Þann 1. október sl., gengu í gildi breytingar á reglum Evrópsku hugverkastofunnar EUIPO, varðandi það hverjum heimilt er að koma fram sem umboðsmenn í hönnunarmálum gagnvart stofnuninni.

Ákvörðun þessi var tekin í kjölfar dóms í máli nr. T-527/14 frá 13. júlí 2017, Paul Rosenich gegn EUIPO og hefur breytingin í för með sér að umboðsmönnum sem starfa á EES-svæðinu er nú heimilt að koma fram fyrir hönd umsækjenda í hönnunarmálum með sama hætti og varðandi vörumerki, en breytingar þess efnis tóku gildi í mars 2016 með Reglugerð (ESB) 2015/2424.

Þeir umboðsmenn sem nú þegar eru tilgreindir á lista EUIPO vegna vörumerkjamála þurfa ekki að aðhafast sérstaklega vegna hönnunar heldur tekur sú tilkynning og sú staðfesting Einkaleyfastofunnar sem nú þegar hefur verið send EUIPO yfir hönnunarmál einnig.

Ef óskað er eftir skráningu á lista EUIPO yfir umboðsmenn í vörumerkja- og hönnunarmálum þurfa umboðsmenn að senda útfyllt og undirritað eyðublað til EUIPO, sem aðgengilegt er hér: https://euipo.europa.eu/ohimportal/en/forms-and-filings og óska eftir því að Einkaleyfastofan staðfesti þá skráningu. Vinsamlega athugið að Einkaleyfastofan gefur ekki út einstaka staðfestingar til umboðsmanna heldur notast við svokallað „block certificate“. Leiðbeiningar um hvernig sótt er um veitir yfirlögfræðingur stofnunarinnar.