26. mars 2019 samþykkti Evrópuþingið umdeilda tilskipun sem varðar notkun á höfundaréttarvörðu efni á internetinu (348 atkvæði með, 274 á móti og 36 sátu hjá). Þessi tilskipun hafði sætt mikilli gagnrýni á meðan meðferð hennar á Evrópuþinginu stóð, þar sem margir telja hana muna gjörbreyta umhverfi internetsins, og þá sérstaklega meðal vefsíða sem reiða sig á höfundaréttarvarið efni í rekstri sínum eins og Facebook, Twitter, Instagram og Youtube. Miklar áhyggjur eru til staðar um að slíkar síður yrðu að afla tekna á annan hátt en gert er í dag t.d. með því að krefjast greiðslu gjalds fyrir notkun á þeim vefsíðum, sem áður hafa verið ókeypis fyrir notendur. Einnig telja margir að nýjar sambærilegar vefsíður gætu aldrei litið dagsins ljós vegna mikils upphafskostnaðar sem myndi fylgja rekstri slíkra vefsíða. Þá þyrftu stóru vefsíðunar ekki að hafa áhyggjur af frekari samkeppni en er til staðar í dag. Risar á borð við Susan Wojcicki (framkvæmdastjóri Youtube), Jimmy Wales (meðstofnandi Wikipedia) og Tim Berners-Lee (oft nefndur „faðir internetsins“) hafa gagnrýnt fyrirhugaðar breytingar Evrópusambandsins á reglum um meðferð höfundaréttarvarins efnis á internetinu.

Þrátt fyrir það fagna margir fyrirhuguðum breytingum, og vissulega eru flestir höfundar og rétthafar meðal þeirra. Í áranna raðir hefur það reynst höfundum og rétthöfum verulega erfitt að stöðva óheimila dreifingu og opinberun til almennings á efni þeirra á internetinu og nýta höfundarétt sinn á annan hátt. Afritun á t.d. tónlist af internetinu tekur í kringum sekúndu og er því verulega auðveld, en einnig má benda á að viðhorf neytanda gagnvart höfundaréttarvörðu efni hefur almennt verið þau að slík afritun valdi ekki rétthafa raunverulegu tjóni og sé því í lagi.

Því telja margir rétthafar sig ekki fá sanngjarna greiðslu fyrir verk sem þeir eiga höfundarétt á. Umrædd tilskipun á m.a. að bæta stöðu höfunda og rétthafa á internetinu verulega.

Meginþorri deilunnar byggði á efni 15. og 17. gr. (voru 11. og 13. gr.) tilskipunarinnar og erfiði rekstraraðila við að fylgja þeim í framkvæmd. Samkvæmt ákvæðum 17. gr. skulu vefsíður sem byggja á notkun á höfundaréttarvörðu efni (e. online content service providers) semja við rétthafa um leyfissamninga fyrir birtingu og framtíðarbirtingu á þeirra efni, en einnig munu vefsíðurnar bera töluverða ábyrgð á því sem birtist þar. Þetta telja margir gera stöðu slíkra vefsíða verri fjárhagslega ásamt því að rýra samningstöðu þeirra gagnvart rétthöfum. Einnig gerir 15. gr. fréttamiðlum kleift að krefjast greiðslu fyrir að setja tengil á þeirra efni á vefsíðu eins og Facebook. Hins vegar hefur Evrópuþingið breytt ákvæði 15. gr. á þann hátt að krækja á fréttagreinar ásamt einstaka orðum eða stuttri tilvitnun í texta greinarinnar skuli vera heimil.

Þessar breytingar leiða líklega til þess að vefsíður á borð við Facebook og Twitter verða að greiða töluverða fjárhæð til rétthafa fyrir áframhaldandi starfsemi sína ásamt því að hanna síur, sem sía út það efni sem ekki er búið að semja um birtingarleyfi fyrir (eins og Youtube hefur gert með góðum árangri). Þetta getur vissulega reynst rekstraraðilum slíkra vefsíða erfitt og því breytt vinsælustu vefsíðunum á internetinu til muna.