Fjöldi evrópskra einkaleyfaumsókna sem lagðar voru inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) árið 2020 stóð næstum í stað þrátt fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn þökk sé miklum fjölda umsókna á sviði heilbrigðistækni. Flestar umsóknir voru á sviði heilbrigðistækni en mestur vöxtur var á sviðum lyfja- og líftækni. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði EPO sem kom út í dag.

  • Stöðug eftirspurn eftir evrópskri einkaleyfavernd þrátt fyrir heimsfaraldur
  • Uppfinningum á sviði heilbrigðistækni fjölgaði; fækkaði á sviði samgöngutækni
  • Mikill vöxtur í fjölda umsókna frá Kína og Suður Kóreu á meðan evrópskum, japönskum og bandarískum umsóknum fækkaði
  • Fjöldi íslenskra umsókna fækkaði úr 50 í 40 á milli ára
  • Samsung, Huawei og LG helstu umsækjendur

Þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19 var heildarfjöldi evrópskra einkaleyfaumsókna á árinu 2020 næstum á pari við árið 2019 en fjöldi þeirra dróst saman um 0,7%. EPO barst 180.250 umsóknir um evrópsk einkaleyfi á árinu 2020 sem er örlítil fækkun frá metfjölda umsókna sem barst árið 2019 (181.532).

Aukin nýsköpun á sviði lífvísinda og mikil virkni á sviði stafrænnar tækni

Mesta aukningin á fjölda umsókna var á sviði lyfja (+10,2%) og líftækni (+6,3%). Flestar umsóknir árið 2020 voru þó á sviði heilbrigðistækni (+2,6%) sem tók toppsætið aftur frá stafrænni tækni sem var helsta tæknisviðið árið 2019.  Mikil nýsköpun var á þeim tæknisviðum sem sáu hvað mestan vöxt í fjölda umsókna árið 2019: stafræn tækni (þar sem meðal annars er að finna tækni tengda 5G kerfum) og tölvutækni (þar á meðal tækni tengd gervigreind). Mikil einkaleyfavirkni var á þessum sviðum en þau voru annað og þriðja virkustu tæknisviðin. Töluverð fækkun var hinsvegar á fjölda einkaleyfaumsókna á sviði samgangna (-5,5%), sérstaklega á sviði flug- og geimtækni (-24,7%).

Mestur vöxtur í Kína og Suður Kóreu – fjöldi íslenskra umsókna fækkar

Hvað varðar uppruna umsókna þá voru fimm helstu umsóknarlöndin aftur Bandaríkin (44.293 umsóknir), Þýskaland (25.954 umsóknir), Japan (21.841 umsóknir), Kína (13.432 umsóknir) og Frakkland (10.554 umsóknir). Mestur vöxtur var á umsóknum frá kínverskum (+9,9%) og suður kóreskum (+9,2%) aðilum en kínversk fyrirtæki voru sérstaklega virk á sviði líftækni, rafbúnaðar/tækja/orku (þar sem er meðal annars að finna uppfinningar á sviði grænnar orkutækni) og stafrænni tækni. Á sama tíma fækkaði umsóknum frá bandarískum aðilum um 4,1% og japönskum aðilum um 1,1%.

Íslenskum umsóknum fækkaði um 20% árið 2020 eftir töluverða aukningu árið 2019. 40 umsóknir um evrópsk einkaleyfi voru lagðar inn hjá EPO árið 2020 samanborið við 50 árið 2019.

Alls lögðu aðilar frá 38 aðildarríkjum EPO inn rúmlega 81 þúsund umsóknir um evrópsk einkaleyfi á árinu 2020 sem er samdráttur um 1,3% milli ára. Meðal tíu efstu landana var mesti samdrátturinn á umsóknum frá Hollandi (-8,2%) og Bretlandi (-6,8%). Umsóknum frá Finnlandi fjölgaði hinsvegar um 11,1%, þökk sé mikilli nýsköpun á sviði stafrænnar tækni.

Samsung og Huawei aftur virkustu umsækjendurnir

Listinn yfir tíu virkustu umsóknaraðilana árið 2020 endurspeglar aukin fjölda einkaleyfaumsókna frá Kína og Suður Kóreu. Samsung (með 3.276 umsóknir) er efst á listanum en þar á eftir kemur Huawei (3.113 umsóknir) sem var efst á listanum árið 2019.

Evrópska einkaleyfastofan er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum en höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein virtasta stofnun heims á sviði hugverkaréttinda en Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega en árið 2020 tóku rúmlega 1.400 evrópsk einkaleyfi gildi hér á landi.
Nánari upplýsingar um nýjustu tölur EPO má finna hér: EPO Patent Index 2020

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email