Ísland fer upp um fjögur sæti á nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (e.  Global Innovation Index, GII) fyrir árið 2021. Ísland er nú í 17. sæti vísitölunnar.

Sviss er í efsta sæti vísitölunnar líkt og í fyrra en þar á eftir koma Svíþjóð, Bandaríkin, Bretland og Suður Kórea. Norðurlandaþjóðirnar eru allar ofarlega líkt og síðustu ár, Svíþjóð er í öðru sæti á meðan Finnland er í 7. sæti, Danmörk í 9. sæti og Noregur í 20. sæti líkt og í fyrra.

Vísitalan tekur saman og raðar nýsköpunargetu og -árangri aðildarríkja stofnunarinnar en meðal þess sem skoðað er er árangur ríkja í hugverkaframleiðslu og -vernd ásamt fjárfestingu í nýsköpun. Ísland skorar tiltölulega hátt í þremur af sjö undirstoðum vísitölunnar: Stofnanir (e. Institutions), viðskiptaumhverfi (e. Business sophistication) og hugvitsafurðir (e. Creative outputs), en á síðustu stoðinni er Ísland í 10. sæti.

Á sama tíma skorar Ísland tiltölulega lágt í fjórum undirstoðum: Mannauður og rannsóknir (e. Human capital & research), innviðir (e. Infrastructure), markaðsumhverfi (e. Market sophistication) og þekkingar- og tækniafurðir (e. Knowledge & technology outputs), en skráningar á einkaleyfum og tekjur vegna hugverkaréttinda heyra undir síðustu stoðina.

Daren Tang, forstjóri Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), segir að nýjustu tölurnar sýni að þrátt fyrir að heimsfaraldur COVID-19 hafi haft mikil áhrif á líf og lífsviðurværi fólks hafi iðnaður sýnt merkilega seiglu – sérstaklega iðnaður sem hefur lagt áherslu á stafræna umbreytingu, tæknilausnir og nýsköpun. „Þegar heimurinn er að horfa til enduruppbyggingar í kjölfar faraldursins, þá vitum við að nýsköpun verður nauðsynlegur hluti af því að komast yfir sameiginlegar áskoranir byggja upp betri framtíð. Nýsköpunarvísitalan er einstakur vísir fyrir stjórnvöld og fyrirtæki til að aðstoða þau við að skapa áætlanir til að koma sterkari út úr faraldrinum.“

Video file

 

Hægt er að sjá heildarárangur Íslands með því að smella hér.

Hægt er að skoða skýrslu GII 2020 í heild sinni og helstu niðurstöður með því að smella hér.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email