Verndun og hagnýting hugverka eru nauðsynlegur hluti af nýsköpun á sviði grænnar tækni og geta þannig verið mikilvægur liður í framlagi Íslands til að takast á við umhverfisáskoranirnar nútímans. Þetta kom meðal annars fram á 30 ára afmælisráðstefnu Hugverkastofunnar, IP and sustainability: Innovation for a brighter future, sem fór fram í Hörpu fimmtudaginn 4. nóvember.

Kynnir var höfundurinn og framtíðarfræðingurinn Bergur Ebbi en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnunarerindi ráðstefnunnar þar sem hún talaði meðal annars um þróun iðnaðar hér á landi á síðustu þrem áratugum. Hér á landi er að byggjast upp ný tegund iðnaðar með aukinni áherslu á nýsköpun og hugverk. Hún sagði að á þessum tíma hefði Hugverkastofan hjálpað íslenskum aðilum í nýsköpun við að vernda og hámarka sína nýsköpun og þannig átt hlut í því að byggja upp öflugt nýsköpunarumhverfi á Íslandi sem er einn af grundvöllum hagsældar hér á landi.

Í ávarpi sínu nefndi forsætisráðherra einnig að nýsköpun á sviði grænnar tækni sem byggist á hugverkaréttindum gæti verið mikilvægasta framlag Íslands í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Þrátt fyrir smæð Íslands og umfang áskorunarinnar sem heimurinn stendur frammi fyrir þá gæfu íslenskar tæknilausnir, t.d. þær sem komu fram á ráðstefnunni, ástæðu til bjartsýni.

Í ræðu sinni nefndi Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, að á 30 árum hefði stofnunin þróast í takt við stórkostlegur breytingar í íslensku viðskiptalífi, iðnaði og samfélagi. Líkt og þær sviptingar sem í alþjóðastjórnmálum sem heimurinn stóð frammi fyrir þegar stofnunin tók til starfa árið 1991 þá stæði heimurinn nú frammi fyrir nýrri hnattrænni áskorun í formi loftlagsbreytinga. Nýjar íslenskar tæknilausnir væru hins vegar á sjóndeildarhringnum sem gefa von um að minnka umfang koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, sjálfbærari matvælaframleiðslu og skilvirkari leiðum til að skipuleggja samfélag okkar. Verndun hugverkaréttinda skiptu lykilmáli í að koma slíkum lausnum í framkvæmd enda væru þau undirstaða fjárfestinga og samstarfs á sviði nýsköpunar.

Á ráðstefnunni voru flutt erindi frá forstjórum og forseta þriggja alþjóðastofnanna á sviði hugverkaréttinda. Daren Tang, forstjóri Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO), flutti erindi frá Genf í Sviss, António Campinos, forseti Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO), flutti erindi frá Munchen í Þýskalandi, og Christian Archambeau, forstjóri Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), flutti erindi frá Alicante.

Hugverkaréttindi og náttúruauðlindir

Mörg af helstu nýsköpunarfyrirtækjum Íslands á sviði grænnar tækni fluttu erindi á ráðstefnunni. Bergur Sigfússon, yfirmaður CO2 föngunar og niðurdælingu hjá Carbfix, fór yfir ævintýralegan árangur fyrirtækisins en nýlega var vígð stærstu heildstæðu lofthreinsi- og förgunarstöð í heiminum skammt frá Hellisheiðarvirkjun. Fyrirtækið hefur byggt upp sterkan grunn á hugverkaréttindum og stefnir á áframhaldandi uppbyggingu á því sviði.

Í erindi sínu fór Egill Tómasson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, yfir breyttar áherslur fyrirtækisins en með aukinni áherslu á nýsköpun og samstarf hefur mikilvægi hugverkaréttinda aukist töluvert og muni því spila stórt hlutverk í framtíðaráætlunum fyrirtækisins.

Ómar Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Carbon Recycling International, ræddi í erindi sínu hvernig rétt verndun og hagnýting hugverka hefur gert fyrirtækinu kleift að taka þátt í verðmætum samstarfsverkefnum á sviði kolefnisendurvinnslu á síðustu árum. Útflutningur á íslensku hugverkaréttindavörðu hugviti geti þannig verið mikilvægasta framlag Íslands í baráttunni gegn loftlagsbreytingum.

Nýsköpun fyrir bjartari framtíð

Í erindi sínu fór Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri Green by Iceland, yfir það hvernig íslenskt hugvit og tækni geta skipt sköpum í að standa undir sjálfbærnismarkmiðum í kjölfar COP26 loftlagsráðstefnunnar í Glasgow. Hugverkaréttindi spiluðu þar mikilvægt hlutverk í að stuðla að fjárfestingum og samstarfi á sviði nýsköpunar.

Sigríður Mogensen, sviðstjóri hjá Samtökum Iðnaðarins, fór í erindi sínu yfir þróun íslensks iðnaðar á síðastliðnum árum úr því að vera auðlindadrifinn í það að vera hugverkadrifinn. Á síðustu árum hefur hugverkaiðnaður orðið ein helsta stoð íslenska hagkerfisins, slíkt getur ekki aðeins stuðlað að aukinni verðmætasköpun og efnahagslegum stöðugleika hér á landi, heldur einnig verið grundvöllur fyrir grænni nýsköpun sem getur nýst um heim allan.

