Á dögunum hlaut Hugverkastofan viðurkenningu fyrir að ljúka öðru Græna skrefinu. Á síðustu mánuðum hefur Hugverkastofan gripið til margvíslegra aðgerða sem miða að því að minnka umhverfisáhrif stofnunarinnar.

Til að ljúka skrefinu þurfti Hugverkastofan meðal annars að bæta flokkun, bjóða upp á bætta aðstöðu fyrir hjólafólk, skila grænu bókhaldi og setja sér loftslagsstefnu. Í henni kemur fram að Hugverkastofan muni í jöfnum skrefum, allt til ársins 2030, draga úr losun um 40% miðað við árið 2019. Hugverkastofan er í miklu alþjóðlegu samstarfi með tilheyrandi utanlandsflugi og þeirri losun sem af því hlýst. Í stefnunni eru sett skýr markmið um um að draga úr losun frá samgöngum ásamt því að kolefnisjafna starfsemi stofnunarinnar. Hugverkastofan hefur með þessu ekki aðeins metnað fyrir því að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið heldur einnig að vera fyrirmynd fyrir alþjóðlega samstarfsaðila.

Umhverfisstofnun heldur utan um Græn skref sem er ætlað að aðstoða stofnanir við að efla sitt umhverfisstarf. Með þátttöku í Grænum Skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga. Verkefninu er skipt upp í fimm skref og inniheldur hvert skref á bilinu 20-40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstur Hugverkastofunnar. Veitt er viðurkenning frá Umhverfisstofnun fyrir hvert skref sem lokið er við.

Þátttaka Hugverkastofunnar í Grænum Skrefum er í samræmi við endurskoðaða stefnu stofnunarinnar en eitt af stefnumiðum Hugverkastofunnar er að stuðla að „stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri“. Hugverkastofan hlaut viðurkenningu fyrir að hafa stigið fyrsta Græna skrefið í desember.

Grænt bókhald Hugverkastofunnar

 

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email