Um niðurfellingu vörumerkja

Hægt er að fara fram á að vörumerki verið afmáð, í daglegu tali nefnt stjórnsýsluleg niðurfelling, með einföldu ferli hjá Hugverkastofunni.

Í  30. gr. a vörumerkjalaga, sbr. 28. gr. laganna, er að finna úrræði sem snýr að afnámi skráningar.

Hver sá sem telur sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta getur krafist þess að Hugverkastofunni felli úr gildi skráningu vörumerkis sem hann telur að brjóti á öðru vörumerki en einnig er hægt að krefjast niðurfellingu á merki vegna þess að það er talið of almennt og/eða lýsandi eða vegna notkunarleysis.

Kröfu um niðurfellingu skráningar ber að skila skriflega til Hugverkastofunni, sbr. 13. gr. reglugerðar um skráningu vörumerkja o.fl., með síðari breytingum. Skila má kröfu um niðurfellingu skráningar á rafrænu formi. Kröfunni skal jafnframt fylgja tilskilið gjald skv. gildandi gjaldskrá, sem ekki er endurgreitt.

Í kröfu um niðurfellingu skal koma fram:

 • Nafn þess sem krefst niðurfellingar skráningar og heimilisfang
 • Nafn umboðsmanns (ef við á)
 • Númer skráningarinnar
 • Helstu rök fyrir kröfunni ásamt nauðsynlegum gögnum henni til stuðnings

 

Krafa um niðurfellingu er ekki bundin neinum tímatakmörkunum og hægt að leggja hana inn hvenær sem er að því undanskildu að hún byggi á notkunarleysi, sbr. 25. gr. laganna, en þá þurfa fimm ár að vera liðin frá skráningardegi.

Ef rökstuðningur er að mati Hugverkastofunnar ábótavant er veittur tveggja mánaða frestur til að bæta úr því. Ef rökstuðningur berst ekki er krafan ekki tekin til efnislegrar meðferðar.

Hugverkastofunnar tilkynnir eiganda skráningar um framkomna kröfu um niðurfellingu og er honum gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Komi fram athugasemdir frá eiganda skráningar getur Hugverkastofan veitt aðilum frest til að leggja fram frekari greinargerðir, sé þess talin þörf. Almennt fá aðilar máls tækifæri til að leggja inn tvær greinargerðir hvor. Að lokinni gagnaöflun ákvarðar Hugverkastofan í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og er ákvörðunin birt í ELS-tíðindum.

Hver sá sem telur sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta getur farið fram á niðurfellingu vörumerkis telji hann að:

 1. Vörumerkið sé of almennt og/eða lýsandi
 2. Ekki hafi verið raunveruleg notkun á vörumerkinu í fimm ár á meðan það var skráð.

Eigandi vörumerkis getur farið fram á niðurfellingu á nýlegra skráðu vörumerki telji hann að:

 1. Vörumerkin séu eins og séu skráð fyrir sömu vörur og þjónustu.
 2. Þegar hafi verið sótt um sama eða svipað merki fyrir sömu eða svipaða vöru- og þjónustuflokka þar sem talið er að hætta sé á rugling. 
 3. Nýleg vörumerkjaskráning geti skapað ruglingshættu við annað merki sem hafi öðlast vörumerkjarétt á grundvelli notkunar. 

Hér er hægt að sjá nýjustu niðurfellingarmálin.

Niðurstöðu Hugverkastofunnar í máli er varðar kröfu um niðurfellingu skráningar er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá ákvörðun stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar til dómstóla, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna.

Um ógildingu skráðrar hönnunar

Hægt er að leggja fram beiðni til Hugverkastofunnar um að skráning verði felld niður að nokkru eða öllu leyti, sbr. 27. gr. hönnunarlaga. Tilskilið gjald þarf að greiða fyrir beiðni um ógildingu á þessum grundvelli.  

Beiðni um ógildingu, hvort sem er á grundvelli 25. eða 27. gr. hönnunarlaga, þarf ekki að hafa borist innan tiltekins frests heldur er hægt að leggja hana inn hvenær sem er á meðan viðkomandi hönnun er enn skráð. Málsmeðferðin fer fram með sama hætti og þegar um andmæli eða kröfu um niðurfellingu gegn skráðu merki er að ræða.  

Frestur til að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar er tveir mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar Hugverkastofunnar. Einnig er hægt að bera ákvörðun Hugverkastofunnar undir dómstóla.

Um ógildingu einkaleyfis

Ógilda má einkaleyfi í heild eða að hluta með dómi ef: 

 • Það hefur verið veitt án þess að skilyrði 1. og 2. gr. einkaleyfalaga séu uppfyllt. 
 • Ef einkaleyfi varðar uppfinningu sem ekki er lýst svo greinilega að fagmaður geti útfært uppfinninguna á grundvelli lýsingarinnar. 
 • Það tekur til einhvers sem ekki kom fram í umsókn þegar hún var lögð inn. 
 • Verndarsvið einkaleyfisins hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynntu umsækjanda að unnt væri að veita einkaleyfi.  

Áhrif þess að einkaleyfi sé ógilt í heild eða að hluta með dómi miðast við umsóknardag. Hver sem er getur almennt höfðað mál til ógildingar einkaleyfis nema í þeim tilfellum sem mál er reist á því að einhver annar hafi öðlast einkaleyfi en sá sem á rétt til þess. Getur rétthafi þá krafist þess að rétturinn sé yfirfærður til hans með dómi. Slíkt mál getur sá einn höfðað er telur sig eiga rétt til einkaleyfisins og skal það gert innan 1 árs frá því að viðkomandi fékk vitneskju um útgáfu einkaleyfisins og önnur þau atvik sem málsókn er reist á. Hafi einkaleyfishafi hins vegar verið í góðri trú þegar einkaleyfið var veitt eða þegar hann eignaðist það er ekki undir neinum kringumstæðum unnt að höfða mál eftir að 3 ár eru liðin frá útgáfu einkaleyfis. sjá nánar VII. kafla einkaleyfalaga.