Heilsa, matvælaframleiðsla og hugverk

Fyrirtækið Controlant hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið en það hefur það notað tæknilausn sína við dreifingu COVID-19 bóluefni Pfizer um allan heim. Guðmundur Reynaldsson, hugverkastjóri Controlant, sagði í erindi sínu að hagnýting einkaleyfa væri mikilvægur hluti af framtíðaráætlunum fyrirtækisins enda væri það nauðsynlegt fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarstarfsemi Controlant. Það væri einnig mikilvægur hluti í því að koma í veg fyrir brot á hugverkaréttindum annarra.

Dr. Björn Örvar, einn stofnenda ORF líftækni, fór í erindi sínu yfir nýjustu afurð fyrirtækisins, MESOkine, sem er prótenhvati ræktaður í erfðabreyttu byggi. Ef áætlanir ORF munu ganga eftir mun MESOkine spila lykilhlutverk í því að gera ræktað kjöt aðgengilegra á heimsvísu en slíkt skilur eftir sig aðeins brot af vistspori hefðbundins kjöts. ORF beitir samþættri notkun einkaleyfa, vörumerkja og viðskiptaleyndarmála til að þróa tæknilausn sína og koma henni í framkvæmd.

Í erindi sínu fór Ari Ingimundarson, rekstrarstjóri VAXA Iceland, yfir metnaðarfullar áætlanir fyrirtækisins á næstu árum og hlutverk hugverkaréttinda í þeim. Fyrirtækið framleiðir smáþörunga til mann- og dýraeldis með byltingarkenndri nýrri aðferð sem skilur eftir sig umtalsvert minna vistspor en hefðbundin matvælaframleiðsla. Fyrirtækið hefur sótt um fleiri en 20 einkaleyfi á framleiðsluaðferð sinni og tæknilausnum, en verndun hugverka skiptir fyrirtækið miklu máli í fjárfestingum og sjálfbærri nýsköpun.

Pallborðsumræður

Að lokum stýrði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins og fyrrum forstjóri Einkaleyfastofunnar, pallborðsumræðum með Sigríði Mogensen, Ara Ingimundarsyni, Einari Mäntylä framkvæmdastjóra Auðnu Tæknitorgs og Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Ólíkt restinni af ráðstefnunni fóru pallborðsumræðurnar fram á íslensku en þar kom meðal annars fram að hugverk og hugverkavernd væru oft lykillinn að fjármögnun vísindaverkefna og aukin vernd hugverka gæti hjálpað slíkum verkefnum að fjármagna sig þrátt fyrir að enn væri verið að þróa tæknilausnina. Einnig var rætt um aukna áherslu á nýsköpun hér á landi og að mögulega hefði aldrei verið meira fjármagn lagt í nýsköpun hér á landi en um þessi misseri.

Einnig var rætt um samkeppnisforskot í grænni orku og hvernig orkuiðnaðurinn hafi ekki nýtt sér hugverkaréttindi og þá sérstaklega einkaleyfi í nægilega miklum mæli síðustu ár. Samkvæmt Einari Mäntylä hafi Íslendingar sem starfa á þessu sviði ekki farið vel með þekkingu sína síðustu ár og einungis selt hana í formi klukkustunda í vinnu ráðgjafa en ekki í gegnum hugverkavarðar tæknilausnir. Þegar skoðaðar eru áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í ljósi COP26 loftlagsráðstefnunnar í Glasgow þá getur íslenskt framlag verið í gegnum hugvit. Með því að huga að rétt að hugverkamálum gæti Ísland og íslenskar tæknilausnir haft alþjóðleg áhrif.

Mikilvægt er einnig að virkja bæði einkageirann og hið opinbera. Samkvæmt Ara Ingimundarsyni þurfi hugverkamál að vera á hreinu til að virkja einkafjármagn en einnig þurfi að huga að réttum hvötum í opinberri fjármögnun á rannsókn og þróun með því að skilyrða það við nýsköpun sem er vernduð og með framleiðslu og fyrirtæki á bakvið sig.

Að lokum var rætt um hvernig aðkomu stjórnvalda að fjármögnun í nýsköpun hér á landi ætti að vera háttað. Þar nefndi Sigríður Mogensen að slík fjármögnun og hvatar til nýsköpunar væru fjárfesting til framtíðar. Því ætti slík fjármögnun, hvort sem það væri í gegnum Tækniþróunarsjóð eða í gegnum endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunarkostnaðar, að fara í verkefni sem séu skalanleg, vernduð með hugverkum og huga að því að sækja á erlenda markaði til að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins. Á endanum snúist nýsköpun um hvaða verðmætasköpun verði til en slíkt muni drífa framtíðarhagvöxt og aukin lífskjör til framtíðar.

Öll erindi er hægt að nálgast á streymissíðu okkar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Streymissíða

Myndir

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email