Alþjóðleg umsókn

Með alþjóðlegri umsókn er hægt að sækja um skráningu vörumerkis í einu eða fleiri aðildarríkjum Madrid-bókunarinnar sem er alþjóðlegt skráningarkerfi á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (World Intellectual Property Organization - WIPO) í Genf. Hægt er að velja yfir 100 ríki í umsókninni og má þar nefna Evrópusambandið, Kína og Bandaríkin. Til að sjá lista yfir öll aðildarríkin á vef WIPO smelltu hér.

Alþjóðleg umsókn þarf að byggja á innlendri skráningu eða umsókn. Umsækjandi verður því að leggja inn umsókn um skráningu hér á landi, hjá Hugverkastofunni, áður eða um leið og hann leggur inn alþjóðlega umsókn. Þá verður vörumerkið að vera eins í báðum tilvikum og má ekki ná til víðtækari vöru eða þjónustu en fram kemur í innlendu skráningunni/umsókninni.  

Ef sótt er um alþjóðlega umsókn innan 6 mánaða frá umsóknardegi innlendu umsóknarinnar getur umsækjandi notfært sér svokallaðan forgangsrétt. Alþjóðlega umsóknin telst þá lögð inn sama dag og sú innlenda og fær þannig sömu verndardagsetningu. Enginn tími tapast þar með ef byrjað er með innlenda grunnumsókn og fyrstu viðbrögð könnuð við henni áður en alþjóðlegt umsóknarferli er hafið. 

Þegar umsókn hefur fengið alþjóðlegt skráningarnúmer hjá WIPO (Alþjóðahugverkastofnunin) þá er hún send til þeirra landa sem eru tilnefnd. Löndin taka sjálfstæða ákvörðun um skráningarhæfi merkisins.   

Hugverkastofan tekur skv. gjaldskrá  umsýslugjald alþjóðlegra umsókna. 

Umsóknargjöld til WIPO byggja á hversu mörg lönd eru tilnefnd, hversu margir flokkar eru og hvort merki er í lit. Með gjaldareiknivél WIPO er hægt er að prófa sig áfram með skilyrði, t.d. fjölda flokka og hversu mörg lönd eru valin. 

WIPO reiknivél

Umsókn um alþjóðlega skráningu vörumerkis  má gera rafrænt eða á eyðublaði.

Rafræn umsókn um alþjóðlega skráningu vörumerkis, með milligöngu Hugverkastofunnar:  

 1. Stofna aðgang hjá WIPO

 1. Innskrá og fylla út umsókn samkvæmt leiðbeiningum í ferlinu.  

 1. Ganga frá greiðslu til Hugverkastofunnar sem innheimtir gjald skv. gjaldskrá fyrir að fara yfir umsóknina í Madrid e-filing.  

Hægt er að velja um tvær leiðir til að greiða umsýslugjaldið:  

 • Greiðsluseðill birtist sjálfkrafa í heimabanka umboðsmanns eða eiganda kennitölu þess sem sækir um í gegnum Madrid        e-filing.  
 • Gengið er frá greiðslu umsýslugjalds áður en sótt er um með því að senda beiðni til hugverk@hugverk.is

 1. Umsókn formlega meðhöndluð af Hugverkastofunni í Madrid e-filing kerfinu. Ef eitthvað er ábótavant er haft samband við umsækjanda en ef engar athugasemdir þá er umsóknin send til WIPO. 

Leiðbeiningar við innskráningu og útfyllingu umsóknar til WIPO má nálgast hér
 

Eyðublað til að sækja um alþjóðlega skráningu vörumerkis:

Eyðublað (MM2)

Leiðbeiningar við útfyllingu umsóknarinnar (MM2) má nálgast hér

Ef sótt er um Bandaríkin í alþjóðlegu umsókninni þarf að fylla út sérstakt eyðublað (MM18) sem er yfirlýsing um að umsækjandi hafi í hyggju að nota merkið þar í landi. Eyðublaðið má nálgast hér.

Formleg meðhöndlun Hugverkastofunnar 

Eftir að umsóknin hefur verið lögð inn til Hugverkastofunnar, í gegnum Madrid e-filing eða á eyðublaði, og umsýslugjald hefur verið greitt fer umsóknin í formlega meðhöndlun hjá stofnuninni. Þar er gengið úr skugga um: 

 1. að merkið sem sótt er um sé það sama og í innlendu skráningunni/umsókninni

 1. að upplýsingar um eiganda merkisins séu eins 

 1. að merkið nái ekki til víðtækari vöru eða þjónustu 

 1. að gjöldin til WIPO sé rétt reiknuð 

 1. að MM18 eyðublaðið fylgi með umsókninni ef sótt er um Bandaríkin

Ef eitthvert ofangreindra atriða er ábótavant er umsækjanda send tilkynning þess efnis þar sem honum er gefinn frestur til að lagfæra tiltekin atriði.

