Einkaleyfisumsóknum íslenskra aðila fækkaði um tæpan helming á fyrri helming 2021 samanborið við sama tímabil árið 2020. Staðfestum evrópskum einkaleyfum sem hér taka gildi fækkar um 2,6% milli ára. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Hugverkastofunnar.

  • Vörumerkjaumsóknum fjölgaði um tæp 3% á fyrsta sex mánuðum ársins (2.152) samanborið við sama tímabil í fyrra (2.091). 
  • Mesta aukningin var í fjölda vörumerkjaumsókna íslenskra aðila en þeim fjölgaði um 9%.
  • Vörumerkjabirtingum fækkaði um 48% milli ára.
  • Staðfestum evrópskum einkaleyfum fækkaði um 2,6% milli ára.
  • Umsóknum um landsbundin einkaleyfi fækkaði um 48% á milli ára. Hugverkastofunni bárust aðeins 13 umsóknir á fyrri helming 2021.

Vörumerki

Hugverkastofunni barst í heild 2.152 umsóknir um skráningu vörumerkis á tímabilinu janúar til júní á árinu. Þetta er aukning um tæp 3% en 2.091 umsókn barst á sama tímabili í fyrra. Mestu munaði um aukningu á fjölda umsókna frá íslenskum aðilum en þeim fjölgaði um 9% milli ára. 375 umsóknir bárust á tímabilinu janúar til júní samanborið við 344 á sama tímabili í fyrra. Í ljósi neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum er áhugavert að sjá að vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila heldur áfram að fjölga, en þeim fjölgaði um 5,2% á síðasta ári.

Landsbundnum umsóknum erlendra aðila á fyrstu sex mánuðum ársins fjölgaði um 5,7% á milli ára (298 árið 2020 en 315 árið 2021) og á sama tíma fjölgaði alþjóðlegum umsóknum um tæpt 1% (1.449 árið 2020 og 1.462 árið 2021).

Á tímabilinu janúar til júní voru birt samtals 1.198 vörumerki og er það fækkun um 48% frá fyrra ári. Mestu munar þar um birtingar á alþjóðlegum umsóknum sem fækkaði úr 1.885 í 725, eða um 61,5%. Birtingum á vörumerkjum íslenskra aðila fjölgaði um tæp 4%, 212 vörumerki voru birt á fyrri helming ársins 2021 samanborið við 204 árið 2020. Birtingum vörumerkja erlendra aðila fækkaði um 14,7%, 306 vörumerki voru birt á fyrri helming ársins 2020 samanborið við 261 árið 2021.

Fækkunin skýrist fyrst og fremst af breyttri forgangsröðun verkefna, en á árinu 2020 var mikil áhersla lögð á rannsókn vörumerkja en í upphafi þessa árs hefur vinna við rökstuðning fyrri ákvarðana verið fyrirferðarmikil.

Einkaleyfi

Umsóknir um landsbundin einkaleyfi á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 eru töluvert færri en á sama tímabili síðustu ár, eða 13 talsins. Alþjóðlegar umsóknir (PCT umsóknir), þar sem íslenskir aðilar sækja um hjá Alþjóðahugverkastofunni, voru 10 á sama tímabili. Það er töluverð fækkun frá sama tímabili í fyrra þegar metfjöldi PCT umsókna var lagður inn, eða 16 talsins.

Það sem af er ári hafa um 2,6% færri evrópsk einkaleyfi tekið gildi hér en á sama tíma í fyrra. 715 evrópsk einkaleyfi voru staðfest hér á landi á fyrri helming ársins samanborið við 734 á sama tímabili í fyrra.

Er þetta áframhald frá þróun síðasta árs en þá fækkaði lítillega staðfestum evrópskum einkaleyfum samanborið við fyrra ár. Var það í fyrsta skipti frá því Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun varð á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email