Ríkisstjórn forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, heldur því fram að Kínverjar hafi í áranna rás stolið bandarískum hugverkum. Það er ein ástæða þess að Trump hefur hótað því að setja háa tolla, allt að 25%, á innfluttar vörur frá Kína náist ekki samningar á milli landanna. Bandarísk stjórnvöld halda því fram að hugverkastuldur hafi haft mikil neikvæð áhrif á fyrirtæki í Bandaríkjunum og stjórnendur þeirra hafa lengi kallað eftir því að eitthvað verði gert til að sporna við þessu, en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafi ekki skilað langtímaárangri.

Fljótlega eftir að Trump tók við embætti forseta árið 2017 lét hann fulltrúa bandarískra stjórnvalda rannsaka málið og fundu þeir sannanir fyrir því að Kínverjar væru að stela hugverkum, m.a. með því að framleiða falsaðar vörur og gera tölvuárásir á bandarísk fyrirtæki til að komast yfir viðskiptaleyndarmál. Verðmæti hugverkastuldarins var talið vera tugir milljarða (e. billion) dollara á ári. Í kjölfarið lagði forsetinn til að settir yrðu tollar á innfluttar vörur frá Kína sem samsvara árlegu tapi sem verður af hugverkastuldi, haldist ástandið óbreytt.

Kínversk stjórnvöld hafa hótað sömu aðgerðum verði ekki komist að samkomulagi við Bandaríkin. Hinsvegar hafa þeir lagt áherslu á að eftirlit og viðurlög vegna hugverkastuldar verði aukin. Viðurlögin sem að kínversk stjórnvöld segjast ætla að grípa til eru háar sektir á fyrirtæki sem gerast brotleg ásamt því að takmarka möguleika þeirra á fjármögnun og ríkisaðstoð. Nýjasta tillagan frá kínverskum stjórnvöldum er að setja lög sem eiga að auka hugverkavernd erlendra fyrirtækja í Kína.

Trump hefur lagt mikla áherslu á að færa iðnað og framleiðslu aftur til Bandaríkjanna en vöruskiptahalli við Kína árið 2018 var um 375 milljarðar dollara. Vel þekktar vörur m.a. Apple símar og Nike skór eru hannaðar á Vesturlöndum en að mestu leyti framleiddar og samsettar í Kína. Forsetinn vill minnka hallann við Kína þar sem að hann er, að mati Trump, ósanngjarn gagnvart bandarísku verkafólki og viðskiptalífi.

Nú síðast er spjótum bandarískra stjórnvalda og fjölmiðla á Vesturlöndum beint að kínverska tæknifyrirtækinu Huawei en það hefur verið sakað um að stela tækni frá vestrænum fyrirtækjum, einmitt þar sem það hefur verið að auka markaðshlutdeild sína. Ekki eru allir á sama máli um stuldinn og segja að þó svo að verndun erlendra aðila á hugverkum í Kína sé ekki í fullkomnu kerfi, þá virki það og hafi batnað mikið síðan það varð til upp úr 1980. Aðrir segja að ásakanir um stuldur Kínverja á hugverkum frá Vesturlöndum sé notaður til að slá ryki í augun á fólki til þess að hafa ástæðu til að setja tolla á kínverskar vörur, þar sem að bandarísku efnahagslífi stafi mest ógn af Kína í samkeppni landanna.

Í miðri fjórðu iðnbyltingunni, þar sem sjálfvirknivæðing og vélmenni eru að koma í stað vinnuafls við framleiðslu, skiptir minna máli hvar í heiminum framleiðslan fer fram.

Að sama skapi skipta hugvit, hugverk og vörumerki æ meira máli. Framleiðslukostnaðurinn mun ekki ráðast af kostnaði við vinnuafl heldur af kostnaði við vöruflutninga og rafmagn. Þessi þróun er ógn við framleiðslu í Kína og gæti ýtt Kínverjum enn frekar að samningaborðinu hvort sem að hugverkastuldurinn sé jafn umfangsmikill og bandarísk stjórnvöld og fyrirtæki halda fram eða ekki.

Donald Trump hefur sagt opinberlega að „viðskiptastríð séu góð og auðveld að sigra“. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu þessa pólitíska máls en það hefur m.a. valdið ólgu á hlutabréfamörkuðum víðs vegar um heiminn þar sem enn er óvissa, þegar þetta er skrifað, hvort og hvenær samningar náist á milli landanna. Tollastríð Bandaríkjanna og Kína hefur í það minnsta vakið alþjóðlega athygli og umræðu um verndun hugverka og verðmæti þeirra. Heimildir: Bloomberg, CNBC, Forbes og World IP Review.