Fjöldi íslenskra umsókna um evrópsk einkaleyfi jókst um 51,5% árið 2019 samanborið við árið á undan. Íslenskir aðilar lögðu fram 50 einkaleyfaumsóknir árið 2019 en þær voru 33 árið 2018. 
Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Evrópsku einkaleyfastofunni bárust 181.000 einkaleyfaumsóknir á árinu 2019 sem er metfjöldi og aukning um 4% miðað við árið 2018. 

Mikil aukning í umsóknum tengdum 5G og gervigreind
Þegar skoðuð eru tæknisvið einkaleyfaumsóknanna má sjá áhugaverða þróun á sviði stafrænnar tækni sem tengist meðal annars 5G og gervigreind. Mikil aukning var á einkaleyfaumsóknum á sviði stafrænna fjarskipta (+19,6%)  og tölvutækni (+10,2%). Stafræn fjarskipti eru þar með orðinn stærsti flokkurinn og taka það sæti af tækni á heilbrigðissviði sem hefur verið stærsti flokkurinn frá árinu 2006.

Aukning frá næstum öllum heimssvæðum, mikil aukning í Kína
Flestar umsóknir bárust frá Bandaríkjunum (25%), Þýskalandi (15%), Japan (12%), Kína (7%) og Frakklandi (6%). Aukinn fjöldi umsókna hjá EPO í ár er að mestu knúinn áfram af aukningu frá Kína (+29,2%), Bandaríkjunum (+5,5%) og Suður Kóreu (+14,1%). Fjöldi umsókna frá Kína hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, en á aðeins áratug hefur fjöldi umsókna sexfaldast (12.247 árið 2019 samanborið við 2.061 árið 2010).

Mynd

Huawei stærsti einstaki umsækjandinn
Aukinn fjölda umsókna á sviði stafrænnar tækni og fjarskipta kemur einnig fram í lista yfir stærstu einstöku umsækjendurna. Kínverska tæknifyrirtækið Huawei er þar fremst í flokki (3.524 umsóknir), en þar á eftir koma kóresku tæknifyrirtækin Samsung (2.858 umsóknir) og LG (2.817 umsóknir).

Mynd

Evrópska einkaleyfastofan er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum en höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein virtasta stofnun heims á sviði hugverkaréttinda en Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega en árið 2019 tóku rúmlega 1.400 evrópsk einkaleyfi gildi hér á landi.
Nánari upplýsingar um nýjustu tölur EPO má finna hér: http://www.epo.org/patent-index2019 

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email