Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, hefur verið endurkjörin varaformaður framkvæmdaráðs Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Kosningin fór fram á fundi framkvæmdaráðsins 14. desember síðastliðinn.

Fundurinn fór fram rafrænt líkt og aðrir fundir framkvæmdaráðsins síðan heimsfaraldur COVID-19 skall á í byrjun 2020. Varaformaður situr í stjórn framkvæmdarráðs EPO en þar eru rædd öll stjórnunartengd mál EPO og ákvarðanir teknar í tengslum við það. Stjórn framkvæmdaráðsins vinnur einnig náið með stjórnendum EPO og fundar reglulega með þeim. Þá er það hlutverk varaformanns að stýra fundum framkvæmdaráðs í fjarveru formanns.

EPO hefur ráðist í mikla vinnu við að laga starfsemi stofnunarinnar að breyttum kringumstæðum í heimsfaraldrinum með aukinni áherslu á stafræna þróun og fjarvinnu. EPO hefur einnig þurft að aðlagast örum tæknibreytingum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar sem hefur bæði haft áhrif á tæknisvið einkaleyfaumsókna og einnig hvernig tækni er notuð við að meðhöndla og rannsaka einkaleyfaumsóknir. Forseti stofnunarinnar, Antonio Campinos, tók við árið 2018 og hefur hann boðað miklar breytingar til að takast á við þessar áskoranir.

EPO er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum og eru höfuðstöðvar hennar í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein virtasta stofnun heims á sviði hugverkaréttinda en Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega. Árið 2020 voru þau 1.445 talsins og eru langstærstur hluti einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email