Hugverkastofan er ríkisstofnun undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stofnunin tók til starfa 1. júlí 1991 undir heitinu Einkaleyfastofan og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Þann 1. júlí 2019 skipti stofnunin um heiti og tók upp nafnið Hugverkastofan. 

Skipulag og starfssvið stofnunarinnar markast af auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991

Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Stofnuninni ber að veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.

Rekstrarsvið

Verkefni rekstrarsviðs snúa að innri þjónustu, þ.e. fjármálum, rekstrarmálum, mannauðsmálum, upplýsingatækni, skjala- og gæðamálum og umhverfismálum. 

Nýtt kjarnasvið þjónustu tók til starfa 1. maí 2021 til að styðja við innleiðingu á endurskoðaðri stefnu. Á nýju þjónustusviði mun m.a. fara fram formleg meðhöndlun umsókna og erinda, útgáfa Hugverkatíðinda og önnur ytri þjónusta. Markmið sviðsins er að byggja upp skilvirka og notendamiðaða þjónustu. 

Á hugverkasviði fer fram efnisleg meðferð umsókna um skráningu vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar. Á sviðinu eru teknar ákvarðanir um skráningu eða höfnun eftir atvikum og sinna lögfræðingar sviðsins rökstuðningi í þeim tilvikum sem umsóknum er hafnað. Leyst er úr andmæla- og niðurfellingarmálum á sviðinu, auk þess sem beiðnum um endurveitingu réttinda er sinnt.  

Skrifstofa forstjóra annast sameiginleg málefni sviða Hugverkastofunnar, s.s. innri og ytri samskipti, stafræna þróun og innleiðingu á stefnu. 

Skrifstofan veitir jafnframt lögfræðilega ráðgjöf og vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra eða sviðsstjóra. 

ISAC, faggildingarsvið Hugverkastofunnar, er hin opinbera faggildingarstofa á Íslandi og starfar sjálfstætt innan stofnunarinnar. Á sviðinu starfa tveir starfsmenn sem sjá um daglegan og faglegan rekstur sviðsins. Við framkvæmd faggildingarmats og/eða faggildingareftirlits ræður sviðið til sín tæknilega matsmenn eða sérfræðinga til aðstoðar við mat á samræmi við tæknilegar kröfur. Faggildingarsvið leggur sig fram um að bjóða viðskiptavinum sínum góða þjónustu, taka þátt í nauðsynlegu alþjóðlegu samstarfi og efla samstarf milli hagsmunaðila faggildingar, sem geta ýmist verið eigendur krafna, samræmismatsstofur eða notendur þjónustunnar, svo eitthvað sé nefnt.