Einkaleyfastofunni berast reglulega ábendingar um að íslenskum umsækjendum hafi borist erindi frá erlendum aðilum þar sem óskað er eftir greiðslu fyrir birtingu vörumerkja í erlendum gagnagrunnum.

Einkaleyfastofan hefur enga tengingu við þessa aðila og beinir þeim tilmælum til viðskiptavina sinna að greiða ekki umbeðin gjöld berist þeim erindi af þessu tagi þar sem tilgangurinn virðist eingöngu vera sá að blekkja umsækjendur.

Þess má geta að öll gjöld sem varða umsóknir um skráningu vörumerkja hér á landi greiðast til Einkaleyfastofunnar og greiðslur vegna umsókna um skráningu vörumerkja erlendis koma aldrei til nema umsækjandi, eða umboðsmaður hans, hafi sjálfur lagt inn umsókn hjá viðeigandi aðilum, hjá World Intellectual Property Organisation (WIPO), European Union Intellectual Property Office (EUIPO) eða í einstökum löndum.