Um niðurfellingu

Þegar merki hefur verið skráð og frestir til andmæla eru liðnir er hægt fara fram á að skráning merkis verði felld niður. 

Hver sem er getur krafist þess að Hugverkastofan felli niður skráningu merkis. Unnt er að fara fram á niðurfellingu þegar: 

 • merki hefur ekki verið notað í samræmi við 25. gr. vml., þ.e. innan fimm ára frá því skráningarferli lauk eða í fimm ár samfleytt og  

 • ef talið er að skráð merki hafi öðlast almenna merkingu (e. degeneration) eða  

 • merkið er notað á þann hátt að það getur villt um fyrir almenningi t.d. varðandi eiginleika vöru eða þjónustu eða uppruna hennar. 

Kröfu um niðurfellingu má leggja fram hvenær sem er, þó er aðeins hægt að byggja kröfu á notkunarleysi þegar 5 ár eru liðin frá skráningardegi (merki skráð fyrir 1. september 2020) eða frá lokum málsmeðferðar / endanlegum skráningardegi (merki skráð eftir 1. september 2020).  

 

Kröfu um niðurfellingu skráningar þarf að beina skriflega til Hugverkastofunnar og fyrir kröfuna þarf samhliða að greiða tilskilið gjald samkvæmt gjaldskrá. 

Í kröfu þarf að koma fram: 

 • nafn þess sem fer fram á niðurfellingu skráningar ásamt tengiliðaupplýsingum, einkum heimilisfang og netfang og upplýsingum um umboðsmann ef við á, 

 • merkið sem krafist er niðurfellingar á ásamt númeri þess og flokkum (númer og tilgreiningar), 

 • rökstuðningur fyrir kröfunni, 

 • nauðsynleg gögn til stuðnings kröfunni, ef við á. 

Ef skilyrðin eru ekki uppfyllt er veittur stuttur frestur til lagfæringa.  Kröfu er annars vísað frá ef skilyrðin eru ekki uppfyllt og eins ef mál vegna sama merkis er á sama tíma rekið fyrir dómstólum. 

 

Þegar formskilyrði eru uppfyllt er krafa um niðurfellingu áframsend á eiganda merkisins og honum veitt færi á að tjá sig um hana. Almenna reglan er sú að aðilar fá að tjá sig tvisvar. Hægt er að óska eftir framlengingu á frestum en beiðni þess efnis þarf að berast Hugverkastofunni áður en fresturinn sem gefinn var rennur út. 

Ef ekkert svar berst frá eiganda er fjallað um kröfuna á grundvelli greinargerðar beiðanda eingöngu. 

Ef um notkunarleysi er að ræða er það eiganda merkisins að sanna að hann hafi notað merkið. 

Ef dómsmál er höfðað eftir að krafa berst en áður en Hugverkastofan hefur tekið ákvörðun er málsmeðferð frestað þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir. 

Þegar aðilar hafa fengið að tjá sig ákvarðar Hugverkastofan í málinu. Verði merki fellt niður miða réttaráhrif við dagsetningu kröfu um niðurfellingu nema fram komi beiðni í málinu um að miða skuli við aðra dagsetningu. Litið er svo á að skráning merkis hafi verið í gildi fram að niðurfellingu ólíkt málsmeðferð varðandi ógildingu. 

Ákvarðanir í niðurfellingarmálum eru birtar í Hugverkatíðindum og í heild sinni hér ásamt greinargerðum málsaðila. 

 

Hér er hægt að sjá nýjustu niðurfellingarmálin.

Ákvörðun Hugverkastofunnar um niðurfellingu skráningar er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá ákvörðun stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar til dómstóla, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna.

Um ógildingu

Þegar merki hefur verið skráð og frestir til andmæla eru liðnir er hægt fara fram á að skráning merkis verði ógild. 

Ákvæði varðandi ógildingu skráningar er að finna í III. kafla laga nr. 45/1997 um vörumerki og VII. kafla reglugerðar nr. 850/2020 um umsóknir og skráningu vörumerkja, félagamerkja og ábyrgðar- og gæðamerkja.  

Hver sem er getur krafist þess að Hugverkastofan ógildi skráningu merkis. Unnt er að fara fram á ógildingu ef merki er talið hafa verið skráð andstætt ákvæðum vörumerkjalaga, einkum 2., 13. og 14. gr. vml. 

Aðeins er hægt að byggja kröfu um ógildingu merkis, sem skráð var fyrir 1. september 2020, á þeim málsástæðum sem til staðar voru í vörumerkjalögum á þeim tíma sem merkið var skráð.  

