Andmælaferli og frestir

Hægt er að leggja fram andmæli innan tveggja mánaða frá birtingardegi vörumerkis. Birtingadagur miðast við birtingu í ELS tíðindum Hugverkastofunnar sem eru gefin út einu sinni í mánuði.

Hugverkastofan tilkynnir eiganda skráningar um framkomin andmæli og er honum gefinn kostur á að tjá sig um þau innan tilskilins frests. Komi fram athugasemdir frá eiganda skráningar getur Hugverkastofan veitt aðilum frest til að leggja fram frekari greinargerðir, sé þess talin þörf. Almennt fá aðilar máls tækifæri til að leggja inn tvær greinargerðir hvor.  

Andmælandi getur óskað eftir tveggja mánaða fresti til að leggja fram frekari gögn til stuðnings andmælunum, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um skráningu vörumerkja, með síðari breytingum. 

Að lokinni gagnaöflun úrskurðar Hugverkastofan í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og er úrskurðurinn birtur í ELS-tíðindum. 

Meðal annars er hægt er að leggja fram andmæli gegn skráningu vörumerkis ef viðkomandi telur að: 

  • Þegar hafi verið sótt um skráningu merkisins fyrir sömu vöru- og þjónustuflokka. 
  • Þegar hafi verið sótt um sama eða svipað merki fyrir sömu eða svipaða vöru- og þjónustuflokka þar sem talið er að hætta sé á rugling. 
  • Nýleg vörumerkjaskráning geti skapað ruglingshættu við annað merki sem hafi öðlast vörumerkjarétt á grundvelli notkunar. 

Andmælum ber að skila skriflega til Hugverkastofunnar innan tveggja mánaða frá birtingardegi. Skila má andmælum á rafrænu formi. Andmæli skulu rökstudd og þeim skal fylgja tilskilið gjald skv. gildandi gjaldskrá, sem ekki er endurgreitt. 

Í andmælum skal koma fram: 

  • Nafn andmælanda og heimilisfang.  

  • Nafn umboðsmanns (ef við á). 

  • Númer þeirrar skráningar sem andmælt er. 

  • Númer tölublaðs sem skráning var birt í.

  • Helstu rök fyrir andmælum.  

Hér er hægt að nálgast úrskurði Hugverkastofunnar í andmælamálum.

Niðurstöðu Hugverkastofunnar í andmælamáli er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá úrskurði stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar til dómstóla, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna. 

Sjá niðurstöður áfrýjunarmála

Andmælaferlið

Í ELS-tíðindum, sem birt eru á heimasíðu Hugverkastofunnar, eru birtar tilkynningar um umsóknir 18 mánuðum eftir að þær eru lagðar inn. Eftir birtingu geta allir fengið aðgang að umsókninni, öðrum gögnum og samskiptum tengdum henni og kynnt sér efni þeirra. Á umsóknartímanum getur hver sem er lagt inn ábendingu gegn umsókninni sem Hugverkastofan verður að taka afstöðu til, sbr. 29. gr. reglugerðar um einkaleyfi.

Innan 9 mánaða frá því að einkaleyfi er gefið út getur hver sem er lagt inn andmæli gegn einkaleyfinu hjá Hugverkastofunni, sbr. 21. gr. einkaleyfalaga og IV. kafla reglugerðar um einkaleyfi. Hugverkastofan skoðar andmælin og tekur ákvörðun um það hvort einkaleyfið skuli standa óbreytt, í breyttri mynd eða hvort það skuli fellt niður, allt eftir því hvaða upplýsingar koma fram í andmælagögnunum.

Eftir að 9 mánuðir eru liðnir frá því að einkaleyfi er gefið út verða þeir sem telja að einkaleyfið sé ekki veitt réttilega eða sem telja að brotið hafi verið á einkaleyfarétti sínum að bera mál sitt undir dómstóla, sjá nánar IX. kafla einkaleyfalaga. 
 

Hér er hægt að nálgast úrskurði Hugverkastofunnar í andmælamálum.