Aukning var á fjölda birtra vörumerkja á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Staðfestum evrópskum einkaleyfum heldur áfram að fækka milli ára. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Hugverkastofunnar.

  • Vörumerkjabirtingum fjölgaði um 29% á fyrstu þrem mánuðum ársins (804) samanborið við sama tímabil á árinu 2021 (623).
  • Vörumerkjaumsóknum fækkaði lítillega milli ára.
  • Einungis 284 evrópsk einkaleyfi voru staðfest hér á landi á fyrstu þrem mánuðum ársins. Er það samdráttur um 17% samanborið við sama tímabil í fyrra.
  • Einkaleyfisumsóknum fjölgar milli ára. Níu umsóknir bárust Hugverkastofunni á fyrstu þrem mánuðum ársins 2022 samanborið við fimm á sama tímabili árið 2021.

Vörumerki

Hugverkastofunni barst í heild 1.127 umsóknir um skráningu vörumerkis á tímabilinu janúar til mars á árinu 2022. Þetta er lítillegur samdráttur miðað við sama tímabili í fyrra þegar 1.135 umsóknir bárust. Landsbundnum vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila fækkaði um 35% á tímabilinu en landsbundnum vörumerkjaumsóknum erlendra aðila fjölgaði um 25% og alþjóðlegum vörumerkjaumsóknum fjölgaði um 4%.

Á tímabilinu janúar til mars voru birt samtals 804 vörumerki sem er aukning um 29% miðað við sama tímabil í fyrra. Mestu munar þar um birtingar á alþjóðlegum vörumerkjaumsóknum sem fjölgaði úr 379 í 532, eða um 40%. Birtingum á vörumerkjum íslenskra aðila fjölgaði um 30%; 125 vörumerki voru birt á fyrstu þrem mánuðum ársins samanborið við 96 á sama tímabili árið 2021. Birtum landsbundnum vörumerkjaumsóknum erlendra aðila fjölgaði um 25%; 177 vörumerki voru birt á tímabilinu janúar til mars árið 2022 samanborið við 142 árið 2021.

Einkaleyfi

Landsbundnum einkaleyfisumsóknum á fyrstu þrem mánuðum ársins fjölgaði úr fimm árið 2021 í níu árið 2022. Aðeins ein alþjóðleg umsókn (PCT umsókn þar sem íslenskir aðilar sækja um hjá Alþjóðahugverkastofunni) var lögð inn á tímabilinu janúar til mars á árinu en þær voru 6 á sama tímabili árið 2021.

Það sem af er ári hafa 17% færri evrópsk einkaleyfi (EP) verið staðfest hér á landi en á sama tíma í fyrra. 284 evrópsk einkaleyfi voru staðfest hér á landi á fyrstu þrem mánuðum ársins samanborið við 342 á sama tímabili árið 2021.

Er þetta áframhald frá þróun síðustu tveggja ára en árið 2021 og 2020 fækkaði lítillega staðfestum evrópskum einkaleyfum samanborið við fyrri ár. Var það í fyrsta skipti frá því Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun varð á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email