Kröfu um ógildingu skráningar þarf að beina skriflega til Hugverkastofunnar og fyrir kröfuna þarf samhliða að greiða tilskilið gjald samkvæmt gjaldskrá. 

Í kröfu þarf að koma fram: 

 • nafn þess sem fer fram á ógildingu skráningar ásamt tengiliðaupplýsingum, einkum heimilisfang og netfang og upplýsingum um umboðsmann ef við á, 

 • merkið sem krafist er ógildingar á ásamt númeri þess og flokkum (númer og tilgreiningar), 

 • rökstuðningur fyrir kröfunni, 

 • nauðsynleg gögn til stuðnings kröfunni, ef við á. 

Ef skilyrðin eru ekki uppfyllt er veittur stuttur frestur til lagfæringa.  

Kröfu er annars vísað frá ef skilyrðin eru ekki uppfyllt og eins ef mál vegna sama merkis er á sama tíma rekið fyrir dómstólum. 

Þegar formskilyrði eru uppfyllt er krafa um ógildingu áframsend á eiganda og honum veitt færi á að tjá sig um hana. Almenna reglan er sú að aðilar fá að tjá sig tvisvar. Hægt er að óska eftir framlengingu á frestum en beiðni þess efnis þarf að berast Hugverkastofunni áður en fresturinn sem gefinn var rennur út. 

Ef ekkert svar berst frá eiganda er fjallað um kröfuna á grundvelli greinargerðar beiðanda eingöngu. 

Ef dómsmál er höfðað eftir að krafa berst en áður en Hugverkastofan hefur tekið ákvörðun er málsmeðferð frestað þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir. 

Þegar aðilar hafa fengið að tjá sig ákvarðar Hugverkastofan í málinu. Verði skráning merkis lýst ógild miða réttaráhrif ákvörðunar við umsóknardag. Litið er því svo á að hún hafi aldrei verið gild, ólíkt málsmeðferð varðandi niðurfellingu. 

Ákvarðanir í ógildingarmálum eru birtar í Hugverkatíðindum og í heild sinni hér ásamt greinargerðum málsaðila. 

Ákvörðun Hugverkastofunnar um ógildingu skráningar er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá ákvörðun stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar til dómstóla, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna.

Um ógildingu skráðrar hönnunar

Þeir aðilar sem hugsanlega telja sig eiga betri rétt til hönnunar geta hvenær sem er á verndartíma hennar krafist ógildingar á skráningunni.

Kröfu er annars vísað frá ef skilyrðin eru ekki uppfyllt og eins ef mál vegna sömu hönnunar er á sama tíma rekið fyrir dómstólum. 

Frestur til að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar er tveir mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar Hugverkastofunnar. Einnig er hægt að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir dómstóla.

Um ógildingu einkaleyfis

Ógilda má einkaleyfi í heild eða að hluta með dómi ef: 

 • Það hefur verið veitt án þess að skilyrði 1. og 2. gr. einkaleyfalaga séu uppfyllt. 
 • Ef einkaleyfi varðar uppfinningu sem ekki er lýst svo greinilega að fagmaður geti útfært uppfinninguna á grundvelli lýsingarinnar. 
 • Það tekur til einhvers sem ekki kom fram í umsókn þegar hún var lögð inn. 
 • Verndarsvið einkaleyfisins hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynntu umsækjanda að unnt væri að veita einkaleyfi.  

Áhrif þess að einkaleyfi sé ógilt í heild eða að hluta með dómi miðast við umsóknardag. Hver sem er getur almennt höfðað mál til ógildingar einkaleyfis nema í þeim tilfellum sem mál er reist á því að einhver annar hafi öðlast einkaleyfi en sá sem á rétt til þess. Getur rétthafi þá krafist þess að rétturinn sé yfirfærður til hans með dómi. Slíkt mál getur sá einn höfðað er telur sig eiga rétt til einkaleyfisins og skal það gert innan 1 árs frá því að viðkomandi fékk vitneskju um útgáfu einkaleyfisins og önnur þau atvik sem málsókn er reist á. Hafi einkaleyfishafi hins vegar verið í góðri trú þegar einkaleyfið var veitt eða þegar hann eignaðist það er ekki undir neinum kringumstæðum unnt að höfða mál eftir að 3 ár eru liðin frá útgáfu einkaleyfis. sjá nánar VII. kafla einkaleyfalaga.