Hugverkastofan tók þátt í Nýsköpunarvikunni sem haldin var í annað skiptið dagana 26. maí til 2. júní.

Nýsköpun og hugverk

Hugverkastofan stóð fyrir viðburði í samstarfi við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins þar sem farið var yfir hvernig hægt er að nota hugverkaréttindi til að ná árangri í nýsköpun. Á hádegisfundinum fóru Karl Ægir Karlsson, stofnandi og framkvæmdastjóri 3Z, Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, Guðmundur Þór Reynaldsson, hugverkastjóri Marel, og Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar framtakssjóðs yfir árangurssögur fyrirtækja og þau tækifæri, og ógnir, sem felast í hugverkaréttindum fyrir aðila í nýsköpun. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, stýrði fundinum og léttum umræðum í lokin.

Nýsköpunarvikan 2

 

Upptaka af fundinum á Facebook

Upptaka af fundinum á Youtube

Hugverkastofan Pop-Up

Hugverkastofan var með útibú, svokallaða „Pop-up Hugverkastofu“, í Grósku á Nýsköpunarvikunni. Í útibúinu sem var opið dagana 26. og 31. maí gafst frumkvöðlum, aðilum í nýsköpun og öðrum gestum og gangandi tækifæri á kíkja á starfsfólk Hugverkastofunnar í létt spjall eða ráðgjöf um allt sem viðkemur verndun og hagnýtingu hugverka í nýsköpun.

Nýsköpunarvikan Pop-up 1

Hátíðarútgáfa Að Rata í frumkvöðlaumhverfinu

Ráðgjafafyrirtækið RATA bauð verðandi, nýjum og núverandi frumkvöðlum og öðrum áhugasömum upp á hátíðarútgáfu af Að rata í frumkvöðlaumhverfinu í tilefni Nýsköpunarvikunnar. Viðburðurinn hefur verið haldinn mánaðarlega síðasta árið og er tilgangurinn að halda utanum upplýsingar um stuðningsaðila í umhverfinu og koma áleiðis til frumkvöðla.

Að þessu sinni var um "Ekki-ráðstefnu" á netinu að ræða þar sem þátttakendum gefst tækifæri á að hitta stuðningsaðila og spyrja þá spjörunum út. Hugverkastofan var með stofu á viðburðinum undir heitinu „Hugverkið ber þig hálfa leið“ þar sem áhugasömum bauðst að ræða um hlutverk, verndun og hagnýtingu hugverka í nýsköpunarferlinu.

Nýsköpunarvikan 3

Hugverkastofan hefur verið samstarfsaðili Nýsköpunarvikunnar í bæði skiptin sem hátíðin hefur verið haldin. Markmið Nýsköpunarvikunnar er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar á Íslandi og sýna fram á að nýsköpun gengur þvert á allar atvinnugreinar. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað á Íslandi innan stofnana, fyrirtækja og sprotafyrirtækja þar sem framúrstefnulegar lausnir, ólík sköpunarferli og kraftmiklir frumkvöðlar fá notið sín.

Nánar um Nýsköpunarvikuna

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email