Umboð
Ef umsækjandi er ekki með lögheimili á Íslandi er honum skylt að tilnefna umboðsmann sem getur komið fram fyrir hans hönd varðandi umsóknina. Öðrum er það heimilt. Umboðsmaðurinn má vera búsettur á EES-svæðinu.
Hugverkastofan krefst almennt ekki sönnunar á umboði, s.s. umboðsskjals, en nauðsynlegt er þó að umboðsmaðurinn staðfesti með einum eða öðrum hætti að hann taki að sér umboðsmennskuna. Þegar umboðsmaður kemur fram fyrir hönd umsækjanda/eiganda er nafn hans skráð í viðeigandi skrá og birt.
Ef skyldu til að tilnefna umboðsmann eða leggja fram umboðsskjal er ekki sinnt á eigandi það á hættu að réttindi hans falli niður, sbr. viðeigandi laga- og reglugerðarákvæði þar um.
Umboðskjal þarf ávallt að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði og innihalda:
- Nafn umsækjanda/eiganda, kennitölu, heimilisfang, póstnúmer og stað, land
- Nafn umboðsmanns, kennitölu, heimilisfang, póstnúmer og stað, land
- Skýringu á umfangi umboðs:
- Heiti einkaleyfis, texti merkis, tilgreining hönnunar;
- Númer þeirra réttinda sem um ræðir ef ekki er um allsherjarumboð að ræða;
- Tilgreining á þeim aðgerðum sem umboð nær til.
- Undirskrift umsækjanda/eiganda eða þess sem ritar undir fyrir hans hönd ef um fyrirtæki er að ræða.
- Staður og dagsetning
Fyrirmynd að einföldu umboði má nálgast hér
Hugverkastofan getur ávallt kallað eftir umboði ef þess er talin þörf og samskipti við stofnunina skulu að meginstefnu til fara fram á íslensku.
Skylda til að tilnefna umboðsmann er skilgreind í 35. gr. vörumerkjalaga og 76. gr. reglugerðar um vörumerki. Sjá lög og reglur nánar hér.
Í eftirfarandi tilvikum (ekki tæmandi) þarf skýrt umboð að vera til staðar:
- Umboðsmaður er tilnefndur í umsókn sem umsækjandi leggur inn sjálfur en umboð/staðfesting liggur ekki fyrir. Ekki skiptir máli hvort um innlendan eða erlendan aðila er að ræða.
- Íþyngjandi aðgerðir: Lögð er fram beiðni sem telja má íþyngjandi fyrir umsækjanda / eiganda og annar fer fram á en hann sjálfur eða skráður umboðsmaður, t.d.:
- Aðilaskipti. Óski umboðsmaður eftir því að taka ekki að sér umboðsmennsku fyrir nýjan eiganda telst nýr eigandi vera án umboðsmanns og fer mál hans þá í viðeigandi ferli.
- Beiðni um breytingu á útliti merkis eða umfangi umsóknar eða skráningar, s.s. takmörkun eða nánari tilgreining á vörulista (á líftíma umsóknar/skráningar eða við endurnýjun).
- Innfærsla á veðsetningu, aðför eða nytjaleyfi.
- Afturköllun eða hlutun umsóknar eða skráningar.
- Fleiri en einn umboðsmaður kemur fram fyrir hönd umsækjanda eða eiganda
- Umsókn er synjað (landsbundin eða alþjóðleg) og fleiri en einn umboðsmaður óskar eftir fresti til að bregðast við.
- Umboðsmaður er á skrá en skipt er um umboðsmann á meðan á málsmeðferð stendur.
- Vafi leikur á umboðsmennsku
- Eigandi er án umboðsmanns við afturköllun umboðs.
- Eldra umboð á máli nær ekki til nýs eiganda í kjölfar aðilaskipta.
- Umboðsmaður er tilnefndur en engin merki eru um að umboðsmaður hafi vitneskju um umboðsmennskuna.
Skylda til að tilnefna umboðsmann er skilgreind í 12. gr. einkaleyfalaga og 95. gr. reglugerðar um einkaleyfi. Sjá lög og reglur nánar hér.
Í eftirfarandi tilvikum (ekki tæmandi) þarf skýrt umboð að vera til staðar:
- Umboðsmaður er tilnefndur í umsókn sem umsækjandi leggur inn sjálfur en umboð/staðfesting liggur ekki fyrir. Ekki skiptir máli hvort um innlendan eða erlendan aðila er að ræða.
- Óskað er eftir því að aðilaskipti/veð/aðför/nytjaleyfi verði færð í einkaleyfaskrá.
- Nýr umboðsmaður tekur við málarekstri eftir að umsókn er lögð inn.
- Óskað er eftir hlutun eða úrfellingu eða farið er framá að umsókn eða einkaleyfi verði afturkallað/fellt úr gildi.
- Farið er fram á endurveitingu réttinda eða tekið til varna í andmælamáli.
Hugverkastofan getur ávallt kallað eftir umboði ef þess er talin þörf.
Skylda til að tilnefna umboðsmann er skilgreind í 47. gr. hönnunarlaga. Sjá lög og reglur nánar hér.
Í eftirfarandi tilvikum (ekki tæmandi) þarf skýrt umboð að vera til staðar:
- Umboðsmaður er tilnefndur í umsókn sem umsækjandi leggur inn sjálfur en umboð/staðfesting liggur ekki fyrir. Ekki skiptir máli hvort um innlendan eða erlendan aðila er að ræða.
- Óskað er eftir því að aðilaskipti/veð/aðför/nytjaleyfi verði færð í hönnunarskrá.
- Nýr umboðsmaður tekur við málarekstri eftir að umsókn er lögð inn.
- Farið er fram á að umsókn eða skráning verði endurnýjuð/hlutuð/afturkölluð/felld úr gildi.
- Óskað er eftir endurveitingu réttinda til hönnunar eða tekið er til varna vegna beiðni um ógildingu hönnunar.
Hugverkastofan getur ávallt kallað eftir umboði ef þess er talin þörf.