Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar, var í síðustu viku kosin varaformaður framkvæmdaráðs Evrópsku Einkaleyfastofunnar (EPO).

Varaformaður situr í stjórn framkvæmdarráðs EPO en þar eru rædd öll stjórnunartengd mál EPO og ákvarðanir teknar í tengslum við það. Stjórn framkvæmdaráðsins vinnur einnig náið með stjórnendum EPO og fundar reglulega með þeim. Þá er það hlutverk varaformanns að stýra fundum framkvæmdaráðs í fjarveru formanns.

EPO stendur að mörgu leyti á tímamótum en fjöldi einkaleyfaumsókna hefur aukist gríðarlega hjá stofnuninni sem og á heimsvísu á síðustu árum. EPO hefur einnig þurft að aðlagast að örum tæknibreytingum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar sem hefur bæði haft áhrif á tæknisvið einkaleyfaumsókna og einnig hvernig tækni er notuð er við að meðhöndla og rannsaka einkaleyfaumsóknir. Nýr forseti stofnunarinnar, Antonio Campinos, tók við á síðasta ári en hann hefur boðað miklar breytingar til að takast á við þessar áskoranir. Að sögn Borghildar verður ánægjulegt að eiga þátt í því að Ísland hafi áhrifamikla þátttöku meðal aðildarríkja EPO í þeim krefjandi verkefnum sem eru framunda

Evrópska Einkaleyfastofan er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum en höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein virtasta stofnun heims á sviði hugverkaréttinda en Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega en árið 2018 voru þau rúmlega 1.400 talsins og eru langstærstur hluti einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.