Skipurit - Íslenska

Forstjóri hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og ber m.a. ábyrgð á fjárhagslegum og faglegum rekstri hennar, eignum, skipulagi, starfsmannamálum og alþjóðlegu samstarfi. Sviðsstjórar stýra hverju sviði fyrir sig, en faggildingarsvið er opinbera faggildingarstofan á Íslandi og starfar sjálfstætt innan stofnunarinnar. 
Á hugverkasviði fer fram formleg og efnisleg meðferð umsókna um skráningu vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar. Á sviðinu eru teknar ákvarðanir um skráningu eða höfnun eftir atvikum og sinna lögfræðingar sviðsins rökstuðningi í þeim tilvikum þegar umsóknum er hafnað. Leyst er úr andmæla- og niðurfellingarmálum auk þess sem beiðnum um endurveitingu réttinda er sinnt. Þá tekur sviðið á móti umsóknum um viðhald réttinda, þ.e. greiðslu árgjalda af einkaleyfum og endurnýjun hönnunar- og vörumerkjaskráninga, auk þess að sinna beiðnum um aðilaskipti, veðsetningu skráninga og fleira. Á hugverkasviði starfa 18 manns.
Verkefni rekstrarsviðs eru af fjölbreyttum toga. Þau helstu eru móttaka erinda, þjónusta og ráðgjöf við viðskiptavini, fræðslu- og kynningarmál, útgáfa ELS-tíðinda og samskipti í tengslum við alþjóðleg samstarfsverkefni. Á sviðinu er einnig haldið utan um mannauðsmál, upplýsingatækni, kerfisstjórn og skjalastjórn, auk innkaupa, launavinnslu, fjármála og áætlanagerða. Á rekstrarsviði starfa 12 manns. 
Frá árinu 2006 hefur faggildingarsvið (Icelandic Board for Technical Accrediation- ISAC) starfað innan Einkaleyfastofunnar (nú Hugverkastofunnar) en þar starfar einn starfsmaður auk sviðsstjóra. Faggildingarsvið er sjálfstætt starfandi svið innan Hugverkastofunnar og markast starfsemi þess af lögum um faggildingu o.fl. nr. 24/2006. Sjá nánar á vefsvæði faggildingar https://www.faggilding.is.