Af hverju að skipta um nafn?

Nafnbreytingunni er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við þarfir íslensks iðnaðar og viðskiptalífs. Nýtt heiti gefur skýrari mynd af starfsemi stofnunarinnar en núverandi heiti, Einkaleyfastofan, vísar eingöngu til einnar tegundar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og er þannig mjög þröng skírskotun miðað við raunverulega starfsemi stofnunarinnar. Heitið getur verið villandi í augum viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila og gefið til kynna að stofnunin láti sig aðeins varða málefni einkaleyfa þrátt fyrir að starfsemi hennar og ábyrgðarsvið tengist hugverkaréttindum almennt. Mikilvægt er að tryggja að öllum fagsviðum sé gert jafn hátt undir höfði og að í heiti komi ekki fram sérstök áhersla á eitt fagsvið umfram annað.

Breytingin er í takt við þróun erlendis en þar er í auknum mæli horft heildstætt á hugverk og hugverkaréttindi og þau verðmæti sem í þeim felast. Á síðustu árum hafa einmitt nokkrar einkaleyfa- og vörumerkjastofur breytt um heiti og eru í dag hugverkastofur. Má þar nefna sem dæmi hugverkastofur Evrópusambandsins (EUIPO), Bretlands (UKIPO), Ástralíu (IP Australia) og Ungverjalands (HIPO).

Breytingin felst m.a. í einu þeirra verkefna sem skilgreind eru í Hugverkastefnu fyrir Ísland árin 2016 – 2022 og er þar með ein af þeim aðgerðum sem miðar að því að styrkja umgjörð og lagaumhverfi um hugverkaréttindi hér á landi.

Nýtt heiti er einnig í takt við stefnu Einkaleyfastofunnar fyrir árin 2018 – 2021, en hún var afrakstur greiningar á umhverfi stofnunarinnar og samráðs við helstu hagsmunaaðila þar sem möguleg nafnbreyting var meðal annars rædd.

Hvað mun breytingin fela í sér?

Lögin um nýtt heiti Einkaleyfastofunnar munu taka gildi þann 1. júlí 2019. Þá verður heiti Einkaleyfastofunnar breytt í Hugverkastofan í þeim lögum sem stofnunin starfar eftir og öðrum lögum þar sem vísað er til hennar. Markmið frumvarpsins er að breyta heiti stofnunarinnar þannig að heitið endurspegli betur eiginlega starfsemi hennar.

Lögin taka aðeins til nafns stofnunarinnar og hafa ekki áhrif á hlutverk eða starfsemi hennar að öðru leyti. Hinsvegar mun nafnbreytingin hafa áhrif á rafræn samskipti stofnunarinnar og munu netföng starfsmanna breytast í nafn@hugverk.is frá og með 1. júlí 2019. Núverandi netföng nafn@els.is og nafn@einkaleyfastofan.is munu áfram vera virk í nokkra mánuði eftir breytinguna.

Á sama tíma mun stofnunin opna nýja heimasíðu og rafrænt umsóknarkerfi fyrir vörumerki og hönnun. Önnur rafræn kerfi og samfélagsmiðlareikningar stofnunarinnar munu einnig verða uppfærðir í takt við nafnbreytinguna frá og með 1. júlí. Núverandi lén stofnunarinnar, www.els.is, mun sjálfkrafa vísa notendum á nýtt lén Hugverkastofunnar, www.hugverk.is, frá og með 1. júlí.

Hlutverk og starfsemi stofnunarinnar mun haldast óbreytt. Heimilisfang og símanúmer stofnunarinnar munu jafnfram ekki breytast.

Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á skráð vörumerki, hönnun eða einkaleyfi. Breytingarnar munu heldur ekki hafa nein áhrif á umsóknir, umsóknarferli eða önnur réttindi.

Ný heimasíða Hugverkastofunnar verður opnuð á sama tíma og lögin um breytt heiti taka gildi. Lén Hugverkastofunnar verður www.hugverk.is en gömlu lén Einkaleyfastofunnar, www.els.is og www.einkaleyfastofan.is, munu vísa á nýja lénið. Að sama skapi munu netföng starfsfólks breytast úr nafn@els.is og nafn@einkaleyfastofan.is í nafn@hugverk.is. Gömlu netföngin verða þó virk í nokkra mánuði eftir breytingu.

Nei, höfundaréttur heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hins vegar geta fyrirtæki sótt sér grunnfræðslu um öll hugverkaréttindi hjá Hugverkastofunni og þau verðmæti sem felast í hugverkum, þ.á.m. höfundarétti, ekki síst þar sem réttindi til vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar geta skarast við höfundarétt.

Eigendur umsókna eða skráðra hugverka hér á landi þurfa ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir með sín hugverk vegna breytinganna. Viðskiptavinir og aðrir aðilar þurfa að hafa í huga nýtt lén stofnunarinnar og ný netföng starfsfólks.

Hugverkastofan mun vera kölluð Icelandic Intellectual Property Office og notast við skammstöfunina ISIPO í takt við aðrar hugverkastofur og alþjóðastofnanir á sviði hugverkaréttinda.

Sjá mál á vef Alþingis: https://www.althingi.is

Almennt um stofnunina

Einkaleyfastofan tók til starfa 1. júlí 1991 og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnuninni ber að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

Á árinu 2018 tók Einkaleyfastofan við 4.260 vörumerkjaumsóknum, 1.554 einkaleyfaumsóknum og 109 hönnunarumsóknum. Í lok árs voru í gildi 60.770 vörumerkjaskráningar, 7.522 einkaleyfi og 965 hönnunarskráningar hér á landi.

Image
Mynd
Stofnun ársins 2019

Frekari upplýsingar

Almennar fyrirspurnir um nafnbreytinguna:

nafnbreyting@hugverk.is eða í síma 580 9400

Fyrirspurnir fjölmiðla:

Jón Gunnarsson, samskiptastjóri Hugverkastofunnar, í síma 848 4847.