Formleg rannsókn

Eftir að umsóknargjald hefur verið greitt er kannað hvort umsóknin uppfylli öll formskilyrði: 

 • Ef um er að ræða félagamerki, fylgja reglur um notkun þess með umsókninni? 
 • Ef umsækjandi er frá ríki sem er hvorki aðili að Parísarsamþykktinni né Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), fylgir með umsókninni sönnun þess að hann eigi samsvarandi merki skráð í því ríki? 
 • Ef vöru- og/eða þjónustulisti umsóknarinnar er á öðru tungumáli en íslensku, fylgir íslensk þýðing með umsókninnni 
 • Eru tilgreiningar vöru og/eða þjónustu rétt flokkaðar og/eða nægjanlega skýrar? 
 • Ef ofangreind formskilyrði eru ekki uppfyllt er veittur þriggja mánaða frestur til að bæta úr því (hægt að framlengja).   

Þegar gengið hefur verið úr skugga um að umsókn um skráningu vörumerkis uppfylli formskilyrði er hún tekin til efnislegrar rannsóknar. Rannsókn Hugverkastofunnar felst í mati á því hvort viðkomandi vörumerki uppfylli skilyrði laga um vörumerki nr. 45/1997 (vml.) um skráningarhæfi. 

Vörumerki verður að:

 • Hafa aðgreiningarhæfi, þ.e. vera til þess fallið að greina vöru eða þjónustu eiganda þess frá vöru eða þjónustu annarra, sbr. 1. mgr. 13. gr. vml.
 • Hafa sérkenni, þ.e. vera nægjanlega sérkennilegt svo almenningur festi sér það í minni sem auðkenni á vöru eða þjónustu frá ákveðnum aðila, sbr. 1. mgr. 13. gr. vml.

Hafa ber í huga að vörumerki sem innihalda orð sem ekki teljast uppfylla kröfur um nægjanlegt sérkenni ein og sér, eins og t.d. orðin Ísland eða gæðaþjónusta, geta þó fengist skráð ef þau eru sett fram í tiltekinni útfærslu eða með mynd sem talin er nægjanlega sérkennileg. Nær einkarétturinn þá til heildarmyndar merkisins en ekki orðanna sem slíkra. Hér má sjá dæmi um þau viðmið sem Hugverkastofan fer eftir við mat á skráningarhæfi slíkra merkja.

Við mat á sérkenni merkis ber m.a. að líta til þess hversu lengi og að hve miklu leyti merkið hefur verið í notkun, sbr. 2. mgr. 13. gr. vml. Kemur því til greina að unnt sé að sýna fram á að merki, sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um nægjanlegt sérkenni, hafi öðlast slíkt sérkenni með notkun á markaði ef það hefur verið notað með þeim hætti að neytendur tengi merkið við umsækjanda, sjá 2. mgr. 3. gr. vml. Skráning á þeim grundvelli getur þó einungis náð til þeirrar vöru eða þjónustu sem merkið hefur sannanlega verið notað fyrir.

Vörumerki má ekki:

