Fremstu uppfinningamenn heims hlutu viðurkenningar fyrir framlög sín á stafrænni verðlaunaathöfn European Inventor Award 2021 sem fór fram í gær. Verðlaun voru veitt fyrir nýsköpun á sviði lyfjagjafar í gegnum nef, gagnavistun með DNA-kóða, nanóefni í tannviðgerðum, sólarrafhlöður fyrir sjálfhlaðandi tæki, lífræna hálfleiðara og framþróun í vefjatækni.

Sigurvegararnir í ár voru valdir úr hópi hundruða uppfinningamanna frá fjölmörgum löndum sem tilnefndir voru til verðlaunanna.

Athöfnin í ár var í fyrsta skiptið haldin stafrænt og var opin almenningi. Á athöfninni var einnig tilkynnt um ný verðlaun sem, Young Inventors prize, en þeim verður ætlað að hvetja unga og upprennandi uppfinningamenn til dáða. Verðlaunin verða veitt í fyrsta sinn á árinu 2022.

Sigurvegarar European Inventor Award 2021 eru:

Iðnaður

Per Gisle Djupesland (Noregur)

Betri leið til lyfjagjafar í gegnum nef

Lækningatæki norska uppfinningamannsins Per Gisle Djupesland notar náttúrulegt form nefsins og öndun sjúklingsins til að veita meðferð gegn margvíslegum sjúkdómum.

Rannsóknir

Robert N. Grass og Wendelin Stark (Austurríki/Sviss)

Gagnavistun með DNA-kóða

Þessir austurrísku og svissnesku uppfinningamenn þróuðu nýja aðferð til að vista gögn með því að breyta þeim í genakóða og vista í smágerðum glerhylkjum. Með nýju aðferðinni er möguleiki á að geyma verðmæt gögn í árþúsundir og jafnvel búa til DNA barkóða sem hægt er að nota til að rekja hluta vöru í gegnum birgðakeðju.

Lönd utan EPO

Sumita Mitra (Indland/Bandaríkin)

Tannfyllingar úr nanóefnum

Vísindamaðurinn Sumita Mitra komst að því að nanóklasa væri hægt að nota í tannlækningum sem varð að nýrri, sterkari og endingabetri tegund tannfyllinga. Efnið sem hún þróaði er betra en margar af eldri tegundum tannfyllinga og hefur þegar verið notað í einn milljarð tannviðgerða um heim allan.

Lítil og meðalstór fyrirtæki

Henrik Lindström and Giovanni Fili (Svíþjóð)

Sveigjanlegar sólarrafhlöður fyrir lítil raftæki

Í verksmiðju sinni í Svíþjóð þróuðu uppfinningamennirnir sólarrafhlöður með því að nota nýjar tegundir rafskauta með mikla rafleiðni sem hægt er að prenta í næstum hvaða formi eða lit. Sólarrafhlaðan getur meira að segja hlaðið tæki innandyra og er því er verið að nota þessa nýju tækni í að þróa raftæki sem hlaða sig sjálf.

Heiðursverðlaun EPO (Lifetime achievement)

Karl Leo (Þýskaland)

Framþróun í lífrænum hálfleiðurum

Þessi þýski eðlisfræðingur þróaði nýja gerð lífrænna hálfleiðara með því að bæta leiðni þeirra með tækni sem kallast „doping“. Þessi aðferð ruddi brautina fyrir nýja kynslóð skjáa sem notar skilvirkar og lífrænar ljósgefandi díóður (OLED). Með þessari tækni er hægt að veita betri birtu, liti, upplausn og orkunýtingu í raftækjum, en OLED er nú þegar notað í um helming allra snjallsíma og mörgum tegundum léttra sólarrafhlaða.

Val fólksins

Gordana Vunjak-Novakovic (Serbía/Bandaríkin)

Framþróun í vefjatækni

Verðlaunin í flokknum „Val fólksins“ hlýtur sigurvegari netkosninga þar sem hægt er að velja einn af 15 uppfinningamönnum sem tilnefndir voru til European Inventor Award 2021. Að þessu sinni hlaut serbneski-bandaríski líftækniverkfræðingurinn Gordana Vunjak-Novakovic verðlaunin fyrir framþróun á sviði vefjalækninga með því að þróa aðferð til að skapa nýjan vef ex vivo (utan líkama) þar sem notaðar eru frumur sjálfs sjúklingsins.

European Inventor Award var nú haldið í 15. sinn en verðlaunin eru veitt árlega af Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) til að verðlauna framúrskarandi einstaklinga fyrir einstakt framlag þeirra til samfélagsins, tækniþróunar og hagvaxtar. Sigurvegarar og tilnefndir aðilar í flokkunum fimm voru valdir af sjálfstæðri alþjóðlegri dómnefnd. Allir uppfinningarmennirnir hafa það sameiginlegt að hafa notað evrópska einkaleyfakerfið til að vernda sína tækni og þannig gert öðrum uppfinningamönnum og rannsakendum kleift að byggja á sinni nýsköpun.

Nánari upplýsingar og upptaka af viðburðinum í heild sinni má finna hér.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email