Alþjóðlegum PCT einkaleyfaumsóknum sem lagðar voru inn hjá Alþjóðahugverkastofunni (WIPO) fjölgaði árið 2020 þrátt fyrir slæmt efnahagsástand í kjölfar COVID-19 faraldursins. Flestar umsóknir komu frá Kína og Bandaríkjunum.

Fjöldi alþjóðlegra einkaleyfaumsókna sem lagðar eru inn í gegnum alþjóðlega samstarfssamninginn um einkaleyfi (e. Patent Cooperation Treaty - PCT)  er oft notaður sem mælikvarði á nýsköpun. Það er því áhugavert að sjá að umsóknum fjölgaði um 4% milli ára, sem er metfjöldi, þrátt fyrir að verg landsframleiðsla dróst saman um 3,5% á sama tímabili á heimsvísu.

 

Video file

Líkt og í fyrra voru flestar PCT umsóknir frá Kína (68.720 umsóknir, +16,1% milli ára) en þar á eftir komu Bandaríkin (59.230 umsóknir, +3% milli ára), Japan (50.520 umsóknir, -4,1% milli ára), Suður Kórea (20.060 umsóknir, +5,2% milli ára) og Þýskaland (18.643 umsóknir, -3,7% milli ára).

Kínverski tæknirisinn Huawei var það fyrirtæki sem átti flestar PCT umsóknir árið 2020 og heldur toppsæti sínu frá því í fyrra með 5.464 umsóknir. Þar á eftir koma Samsung (Suður Kórea) með 3.093 umsóknir, Mitsubishi (Japan) með 2.810 umsóknir og LG (Suður Kórea) með 2.759 umsóknir.

Fjöldi alþjóðlegra vörumerkjaumsókna fækkaði lítillega milli ára. Þetta var að einhverju leyti viðbúið þar sem vörumerkjaumsóknir endurspegla nýjar vörur og þjónustur sem settar eru á markað en það hefur dregist saman í heimsfaraldri COVID-19. Fjöldi alþjóðlegra vörumerkjaumsókna sem lagðar voru inn í gegnum Madrid kerfið drógust saman um 0,6% árið 2020 sem er í fyrsta skiptið sem þeim fækkar milli ára frá efnahagshruninu 2008 til 2009.

Slæmt efnahagsástand hafði töluverð áhrif á eftirspurn eftir alþjóðlegri hönnunarvernd í gegnum Haag kerfið. Fjöldi umsókna um alþjóðlega skráningu á hönnun dróst saman um 15% árið 2020 sem er í fyrsta skiptið síðan 2006 sem þeim fækkar milli ára.

Image
Mynd
Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Position
Samskiptastjóri
Phone
5809405
E-Mail
@email