 • Eingöngu eða aðeins með smávægilegum breytingum lýsa eða gefa til kynna tegund vöru eða þjónustu, ástand, magn, notkun, verð, uppruna, eiginleika eða hvenær vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi o.fl., sbr. 1. mgr. 13. gr. vml.
 • Innihalda tákn eða orðasambönd sem eru almenns eðlis, algeng í viðskiptum eða sem notuð eru í daglegu máli, sbr. 1. mgr. 13. gr. vml.
 • Innihalda opinber tákn á borð við fána eða skjaldarmerki, heiti og merki alþjóðastofnana o.fl. nema að fengnu leyfi þar til bærra aðila, sbr. 1. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.*
 • Vera til þess fallið að villa um fyrir neytendum, t.d. um tegund vöru eða þjónustu, ástand, uppruna, eiginleika o.fl., sbr. 2. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Vera andstætt lögum eða allsherjarreglu eða til þess fallið að valda hneyksli, sbr. 3. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Vera ruglingslega líkt heiti á virkri atvinnustarfsemi, þ.e. fyrirtækjaheiti annars aðila, sbr. 4. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Innihalda sérkennilegt heiti á fasteign annars manns eða mynd af henni, sbr. 4. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Innihalda nafn eða mynd annars manns þannig að ljóst sé að átt sé við tiltekinn mann, sbr. 4. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Ganga á höfundarétt eða hugverkarétt annars aðila, sbr. 5. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Vera ruglingslega líkt eldra vörumerki sem hefur verið skráð eða notað hér á landi þegar umsókn er lögð inn, sbr. 6. og 8. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Vera ruglingslega líkt eldra vörumerki sem telst alþekkt hér á landi þegar umsókn er lögð inn, sbr. 7. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Vera ruglingslega líkt vörumerki sem hefur verið í notkun í öðru landi á þeim tíma sem umsókn var lögð inn, eða frá forgangsréttardegi, og er enn notað þar fyrir sömu eða líka vöru eða þjónustu og yngra merkið óskast skráð fyrir og umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið, sbr. 9. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Innihalda afurðarheiti sem er verndað samkvæmt lögum um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu nr. 130/2014 fyrir sömu eða svipaðar vörur og umsókn um skráningu vörumerkis tekur til og umsókn um vernd afurðarheitis varð lögð inn á undan umsókn um vörumerki, sbr. 10. tl. 1. mgr. 14. gr. vml.
 • Innihalda landfræðileg heiti á vínum og sterkum drykkjum, ef merkið óskast skráð fyrir slíkar vörur, nema þær séu upprunnar frá viðkomandi stað, sbr. 3. mgr. 14. gr. vml.

* Almennt er heimilt að nota íslenska þjóðfánann við merkingar á söluvörum til staðfestingar þess að um íslenskar vörur sé að ræða. Sé ætlunin hins vegar að skrá vörumerki sem inniheldur íslenska fánann hjá Hugverkastofunni þarf leyfi Neytendastofu að koma til. Liggi leyfið ekki fyrir þegar umsókn er lögð inn áframsendir Hugverkastofan umsóknina til meðferðar hjá Neytendastofu og tilkynnir umsækjanda þar um. Öll frekari samskipti vegna leyfisins fara fram á milli Neytendastofu og umsækjanda. Þegar ákvörðun Neytendastofu um samþykki eða synjun leyfis liggur fyrir er umsókn síðan tekin til meðferðar að nýju hjá Hugverkastofunni. Finna má frekari upplýsingar um málsmeðferð vegna slíkra leyfa á heimasíðu Neytendastofu. Eins er unnt að leita frekari upplýsinga hjá starfsfólki Hugverkastofunnar eða hjá Neytendastofu.

Bent skal á að heimilt er að skrá merki ef samþykki eiganda eldra vörumerkis eða rétthafa annarra réttinda sem standa í vegi fyrir skráningu liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 14. gr. vml.

Ef engar hindranir eru til staðar að mati Hugverkastofunnar er vörumerki skráð. Uppfylli merkið hins vegar ekki skráningarskilyrði að mati stofnunarinnar er umsókn synjað að svo stöddu.
 

Umsækjandi fær tilkynningu um synjun og er veittur þriggja mánaða frestur til að færa rök fyrir skráningu merkisins og/eða til að leggja fram gögn sem styðja skráningarhæfi þess. Athugið að unnt er að framlengja umræddan frest samkvæmt beiðni umsækjanda. Sé umsókn áfram synjað að fengnu erindi frá umsækjanda er honum veittur lokafrestur til að leggja fram frekari rök/gögn. Leiði þau ekki til skráningar merkisins tekur Hugverkastofan ákvörðun um að hafna umsókn. 

Meðhöndlun einkaleyfaumsókna

Hugverkastofan skoðar hvort öllum skilyrðum sé fullnægt, þ.e. hvort: 

 • Umsóknargjald sé greitt. 
 • Umsóknin innihaldi öll nauðsynleg gögn. 
 • Form umsóknar sé í lagi. 
 • Efnislegt innihald umsóknar sé þannig úr garði gert að efnisleg rannsókn geti farið fram. 

Hugverkastofan sendir bréf til umsækjanda þar sem útskýrt er hvaða úrbætur þarf að gera á umsókn og gefur frest til þess að lagfæra hana. Mikilvægt er að svara bréfum stofnunarinnar innan gefins frests, annars verður umsóknin afskrifuð (sjá 15. gr. einkaleyfalaga).  