Formleg meðhöndlun WIPO 

Þegar alþjóðleg umsókn uppfyllir öll formskilyrði Hugverkastofunnar er hún send til WIPO sem tekur við meðhöndlun hennar. WIPO athugar hvort: 

 1. umsóknargjöld séu greidd, 

 1. hvort tilgreiningar vöru og þjónustu séu nægjanlega skýrar og rétt flokkaðar.

Ef ofangreind atriði eru ekki fullnægjandi sendir WIPO umsækjanda formgallabréf (Notification of Irregularity) þar sem honum er veittur frestur til að lagfæra tiltekin atriði.  

Tilkynning til tilnefndra ríkja 

Eftir að formgallar hafa verið lagaðir gefur WIPO umsókninni alþjóðlegt skráningarnúmer (International Registration No.) og sendir hana til þeirra ríkja sem tilnefnd eru í umsókninni.

Hvert ríki tekur síðan sjálfstæða ákvörðun um skráningarhæfi merkisins út frá eigin vörumerkjalögum og reglum. Ákvörðunin er tilkynnt til WIPO sem í kjölfarið tilkynnir umsækjanda.

Ef nýir markaðir opnast eiganda alþjóðlegrar skráningar getur hann bætt ríkjum við skráninguna sem vörumerkjarétturinn skal ná til. Þetta er gert með umsókn um síðari tilnefningu (MM4) til WIPO. Nýju ríkin bætast þar með í hóp upprunalegu tilnefndu ríkjanna undir sama alþjóðlega skráningarnúmerinu. Líkt og með upprunalegu umsóknina (MM2) taka nýju ríkin eigin ákvörðun um skráningarhæfi merkisins. Hægt er að sækja um síðari tilnefningu ríkja á vef WIPO hér eða fylla út MM4 umsóknarformið og póstleggja til WIPO eða leggja það inn hjá Hugverkastofunni sem áframsendir það til WIPO.

Alþjóðleg skráning er háð innlendu grunnskráningunni sem hún byggir á fyrstu 5 árin. Þetta þýðir að ef grunnskráningin fellur úr gildi innan þess tíma hlýtur alþjóðlega skráningin sjálfkrafa sömu örlög.

Alþjóðleg skráning gildir í 10 ár. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til 10 ára í senn, eins oft og eigandi þess óskar. Hægt er að endurnýja alþjóðlega skráningu rafrænt á vef WIPO hér eða fylla út umsókn um endurnýjun alþjóðlegrar skráningar (MM11) og póstleggja til WIPO. Athugaðu að ekki er hægt að leggja inn MM11 umsóknarformið hjá Hugverkastofunni.

Allar tilkynningar er varða alþjóðlega skráningu (s.s. eigendaskipti, takmörkun á vöru og þjónustu, skráning nytjaleyfis o.fl.) eru sendar til WIPO á sérstökum eyðublöðum sem nálgast má á vef WIPO hér. Hægt er að leggja inn flest þessara eyðublaða hjá Hugverkastofunni sem áframsendir þau til WIPO sem tilkynnir svo öllum þeim ríkjum þar sem skráningin er í gildi um breytinguna.  

Unnt er að fá skráð vörumerki í Evrópusambandinu í heild í stað þess að leggja inn sjálfstæðar umsóknir í hverju aðildarríki þess fyrir sig. Umsókn um svokölluð Evrópuvörumerki (e. European Union Trade Mark - EUTM) er beint til Hugverkastofu Evrópusambandsins (e. European Union Intellectual Property Office - EUIPO) sem sér um þessar skráningar.

Með EUTM-skráningum fæst vernd í öllum 28 aðildarríkjum sambandsins og njóta þessar skráningar sömu verndar eins og landsbundnar skráningar í aðildarríkjunum. Þá er Evrópusambandið aðili að Madrid-skráningarkerfinu í vörumerkjum, þannig að hægt er að tilnefna sambandið í umsókn um alþjóðlega skráningu vörumerkis. Sé Evrópusambandið tilnefnt er það EUIPO sem fer með alla meðferð umsóknarinnar. 

