Mars tölublað ELS-tíðinda er komið út. Eintakið má nálgast rafrænt hér.

Í ELS tíðindum í dag er tilkynnt um skráningu 305 vörumerkja og hafa þá samtals verið skráð 886 vörumerki á árinu, samanborið við 682 á sama tíma í fyrra. Á árinu 2018 hægði umtalsvert á rannsókn nýrra vörumerkjaumsókna sem berast í gegnum Madrid kerfið, en nú standa vonir til að málsmeðferðartími þeirra taki aftur að styttast, en samtals bíða um 2.000 vörumerkjaumsóknir rannsóknar. Málsmeðferðartími umsókna sem berast beint til Einkaleyfastofunnar er hins vegar áfram með því stysta sem þekkist. Í blaðinu er jafnframt tilkynnt um endurnýjun 271 vörumerkis.

Í blaðinu eru tvær alþjóðlegar hönnunarskráningar auglýstar. Á sama tíma er auglýst endurnýjun þriggja hönnunarskráninga.

Þrjú landsbundin einkaleyfi eru auglýst veitt að þessu sinni. Þau eru öll í eigu íslenskra aðila. Marel fær einkaleyfi á aðferð til að meðhöndla matvæli, Mannvirki og malbik fyrir kerfi fyrir flutninga í lofti og á landi og ÍSOR á tengistykki fyrir rör í háhitaholum. Þá eru tvær nýjar íslenskar einkaleyfisumsóknir auglýstar aðgengilegar í blaðinu. Tilkynnt er um veitingu 124 evrópskra einkaleyfa í blaðinu og eru þau þá samtals orðin 386 það sem af er ári, samanborið við 338 á sama tíma árið 2018. Níu umsóknir um viðbótarvernd eru auglýstar í blaðinu og eitt veitt viðbótarvottorð.