Þann 15. september nk. mun Einkaleyfastofan innleiða breytta framkvæmd við mat á sérkenni og aðgreiningarhæfi vörumerkja. Breytt framkvæmd felur það í sér að þrengri sjónarmiðum en áður verður beitt við mat á því hvort vörumerki verða talin skráningarhæf eða ekki. Mun það væntanlega hafa í för með sér synjun á skráningu fleiri merkja en áður á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.

Framkvæmd þessi mun taka til allra umsókna sem hafa umsóknardag 15. september 2017 og síðar. Umsóknir sem byggja á alþjóðlegri skráningu fyrir þann tíma eða forgangsrétti verða meðhöndlaðar samkvæmt eldri viðmiðum. Þá mun ný framkvæmd ekki hafa áhrif á mat Einkaleyfastofunnar á sérkenni og aðgreiningarhæfi þeirra merkja sem þegar hafa verið skráð.

Ákvörðun þessi byggir á því að síðastliðin ár hefur verið unnið að samræmingu hvað þetta varðar innan Evrópu og hefur Hugverkastofa Evrópusambandsins (e. European Intellectual Property Office – EUIPO) verið í forsvari í þeirri vinnu. Afurð þessa verkefnis, sem í daglegu tali er nefnt „CP3“ eru samræmd viðmið sem skilgreind eru í sérstöku skjali (e. Common Communication) frá 15. október 2015, sem nálgast má hér.

Einkaleyfastofan hvetur alla umsækjendur til að kynna sér þessi nýju viðmið nánar áður en umsókn um skráningu vörumerkis er lögð inn. Kynningar á framkvæmdinni eru aðgengilegar hér (forsaga) og hér (dæmi).