Allir reikningar frá Hugverkastofunni eru orðnir rafrænir og gildir það frá og með 1.maí. Markmiðið er að lækka viðskiptakostnað allra aðila, nútímavæða viðskiptaumhverfi ríkisins með auknu framboði stafrænnar þjónustu og framfylgja umhverfissjónarmiðum.

Hugverkastofan sér um að senda reikningana út til viðskiptavina. Þeir eru aðgengilegir í pósthólfinu á Ísland.is. Jafnframt er í boði að fá reikninga senda rafrænt í gegnum skeytaþjónustu.

Rafræn útgáfa reikninga er í takt við stefnu Hugverkastofunnar frá árinu 2018, en þar kemur fram að sérstök áhersla verði lögð á að starfsemi stofnunarinnar hafi sem minnst áhrif á umhverfið og að markvisst verði leitað leiða til að draga úr sóun.