Hugtakasafn
Þetta hugtakasafn útskýrir helstu hugtök og orð tengd hugverkaréttindum.
Alþjóðleg skráning vörumerkja á við þau merki sem skráð eru erlendis en byggja á íslenskri umsókn eða skráningu.
Vörumerki sem skráð eru hjá Hugverkastofunni eru einungis vernduð á Íslandi.
Meira um alþjóðlega skráningu vörumerkja hér.
Með skráningu félagamerkis geta félög eða samtök öðlast einkarétt á sameiginlegu auðkenni fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi. Félagamerki eru því sameiginlegt auðkenni sem félög eða samtök leyfa félagsmönnum sínum að nota til að merkja vörur og/eða þjónustu. Dæmi um þetta er vörumerkið Kaka ársins sem er í eigu félags bakarameistara.
Félagamerki eru í eðli sínu vörumerki og þurfa því að uppfylla sömu skráningarskilyrði.
Skilyrði verndar og reglur um notkun félagamerkis
Þau félagamerki sem skráð eru í vörumerkjaskrá verða að uppfylla sömu skilyrði og vörumerki fyrir skráningu.
Áður en umsóknin er tekin fyrir hjá Hugverkastofunni verður kallað eftir reglum um notkun merkisins.
- Hverjir hafa heimild til þess að nota merkið.
- Hvaða skilyrði gilda um notkun merkisins og hvaða afleiðingar og viðurlög óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér.
- Hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið.
- Hvaða reglur gilda um aðild að því félagi sem á merkið.
Verði breytingar á reglum félagamerkis eftir skráningu er skylt að tilkynna um þær til Hugverkastofunnar. Breytingarnar eru birtar samhliða nýrri gildistökudagsetningu í Hugverkatíðindum.
Alþjóðleg skráning félagamerkja
Um alþjóðlega skráningu félagamerkja gildir það sama og fyrir vörumerki. Umsækjandi verður að leggja inn umsókn um skráningu hér á landi áður eða um leið og alþjóðleg umsókn er lögð inn. Félagamerkið verður að vera eins í báðum tilvikum og vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari er fram kemur í landsbundnu umsókninni.
„Patent Prosecution Highway“ (PPH) eða flýtimeðferð einkaleyfisumsókna er valkostur sem hefur undanfarin ár staðið íslenskum umsækjendum til boða. Yfirmarkmið PPH er að stytta afgreiðslutíma einkaleyfisumsókna á heimsvísu en mörg ríki eru með slíka samninga sín á milli.
Sjá meira hér.
Griðtími gefur hönnuði möguleika á að opinbera hönnun sína, þar með talið prófa hana á markaðinum, innan 12 mánaða áður en hann ákveður hvort umsókn skuli lögð inn til Hugverkastofunnar. Birting hönnunar, fyrir atbeina hönnuðar, innan þessara tímamarka hefur ekki áhrif á nýnæmi hönnunar.
Frestun skráningar
Umsækjandi getur óskað eftir því að skráningu verði frestað í allt að 6 mánuði frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi, sé hans krafist. Beiðnin felur í sér að myndum af hönnuninni sé haldið leyndum.