Íslenskum vörumerkjaumsóknum fjölgaði á árinu 2020 um 5,2% þrátt fyrir slæmt efnahagsástand í kjölfar COVID-19 faraldursins. Þá voru teknar 47% fleiri ákvarðanir um birtingu vörumerkja á árinu 2020 en árið 2019. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Hugverkastofunnar fyrir árið 2020.

  • 671 landsbundin vörumerkjaumsókn frá íslenskum aðilum barst Hugverkastofunni á árinu 2020. Það er aukning um 5,2% frá fyrra ári.
  • Heildarfjöldi vörumerkjaumsókna var um 1,2% meiri árið 2020 en árið 2019.
  • Heildarfjöldi ákvarðana um birtingu vörumerkja* jókst um 47% á milli ára. Aukninguna má rekja til átaks í rannsókn vörumerkja hjá Hugverkastofunni.
  • Landsbundnum einkaleyfisumsóknum íslenskra aðila fjölgaði um 8,5% á milli ára og IS-PCT alþjóðlegum umsóknum íslenskra aðila fjölgaði um 33%.
  • Hönnunarskráningum hér á landi heldur áfram að fækka á milli ára. Aðeins 84 skráningar voru hér á landi árið 2020, þar af níu landsbundnar.

Vörumerki

Vörumerkjaumsóknum í heild fjölgaði lítillega milli ára eða úr 4.110 umsóknum árið 2019 í 4.160 umsóknir árið 2020. Alþjóðlegum umsóknum fækkaði lítillega á milli ára (2.893 árið 2019 og 2.851 árið 2020), en á sama tíma fjölgaði landbundnum umsóknum. Í ljósi neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum er sérstaklega áhugavert að sjá að landsbundnum vörumerkjaumsóknum íslenskra aðila fjölgaði á árinu um 5,2% (671 árið 2020 samanborið við 638 árið 2019) .

Þessar jákvæðu tölur eru vonandi merki um grósku í nýsköpun og markaðsstarfi hér á landi. Það vekur þó einnig athygli að á meðal íslenskra umsókna sem bárust á árinu var töluverður fjöldi eldri og rótgróinna vörumerkja sem verið er að skrá í fyrsta skiptið. Er það vonandi merki um að fyrirtæki hafi nýtt umrótið á árinu til þess að rýna sín hugverkamál.

Vörumerkjaumsóknir 2020

Ákvörðunum um birtingu vörumerkja fjölgaði mikið milli ára eða um 47% (4.010 ákvarðandir árið 2020 samanborið við 2.727 árið 2019). Munar þar helst um mikla aukningu á fjölda birtinga alþjóðlegra vörumerkja en þeim fjölgaði um 73% milli ára.

Þessi mikla aukning kemur til vegna átaks í rannsókn vörumerkja sem hófst í byrjun árs. Hjá Hugverkastofunni voru rannsökuð um 4.300  vörumerki samanborið við 3.000 árið 2019. Mikil fjarvinna starfsmanna Hugverkastofunnar vegna COVID-19 faraldursins hafði engan neikvæð áhrif á afköst í rannsókn, nema síður sé.

Birt vörumerki 2020

Endurnýjunum skráðra vörumerkja fjölgaði um 13,2% milli ára (3.282 endurnýjanir árið 2020 samanborið við 2.900 árið 2019). Var aukning í fjölda alþjóðlegra endurnýjana (10,4%), landsbundinna íslenskra  (20%) og landsbundinna erlendra (17,3%).

Einkaleyfi

Landsbundnum einkaleyfaumsóknum fækkaði um 14,5% milli ára. Munar þar um fækkun umsókna erlendra aðila úr 15 í aðeins tvær umsóknir árið 2020. Fjöldi landsbundinna einkaleyfaumsókna íslenskra aðila jókst hins vegar um fjórar milli ára, eða 8,5%.

Einkaleyfaumsóknir 2020

Heildarfjöldi landsbundinna einkaleyfa sem veitt voru hérlendis árið 2020 var sá sami og árið á undan. Fjögur landsbundin einkaleyfi voru veitt til íslenskra aðila og fimm til erlendra aðila.

Fjöldi íslenskra PCT umsókna jókst um 33% milli ára, en 24 slíkar umsóknir voru lagðar inn árið 2020 samanborið við 18 árið 2019. IS-PCT umsóknir eru alþjóðlegar PCT umsóknir sem lagðar eru inn á Íslandi þar sem umsækjandi er íslenskur.

Fjöldi staðfestra evrópskra einkaleyfa hjá Hugverkastofunni lækkaði lítillega árið 2020 miðað við árið á undan. Árið 2020 voru 1.443 evrópsk einkaleyfi staðfest hér á landi samanborið við 1.502 árið 2019, sem er samdráttur um 3,9%. Er það í fyrsta skipti frá því Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun verður á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára.

Hönnun

Umsóknum um skráningu hönnunar fækkaði um 27,6% milli ára. 92 umsóknir um skráningu hönnunar bárust árið 2020 samanborið við 127 árið 2019. Munaði þar um töluverða fækkun alþjóðlegra umsókna sem fækkaði úr 111 umsóknum árið 2019 en aðeins 74 bárust árið 2020. Landsbundnum umsóknum um skráningu hönnunar fjölgaði um tvær milli ára.

Fjöldi skráninga hönnunar dróst einnig saman á milli ára. Alls voru 84 hönnunarskráningar árið 2020 sem er samdráttur um 27,6%. Árið 2020 voru 75 alþjóðlegar skráningar hönnunar hjá Hugverkastofunni en áfram fækkar landsbundnum skráningum. Aðeins níu voru skráðar á árinu 2020.

 

*Með breytingum á vörumerkjalögum sem tóku gildi 1. september 2020 eru vörumerki nú birt til andmæla tveimur mánuðum áður en þau eru skráð. Því er í þessari yfirferð miðað við fjölda ákvarðana um birtingu vörumerkja til að gæta samræmis í framsetningu fyrir og eftir fyrrgreindar lagabreytingar.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email