Innlent samstarf

Hugverkastofan leggur mikla áherslu á að eiga gott samstarf við innlenda hagsmunaaðila til að auka þekkingu á hugverkaréttindum, bæta þjónustu við viðskiptavini og stuðla að aukinni og bættri notkun hugverkaréttinda á Íslandi. Stofnunin hefur því í gegnum árin efnt til margvíslegs samstarfs við aðila í iðnaði, menntun, rannsóknum, nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hér á landi enda er hugverk víða að finna. Ber þar m.a. að nefna Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Icelandic Startups. Hugverkastofan leiðir einnig samstarfshóp sem hefur það markmið að auka vitund og samstarf um aðgerðir gegn brotum á hugverkaréttindum. Í hópnum sitja fulltrúar Tollstjóra, lögreglu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Lyfjastofnunar, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, STEF, Myndstef, Frísk, Neytendastofu og SFH. Hugverkastofan á einnig í samstarfi við umboðsmenn hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Hún fundar reglulega með Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE) og Félagi einkaleyfasérfræðinga (FEIS) til að miðla upplýsingum og tryggja að stofnunin veiti viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu.

Erlent samstarf

Hugverkastofan á í miklu alþjóðlegu samstarfi til að tryggja virka miðlun upplýsinga, reynslu og þekkingar á milli einkaleyfa- og hugverkastofa í Evrópu. Slík þróun verður sífellt mikilvægari á tímum heimsvæðingar þar sem viðskipti eru í síauknum mæli alþjóðleg. Þessi vinna fer að miklu leyti fram á vettvangi Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) en Hugverkastofan tekur virkan þátt í stjórnun stofnunarinnar sem fulltrúi eins af 38 aðildarríkjum hennar auk þess sem Hugverkastofan er þátttakandi í margskonar tæknilegum verkefnum sem öll miða því að gera upplýsingar um einkaleyfi og umsóknir aðgengilegri fyrir notendur á heimsvísu. Þá hefur mikil vinna farið í samstarf á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) sem Ísland er aðili að. Hugverkastofan á einnig í viðamiklu samstarfi á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), Nordic Patent Institute (NPI), Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) auk samstarfs á milli einkaleyfa- og hugverkastofa Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.