Einkaleyfastofan hefur tekið upp nýtt form úrskurða/ákvarðana í málum vegna andmæla og krafa um ógildingu/niðurfellingu á skráðum réttindum. Nýtt form felur í sér að í stað þess að rökstuðningur aðila sé tekinn saman og reifaður í úrskurði eða ákvörðun munu aðeins verða reifaðir helstu málavextir ásamt niðurstöðu. Greinargerðir með rökstuðningi aðila verða birtar á heimasíðu stofnunarinnar í heild sinni með úrskurði/ákvörðun.

Fylgi greinargerðum gögn, t.d. vegna notkunar merkis, munu slík gögn verða áfram aðgengileg eftir hefðbundnum leiðum samkvæmt stjórnsýslu- og/eða upplýsingalögum. Kröfum þeirra laga, sem og ákvæða sérlaga um að tilteknum upplýsingum/gögnum skuli haldið leyndum verður áfram gætt en stofnunin bendir þó aðilum mála á að yfirfara vandlega rökstuðning og gögn sem stofnuninni eru send með hliðsjón af reglum sem um það gilda.