Viðskiptavinir eru varaðir við fölsuðum greiðslubeiðnum frá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO). Beiðnin um greiðslu kemur fram í falsaðri ákvörðun sem virðist vera frá EUIPO, en þar er aðilanum tjáð að vörumerkjaumsókn viðkomandi hafi verið samþykkt og hann beðinn um að millifæra gjald fyrir skráningu vörumerkisins.

Fölsuðu ákvarðanirnar (sem hægt er að sjá hér) bera nafn og merki EUIPO og getur því virst vera ósvikin ákvörðun frá stofnuninni. Þær hafa verið sendar notendum í gegnum póst frá Madríd en í ákvörðuninni kemur fram krafa um „skráningargjald“ sem á að vera lagt inn á pólskan bankareikning.

Ekki er vitað til þess að íslenskum aðilum hafi borist þessar greiðslubeiðnir, en síðustu ár eru dæmi um að íslenskum aðilum hafi borist villandi eða falsaðar greiðslubeiðnir frá ýmsum aðilum.

Hægt er að lesa nánar um fölsuðu greiðslubeiðninar á heimasíðu EUIPO með því að smella hér.

Þess má geta að öll gjöld sem varða umsóknir um skráningu vörumerkja hér á landi greiðast til Hugverkastofunnar og greiðslur vegna umsókna um skráningu vörumerkja erlendis koma aldrei til nema umsækjandi, eða umboðsmaður hans, hafi sjálfur lagt inn umsókn hjá viðeigandi aðilum, hjá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO), Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) eða í einstökum löndum.