Töluverðar breytingar munu eiga sér í lagaumhverfi vörumerkja hér á landi með gildistöku laga sem breyta ýmsum ákvæðum laga um vörumerki nr. 45/1997 þann 1. september næstkomandi. Lögin voru samþykkt á Alþingi 12. júní síðastliðinn og með þeim eru ákvæði vörumerkjatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 innleidd en í þeim felast fjölmörg nýmæli, bæði til samræmingar á nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna varðandi skráningu, notkun og verndartíma vörumerkja en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki.

Markmið tilskipunarinnar var færa reglur um vörumerki til nútímahorfs í samræmi við nýjustu tækni og fól hún í sér gagngera endurskoðun á fyrri tilskipunum á sviði vörumerkja. Því var talið nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um vörumerki og laga um félagamerki með tilliti til þeirra breytinga. Til einföldunar og nánari skýringar verða lög um félagamerki nr. 155/2002 með gildistöku laganna felld inn í lög um vörumerki, líkt og hefur verið gert t.d. á Norðurlöndunum.

Helstu breytingarnar eru:

  • Vörumerki þurfa ekki lengur að vera „sýnileg tákn“ heldur er opnað fyrir skráningu á óhefðbundnum merkjum eins og litum og hljóði, hreyfimyndum og fleira. Þau þurfa hins vegar að geta greint vöru og þjónustu eins aðila frá eins eða sambærilegum vörum og þjónustu annarra og þau þarf að tilgreina í vörumerkjaskrá á þann hátt að greina megi með skýrum og nákvæmum hætti til hvers einkarétturinn nær.
  • Með lögunum breytast skráningarskilyrði merkja og verða skýrari en áður. Helstu viðbætur við almenn skráningarskilyrði merkja (e. absolute grounds) er höfnun á grundvelli þess að tákn sýni lögun eða aðra eiginleika sem auka verðmæti vöru svo um munar og ef merki samanstanda af eða sýna í veigamiklum þáttum eldra skráð plöntuyrkisheiti. Þá er því enn fremur bætt við með skýrari hætti en áður að hafna megi skráningu merkis ef umsókn er lögð fram í vondri trú.
  • Þriðja aðila verður heimilt að leggja fram ábendingu gegn skráningu vörumerkis. Hver sem er, jafnt einstaklingur sem lögaðili, getur því lagt fram ábendingu vegna tiltekinnar umsóknar eftir að hún er lögð inn en áður en ákvörðun um skráningu er tekin og þarf hann ekki að hafa af því lögmæta hagsmuni. Framlögð gögn verða þá hluti af rannsóknargögnum en sá sem leggur ábendinguna inn verður ekki aðili að málinu.
  • Breyting verður á verndartíma skráðra vörumerkja, til samræmis við tilskipunina. Vernd merkja sem sótt er um eftir gildistöku laganna mun því hefjast á umsóknardegi og gilda í tíu ár frá þeim degi. Verndartími eldri merkja helst óbreyttur.
  • Málsmeðferð vegna andmæla verður skýrari og verður m.a. unnt að fresta málsmeðferð í a.m.k. tvo mánuði vilji aðilar málsins leita sátta. Þá verður ennfremur unnt að beita notkunarleysi sem vörn í andmælamáli, þ.e. eigandi þess merkis sem andmælt er getur, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, farið fram á að andmælandi sýni fram á notkun þess merkis sem andmælin byggja á.
  • Málsmeðferð vegna ógildingar/niðurfellingar verður skipt upp. Merki verða ógilt með réttaráhrifum frá umsóknardegi ef þau hefði ekki átt að skrá en þau verða felld niður með réttaráhrifum frá dagsetningu kröfu um niðurfellingu (eða fyrr ef þess er krafist í málinu) ef ástæða kröfunnar er t.d. notkunarleysi.
  • Kveðið er skýrar á um inntak einkaréttar til merkis en nú er, þ.e. möguleika í tengslum við beitingu réttarins, sem og takmarkanir á honum og skerpt er á rétti til að leggja bann við notkun merkis sem viðskipta- eða fyrirtækjaheiti og notkun merkis í samanburðarauglýsingum.
Image
Mynd
Margrét Hjálmarsdóttir

Margrét Hjálmarsdóttir

Position
Yfirlögfræðingur
E-Mail
@email