Falsanir og brot á hugverkaréttindum er að finna í öllum löndum og í alls konar iðnaði og viðskiptum en hver er hinn raunverulegi kostnaður fyrir samfélagið? Þrátt fyrir að margir geri lítið úr alvarleika slíkrar starfsemi þá fylgir henni margs konar kostnaður sem liggur ekki alltaf í augum uppi. Falsanir, eftirlíkingar og brot á hugverkaréttindum hafa neikvæð áhrif á samfélagið þar sem þessi ólöglega starfsemi ýtir til hliðar hundruðum milljarða króna virði af lögmætri atvinnustarfsemi og styður við neðanjarðarhagkerfi. Jafnframt sviptir slík starfsemi ríkið tekjum fyrir mikilvæga almenningsþjónustu sem eykur byrði skattgreiðenda, hefur áhrif á hundruð þúsunda lögmætra starfa og gerir hættulegar eða óvirkar vörur aðgengilegar almenningi. Einnig dregur þetta úr hvata fyrirtækja til að standa í kostnaðarsamri rannsóknar- og þróunarvinnu.

Alls konar vörur geta verið falsaðar þar sem óprúttnir aðilar sjá sér færi á að græða á nýsköpun eða viðskiptavild annarra. Vörurnar geta verið allt frá lúxus handtöskum, skóm og ilmvötnum yfir í banana og jarðarber sem brjóta á vörumerkjarétti.

Einnig hefur fundist mikið magn falsaðra leikfanga og varahluta, en framleiðsluaðferðir á þessum vörum sem uppfylla ekki umhverfis- og öryggiskröfur geta gert vörurnar stórhættulegar börnum og almenningi. Fölsuð lyf ganga einnig kaupum og sölu en þau ógna heilsu þeirra sem nota þau, annað hvort með hættulegum aukaefnum eða of mikilli eða lítilli virkni.

Sameiginlegar rannsóknir Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafa leitast við að skoða viðskipti með falsaðar vörur og greina áhrif þeirra á hagkerfið. Markmið rannsóknarinnar var að meta verðmæti, umfang og þróun í viðskiptum með eftirlíkingar og „sjóræningjavörur“, þ.e. vörur sem eru framleiddar án tilskilins leyfis hugverkarétthafa. Niðurstöðurnar sýna að viðskipti með falsaðar vörur standa undir 2,5% af alþjóðaviðskiptum í heiminum, eða um 338 milljarða evra. Í Evrópusambandinu standa viðskipti með falsaðar vörur undir 5% af öllum innflutningi, en talið er að ágóðinn af slíkri starfsemi skili sér að miklu leyti til skipulagðra glæpasamtaka. Tölurnar eru varlega áætlaðar og taka ekki tillit til ólöglegra viðskipta með tónlist, kvikmyndir og annað stafrænt efni.

Rannsókn sem Alþjóðaverslunarráðið lét framkvæma á víðari áhrifum þessarar starfsemi sýnir að fölsunum og brotum á hugverkaréttindum fylgir gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið. Árið 2013 var kostnaðurinn fyrir hagkerfi og samfélög metinn á allt að 898 milljarða bandaríkjadala og 2,6 milljón störf, en áætlað er að sá kostnaður muni aukast á næstu árum og verða allt að 1.870 milljarðar bandaríkjadala og 5,4 milljón störf árið 2022.

  Áhrif brota á hugverkaréttindum á hagkerfi og samfélög  
  2013 2022 (áætlað)
Tilfærsla löglegrar atvinnustarfsemi 470–597 milljarðar bandaríkjadala 980–1.244 milljarðar bandaríkjadala
Áætlaður samdráttur á hreinni, erlendri fjárfestingu  111 milljarðar bandaríkjadala 231 milljarður bandaríkjadala
Áætlað fjárhagslegt tap iðnaðar 96–130 milljarðar bandaríkjadala 199–270 milljarðar bandaríkjadala
Áætlaður kostnaður vegna glæpastarfsemi 60 milljarðar bandaríkjadala 125 milljarðar bandaríkjadala
Samtals efnahagslegur og samfélagslegur kostnaður 737–898 milljarðar bandaríkjadala 1.550–1.870 milljarðar bandaríkjadala
Áætlað atvinnutap í heiminum 2–2,6 milljónir starfa 4,2–5,4 milljónir starfa

Heimild: Frontier Economics (2017)

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email