Hugverkastofan hefur opnað nýtt rafrænt form fyrir umsóknir um vörumerki. Nýja formið felur í sér ýmsar nýjungar, en því er ætlað að einfalda umsóknarferlið með betra viðmóti og aukinni upplýsingagjöf til umsækjenda. Umsóknarformið hefur einnig verið uppfært  í samræmi við nýlega breytingu á vörumerkjalögum.

Helstu nýjungar nýja umsóknarformsins eru:

  • Nýjum tegundum vörumerkja, sem bættust við með breytingu á vörumerkjalögunum 1. september síðastliðinn hefur verið bætt við.
  • Umsækjendur geta lagt drög að umsókn áður en að innskráningu kemur. Þannig má t.d. sjá kostnað við umsókn, undirbúa vöru og/eða þjónustulista og kanna skráningarhæfi merkis með leit í vörumerkjaleitarvél Hugverkastofunnar.
  • Listi tilgreininga vöru og þjónustu hefur verið víkkaður og undirbúningur vöru og/eða þjónustulista einfaldaður.
  • Umsækjendur geta nú á einfaldan hátt valið úr lista vöru og/eða þjónustu sem samþykktur er af Hugverkastofunni, Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), TM-class.

Til að ljúka umsókn er nauðsynlegt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Nýtt rafrænt umsóknarform Hugverkastofunnar má finna hér: Rafrænt umsóknarform fyrir vörumerki