Viðhorf almennings gagnvart brotum á hugverkaréttindum eru neikvæðari en áður samkvæmt nýrri skýrslu Evrópsku athugunarstöðvarinnar um brot á hugverkaréttindum (EUIPO Observatory). Í skýrslunni kemur fram að evrópskur almenningur er neikvæðari gagnvart kaupum á fölsuðum varning og ólöglegu niðurhali en þegar rannsóknin var síðast framkvæmd árið 2017.

Í skýrslunni kemur einnig fram að með aukinni þekkingu og skilningi á hugverkaréttindum minnka líkurnar á að einstaklingar brjóti gegn þeim. Á þetta bæði við um kaup á fölsuðum varning og ólöglegt niðurhal og streymi.

Líkt og í fyrri rannsóknum EUIPO Observatory þá kemur fram að flestir svarendur (98%) eru sammála því að það er mikilvægt að uppfinningamenn, hönnuðir og aðrir listamenn geti verndað hugverk sín og fengið laun fyrir vinnu sína. Einnig kemur fram að meirihluti svarenda (73%) er sammála því að hugverkaréttind eru atvinnuskapandi og að tilvist þeirra stuðlar að efnahagslegum stöðugleika í Evrópu.

Niðurstöðurnar sýna einnig að fleiri telja fleiri sig hafa góðan skilning á hugverkaréttindum en áður. Það er mikilvægt þar sem þeir sem telja sig hafa góðan skilning á hugverkaréttindum eru ólíklegri til að brjóta á þeim viljandi, annað hvort með því að kaupa falsaðan varning eða stunda ólöglegt niðurhal.

Falsanir

Hlutfall svarenda sem viðurkennir að kaupa viljandi falsaðan varning minnkar úr 7% í 5%. Líkt og í könnuninni 2017 kemur fram að ungt fólk er töluvert líklegra til að kaupa falsaðan varning. 10% svarenda á aldrinum 15 til 24 ára viðurkennir að kaupa falsaðan varning.

Mikill meirihluti svarenda (83%) er sammála því að með því að kaupa falsanir sé verið að hafa neikvæð áhrif á atvinnusköpun og iðnað. Þetta er aukning um 4% frá 2017. Einnig hefur hlutfall þeirra sem telur að öryggi og heilsu fólks stafi ógn af fölsuðum varning aukist um 5% milli kannana, en talið er að þetta megi að einhverju leyti rekja til aukinnar vitundar um fölsuð lyf og hlífðarbúnað á tímum COVID-19.

Ólöglegt niðurhal

Hlutfall svarenda sem viðurkenndi að stunda ólöglegt niðurhal minnkaði úr 10% í 8% milli kannana. Viðhorf gagnvart ólöglegu niðurhali og streymi eru einnig neikvæðari en áður. Frá 2013 hefur hlutfall Evrópubúa sem er sammála því að það sé í lagi að nálgast stafrænt efni með ólöglegum leiðum ef það er til einkanota fallið um 15% og um 10% frá síðustu könnun árið 2017.

Jafnframt hefur hlutfall þeirra sem telur það vera réttlætanlegt að nálgast stafrænt efni með ólöglegum leiðum þegar það er engin lögleg veita í boði minnkað niður í 28%, en 32% svarenda voru sammála því í könnuninni 2017. Það vekur einnig athygli að stór meirihluti svarenda (89%) kýs að nálgast stafrænt efni í gegnum viðurkenndar efnisveitur ef að löglegur kostur á viðráðanlegu verði er í boði.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á heimasíðu EUIPO Observatory.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email