Í lok árs 2020 úrskurðaði Hugverkastofan í eftirfarandi andmælamálum:

Skráning vörumerkisins LE KOCK heldur gildi sínu

Hugverkastofan tók ekki til greina andmæli gegn skráningu vörumerkisins LE KOCK (orð- og myndmerki) nr. V0110793. Andmælin byggðu á eldri rétti Le K ehf. til merkisins, sem stofnast hefði á grundvelli notkunar, en merkið hefði verið notað af félaginu samfellt frá árinu 2017. Af þeim sökum væri ruglingshætta til staðar með merkjum aðila. Eigandi mótmælti rökum andmælenda og lagði fram ýmis gögn því til stuðnings að hann væri réttur eigandi vörumerkisins. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að andmælendur hefðu ekki sýnt fram á að framangreint félag hefði öðlast vörumerkjarétt til merkisins á grundvelli notkunar fyrir það tímamark þegar umsókn um skráningu merkisins var lögð inn. Í ljósi þess var ruglingshætta milli merkja aðila ekki tekin til nánari skoðunar.

Lesa má úrskurð nr. 5/2020 í heild sinni hér.

 

Skráning vörumerkisins DEIG heldur gildi sínu

Hugverkastofan tók ekki til greina andmæli gegn skráningu vörumerkisins DEIG (orð- og myndmerki) nr. V0110799. Andmælin byggðu á eldri rétti Le K ehf. og Deig ehf. til merkisins, sem stofnast hefði á grundvelli notkunar, en merkið hefði verið notað af félögunum samfellt frá árinu 2018. Af þeim sökum væri ruglingshætta til staðar með merkjum aðila. Eigandi mótmælti rökum andmælenda og lagði fram ýmis gögn því til stuðnings að hann væri réttur eigandi vörumerkisins. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að andmælendur hefðu ekki sýnt fram á að framangreind félög hefðu öðlast vörumerkjarétt til merkisins á grundvelli notkunar fyrir það tímamark þegar umsókn um skráningu merkisins var lögð inn. Í ljósi þess var ruglingshætta milli merkja aðila ekki tekin til nánari skoðunar.

Lesa má úrskurð nr. 6/2020 í heild sinni hér.

 

Skráning vörumerkisins CKJ heldur gildi sínu

Hugverkastofan tók ekki til greina andmæli gegn skráningu vörumerkisins CKJ (orð- og myndmerki) nr. V0111669. Andmælin byggðu á því að merkið væri ruglingslega líkt tilgreindum vörumerkjum andmælanda sem væru skráð hér á landi. Þá var jafnframt byggt á því að vörumerki andmælanda væru vel þekkt hér á landi og skráning hins andmælta merkis rýrði aðgreiningareiginleika merkja andmælanda. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að heildarmynd merkjanna væri það ólík að ruglingshætta væri ekki til staðar. Þá lagði andmælandi ekki fram fullnægjandi gögn að mati stofnunarinnar til að sýna fram á að merki hans væru vel þekkt hér á landi, né að notkun hins andmælta merkis hefði í för með sér misnotkun eða rýrði aðgreiningareiginleika eða orðspor merkja andmælanda.

Lesa má úrskurð nr. 7/2020 í heild sinni hér.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email