Þegar búið er að lagfæra umsókn, ef á henni voru ágallar, fer umsókn í efnislega rannsókn. Í rannsókninni er eftirfarandi skoðað af sérfræðingi á viðkomandi tæknisviði: 

 • Hvort uppfinningin sé hagnýtanleg í atvinnulífi, þ.e. hvort hana sé hægt að fjölfalda, framleiða og selja. 
 • Hvort uppfinning sé ný í samanburði við aðrar uppfinningar í sama tækniflokki. 
 • Ef uppfinningin er ný er skoðað hvort hún sé frumleg, þ.e. hvort uppfinningin sé nægilega frábrugðin því sem er þekkt í dag til þess að geta talist ný uppfinning. 

 
Rannsakandi tekur saman skýrslu sem Hugverkastofan framsendir til umsækjanda. Umsækjandi fær í fyrstu 8 mánaða frest til þess að skila inn athugasemdum við rannsóknina og t.d. koma með mótrök. Oft ganga bréfaskriftir milli rannsakanda og umsækjanda nokkrum sinnum þar til niðurstaða er fengin. Umsækjandi fær ávallt frest til þess að bregðast við athugasemdum. 

Niðurstaðan er ýmist sú að umsókn sé hæf til útgáfu, oft eftir að á henni hafa verið gerðar lagfæringar, eða að umsókn sé ekki hæf til útgáfu. Henni er þá hafnað (sjá 16. gr. einkaleyfalaga). 

Ef umsækjanda verður á í messunni og gleymir að svara bréfum frá Hugverkastofunni eða greiða tilskilin gjöld verður umsókn afskrifuð (sjá 15. gr. einkaleyfalaga). Þrátt fyrir það eru ýmis úrræði í boði ef umsækjandi vill halda umsókn til streitu: 

 • Endurupptaka (sjá 15. gr. einkaleyfalaga) 
 • Endurveiting (sjá 72. gr. einkaleyfalaga) 
 • Áfrýjun (sjá 24. gr. einkaleyfalaga) 

Ef umsækjandi missir af öllum tímafrestum tengdum þessum úrræðum er umsókn endanlega afskrifuð og þá er ekki hægt að vekja hana til lífsins aftur. Séu 18 mánuðir liðnir frá því umsókn var lögð inn er uppfinningin jafnframt orðin opinber og telst þá til þekktrar tækni. Eftir það getur umsókn hamlað því að uppfinningamaðurinn fái einkaleyfi á sömu eða svipaðri uppfinningu þar sem uppfinningin teldist þá ekki ný. Vegna þessa er mjög mikilvægt að svara öllum bréfum Hugverkastofunnar innan tímamarka og greiða tilheyrandi gjöld.  

Meðhöndlun umsóknar

Einkaleyfastofan kannar hvort formskilyrði varðandi umsókn séu uppfyllt áður en hönnun er samþykkt til skráningar. Ennfremur er skoðað hvort umsókn uppfylli skilyrði um hvort um hönnun er að ræða, sem og hvort umsókn fari gegn siðgæði eða allsherjarreglu. Ekki fer fram sérstök könnun á því hvort hönnun telst vera ný og sérstæð. Hins vegar getur Hugverkastofan, gegn beiðni og sérstöku gjaldi, framkvæmt ítarlega rannsókn.

Hönnun telst ný ef hún hefur ekki verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag eða forgangsréttardag. Við mat á því hvort hönnun telst ný er miðað við það hvort eins hönnun hafi verið gerð aðgengileg, en ekki hvort að svipuð hönnun fyrirfinnist.

Svonefndur „griðtími" er undantekning frá fyrrgreindu skilyrði um að hönnun hafi ekki verið gerð aðgengileg fyrir umsóknardag.

Umsækjandi getur óskað eftir því að skráningu verði frestað í allt að 6 mánuði frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, sé hans krafist. Beiðnin felur í sér að myndum af hönnuninni sé haldið leyndum. 

Berist Hugverkastofunnar beiðni um að hönnunarskráning verði felld úr gildi er eiganda tilkynnt um beiðnina og báðum aðilum veittur frestur til að leggja fram greinargerð og gögn máli sínu til stuðnings.

Frestur til að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar er tveir mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar Hugverkastofunnar. Einnig er hægt að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir dómstóla.