumerkja

Ein meginbreytingin sem gekk í gildi 1. september er að horfið var frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“.

Breytingar á málsmeðferð

Með breytingum á lögum um vörumerki sem tóku gildi 1. september urðu ýmsar breytingar á málsmeðferð umsókna og skráninga hér á landi.