Framboð á fræðslu um hugverkaréttindi fyrir nemendur og starfsfólk háskólans mun aukast með nýjum samstarfssamning Háskóla Íslands og Hugverkastofunnar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, undirrituðu samninginn í gær. Tilgangur samstarfsins er að stuðla að aukinni vitund og þekkingu á hugverkarétti með fræðslu fyrir starfsmenn skólans og nemendur. Aðilar eru sammála um mikilvægi hagnýtingar rannsókna og verndun hugverka fyrir samfélagið.

Samstarfið felur meðal annars í sér aukið framboð af hugverkaréttindafræðslu í námskeiðum skólans, en auk þess mun nemendum og starfsfólki HÍ bjóðast að taka þátt í verkefnum í samstarfi við Hugverkastofuna í þeim tilgangi að stuðla að aukinni þekkingu á vernd hugverka og hagnýtingu rannsókna innan háskólasamfélagsins.

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar:

"Samningurinn er byggður á traustum grunni og farsælu samstarfi. Það er sérstaklega ánægjulegt að skrifa undir þennan samning í tengslum við alþjóðlega hugverkadaginn sem er haldinn 26. apríl ár hvert og er þema dagsins í ár hugverk og ungt fólk. Samningurinn við háskólann veitir starfsfólki hans, sem og nemendum, aukið tækifæri til að sækja sér þekkingu um hugverkaréttindi sem er nauðsynlegur þáttur í árangri nýsköpunar, rannsóknar- og þróunar.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands:

„Það er ánægjulegt að formfesta og efla það góða samstarf sem Háskóli Íslands og Hugverkastofan hafa viðhaft um árabil.  Í nýrri stefnu Háskóla Íslands er aukin áhersla lögð á nýsköpun. Hugverkaréttur er mikilvægur liður í nýsköpun og hagnýtingu rannsókna eins og sjá má af starfi fjölda fyrirtækja sem sprottið hafa frá Háskóla Íslands. Með samningnum gefst starfsfólki og nemendum aukið tækifæri að öðlast þekkingu á hugverkarétti hvort sem sú þekking nýtist innan skólans eða í atvinnulífinu að loknu námi“.

Mynd
Undirskrift með HÍ 2
Frá vinstri: Ólöf Ragnarsdóttir, Deildarstjóri nýsköpunar hjá Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, Jón Gunnarsson, samskiptastjóri Hugverkastofunnar
Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email