Vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila fjölgaði um 34% fyrstu þrjá mánuði ársins samanborið við sama tímabil árið 2020. Alls fjölgaði vörumerkjaumsóknum um 7% milli ára. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Hugverkastofunnar.

  • Vörumerkjaumsóknum fjölgaði um rúm 7% á fyrsta ársfjórðungi (1.131) samanborið við sama tímabil í fyrra (1.053).  
  • Mesta aukningin var í fjölda vörumerkjaumsókna íslenskra aðila en þeim fjölgaði um 34%. 215 umsóknir bárust á tímabilinu janúar til mars samanborið við 160 á sama tímabili í fyrra.
  • Staðfestum evrópskum einkaleyfum fækkaði um 11% milli ára. 338 evrópsk einkaleyfi voru staðfest hér á landi á fyrstu þrem mánuðum ársins samanborið við 379 á sama tímabili í fyrra.
  • Umsóknum um landsbundin einkaleyfi fækkaði á milli ára. Hugverkastofunni bárust aðeins fimm umsóknir á fyrsta ársfjórðungi.

Vörumerki

Hugverkastofunni barst í heild 1.131 umsókn um skráningu vörumerkis á tímabilinu janúar til mars á árinu. Þetta er aukning um 7% en 1.053 umsóknir bárust á sama tímabili í fyrra. Mestu munaði um mikla aukningu á fjölda umsókna frá íslenskum aðilum en þeim fjölgaði um 34% milli ára. 215 umsóknir bárust á tímabilinu janúar til mars samanborið við 160 á sama tímabili í fyrra. Í ljósi neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum er áhugavert að sjá að vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila heldur áfram að fjölga, en þeim fjölgaði um 5,2% á síðasta ári.

Landsbundnum umsóknum erlendra aðila á fyrstu þrem mánuðum ársins fækkaði um 4% á milli ára (148 árið 2020 en 142 árið 2021) en á sama tíma fjölgaði alþjóðlegum umsóknum um 4% (745 árið 2020 og 773 árið 2021).

Á tímabilinu janúar til mars voru birt samtals 628 vörumerki og er það fækkun um tæp 40% frá fyrra ári. Mestu munar þar um birtingu á alþjóðlegum umsóknum sem fækkaði úr 817 í 379, eða um 53%. Birtingum á vörumerkjum íslenskra aðila fjölgaði um 6%, 101 vörumerki voru birt á fyrsta ársfjórðungi 2021 samanborið við 93 árið 2020. Birtingum vörumerkja erlendra aðila fjölgaði um 15%, 131 vörumerki voru birt á fyrsta ársfjórðungi 2020 samanborið við 150 árið 2021.

Fækkunin skýrist fyrst og fremst af breyttri forgangsröðun verkefna, en á árinu 2020 var mikil áhersla lögð á rannsókn vörumerkja en í upphafi þessa árs hefur vinna við rökstuðning fyrri ákvarðana verið fyrirferðarmikil. Vonir standa til að á öðrum ársfjórðungi verði hægt að setja aftur aukinn kraft í rannsókn og þar með birta fleiri merki.

Einkaleyfi

Umsóknir um landsbundin einkaleyfi á fyrstu þremur mánuðum ársins eru færri á nokkru öðru þriggja mánaða tímabili í sögu stofnunarinnar, eða samtals fimm. Alþjóðlegar umsóknir, þar sem íslenskir aðilar sækja um hjá Alþjóðahugverkastofunni, voru sex á sama tímabili.

Það sem af er ári hafa um 11% færri evrópsk einkaleyfi tekið gildi hér en á sama tíma í fyrra. 338 evrópsk einkaleyfi voru staðfest hér á landi á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 379 á sama tímabili í fyrra.

Er þetta áframhald frá þróun síðasta árs en þá fækkaði lítillega staðfestum evrópskum einkaleyfum samanborið við fyrra ár. Var það í fyrsta skipti frá því Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun varð á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email