Heimasíða EUIPO

Alþjóðleg umsókn (PCT)

Hafi verið sótt um einkaleyfi hér á landi er hægt, innan 12 mánaða frá umsóknardegi, að leggja inn umsókn sama efnis í öðru ríki og krefjast forgangsréttar frá upphaflegu umsókninni. Seinni umsókn telst þá lögð inn sama dag og sú fyrsta (forgangsréttardagur). Þannig tapast enginn tími ef umsækjandi byrjar t.d. með íslenska umsókn og kannar fyrstu viðbrögð við henni áður en umsóknarferli erlendis er hafið.

Einkaleyfi sem veitt eru af Hugverkastofunni hér á landi gilda eingöngu á Íslandi. Ef vernda á uppfinningu erlendis eru nokkrar leiðir færar:

 • Leggja inn landsbundna einkaleyfisumsókn í hverju ríki fyrir sig.
 • Nýta alþjóðlegt umsóknarferli (PCT-umsókn) sem viðurkennt er af öllum helstu iðnríkjum heims.
 • Sækja um evrópskt einkaleyfi sem getur tekið til flestra Evrópuríkja. 

Þá er hægt að nota fleiri en eina af þessum leiðum, þ.e. byrja má með landsbundna umsókn en hefja PCT-ferlið innan árs með forgangsrétt í landsbundnu umsókninni. Eftir að PCT-ferli lýkur er hægt að yfirfæra þá umsókn til Evrópsku einkaleyfastofunnar (European Patent Office, EPO) og er sú leið stundum nefnd Euro-PCT. Evrópskt einkaleyfi má svo staðfesta í flestum Evrópuríkjum, m.a. á Íslandi. 

Evrópski einkaleyfasamningurinn (e. European Patent Convention, EPC) gerir umsækjanda kleift að öðlast einkaleyfi í flestum Evrópuríkjum með aðeins einni umsókn. Hægt er að hefja ferlið hjá Hugverkastofunni en Ísland hefur verið aðili að samningnum síðan 1. nóvember 2004.

Allt umsóknarferlið fer fram hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (e. European Patent Office, EPO), en þegar EPO hefur gefið út einkaleyfi þarf að staðfesta það í þeim löndum sem umsækjandi óskar með því að greiða árgjald í hverju landi og, í sumum tilvikum, greiða landsbundin gjöld og leggja inn þýðingar á hlutum einkaleyfis. Umsækjandi getur þannig valið í hvaða aðildarríkjum EPC evrópska einkaleyfið verður staðfest.

EPO notar þrjú tungumál sem öll eru jafn rétthá: ensku, þýsku og frönsku. Ef umsókn er lögð inn á einhverju þessara tungumála fer meðferð hennar því fram á því máli. Íslendingar geta lagt inn umsókn á íslensku en þá þarf þýðing á umsókninni að berast EPO innan 3 mánaða frá umsóknardegi eða 13 mánaða frá forgangsréttardegi.

Umsókn sem lögð er inn hjá EPO og tilnefnir Ísland hefur sömu réttarstöðu og íslensk einkaleyfisumsókn, sjá þó 83. gr. laga um einkaleyfi nr. 17/1991.

Umsækjandi frá aðildarríki þarf ekki umboðsmann gagnvart EPO en sé umboðsmaður hins vegar tilnefndur þarf hann að vera sérmenntaður fyrirsvarsmaður sem skráður er á lista hjá EPO (sjá lista yfir íslenska epi umboðsmenn). Aftur á móti þarf umsækjandi sem ekki er búsettur á Íslandi að hafa umboðsmann til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Hugverkastofunni þar til einkaleyfið hefur öðlast gildi hér.

Þegar EPO veitir einkaleyfi er tilkynning þess efnis birt í European Patent Bulletin.

Andmæli gegn evrópsku einkaleyfi skulu borin upp við EPO innan 9 mánaða frá veitingu. Endanlegum ákvörðunum EPO er síðan hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar EPO innan 2 mánaða frá því að ákvörðun var tekin. Um brot gegn evrópsku einkaleyfi sem er í gildi hér á landi fer samkvæmt landslögum en dómstólar hér á landi skera úr um slík mál.

Hér má nálgast eyðublöð og gjaldskrá fyrir evrópskar einkaleyfisumsóknir. 

Evrópski einkaleyfasamningurinn á íslensku. 
 

Beiðni til að staðfesta evrópskt einkaleyfi á Íslandi þarf að berast Hugverkastofunni innan 4 mánaða frá því að einkaleyfið var veitt hjá EPO, sbr. 77. gr. einkaleyfalaga. Með beiðninni þarf eftirfarandi að fylgja: 

 • Íslensk þýðing á kröfum einkaleyfisins.
 • Hafi einkaleyfið verið veitt á frönsku eða þýsku þarf að leggja fram íslenska eða enska þýðingu á lýsingu og öðrum hlutum einkaleyfisins. Hafi einkaleyfið hins vegar verið veitt á ensku þarf ekki að leggja fram þýðingu á lýsingu og öðrum hlutum einkaleyfisins. 
 • Upplýsingar um númer einkaleyfis, nafn og heimilisfang einkaleyfishafa.
 • Greiðsla útgáfugjalds, sjá gjaldskrá

Athugið að evrópskar umsóknir sem lagðar eru inn 1. nóvember 2004 eða síðar taka sjálfkrafa til Íslands ef umsækjandi tilnefnir öll aðildarríki. Sama gildir um PCT-umsóknir þar sem EPO er tilnefnt.
 

Um aþjóðlega skráningu hönnunar

Hönnun sem skráð eru hjá Hugverkastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Ef markaðssetja á vöru erlendis með sérstæðri hönnun kemur sér vel að hafa hönnun skráða hér á landi. 

Hægt er að nýta sér reglur um forgangsrétt, en í því felst að hægt er að leggja inn umsókn í öðrum ríkjum innan 6 mánaða frá umsóknardegi hér á landi. Seinni umsókn telst þá lögð inn sama dag og sú fyrsta.

Um alþjóðlegar hönnunarumsóknir gilda ákvæði Genfarsamningsins frá 2. júlí 1999 (The Geneva Act of the Hague Agreement concerning the International Registration of Industrial Designs) og viðeigandi ákvæði í hönnunarlögum. Ísland hefur verið aðili að Genfarsamningnum frá árinu 2001, en hann varð virkur 1. apríl 2004. Frá þeim tíma hafa íslenskir lögaðilar eða einstaklingar búsettir hér á landi getað lagt inn umsókn um alþjóðlega skráningu hönnunar. Jafnframt hafa erlendir aðilar getað fengið hönnun sína verndaða hér á landi frá sama tíma í gegnum alþjóðlega skráningarkerfið. 

Hönnun sem skráð eru hjá Hugverkastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Ef markaðssetja á vöru erlendis með sérstæðri hönnun kemur sér vel að hafa hönnun skráða hér á landi. Þá er líka unnt að nýta sér reglur um forgangsrétt, en í því felst að hægt er að leggja inn umsókn í öðrum ríkjum innan 6 mánaða frá umsóknardegi hér á landi. Hönnunin nýtur þá verndar í viðkomandi ríki frá umsóknardegi hér.  

Umsókn

Umsókn um alþjóðlega skráningu er hægt að leggja inn hjá Hugverkastofunni eða Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) í Genf. Umsókn þarf að vera á ensku og á sérstöku eyðublaði. Í umsókn um alþjóðlega skráningu þarf að tilgreina í hvaða ríkjum er óskað skráningar. Hægt er að vernda hönnunina í öllum aðildarríkjum Genfarsamningsins. Leiðbeiningar á ensku - umsóknareyðublað og rafræn sending.

Athugið að WIPO býður umsækjendum að senda inn umsókn á rafrænu formi (þá er unnt að greiða með kreditkorti): E-Filing

Unnt er að fá skráð hönnun í Evrópusambandinu í heild í stað þess að leggja inn sjálfstæðar umsóknir í hverju aðildarríki þess fyrir sig. Umsókn um svokallaða Evrópuhönnun (e. Registered Community Design - RCD) er beint til Hugverkastofu Evrópusambandsins (e. European Union Intellectual Property Office - EUIPO) sem sér alfarið um þessar umsóknir.

Með RCD-skráningum fæst vernd í öllum 28 aðildarríkjum sambandsins og njóta þessar skráningar sömu verndar eins og aðrar hönnunarskráningar í aðildarríkjunum. Þá er Evrópusambandið aðili að Haag-skráningarkerfinu hvað varðar hönnun, þannig að hægt er að tilnefna sambandið í umsókn um alþjóðlega skráningu hönnunar. Sé Evrópusambandið tilnefnt er það EUIPO sem fer með alla meðferð umsóknarinnar.

Heimasíða EUIPO