Skipurit 2021

Forstjóri hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og ber m.a. ábyrgð á fjárhagslegum og faglegum rekstri hennar, eignum, skipulagi, starfsmannamálum og alþjóðlegu samstarfi. Sviðsstjórar stýra hverju sviði fyrir sig, en faggildingarsvið er opinbera faggildingarstofan á Íslandi og starfar sjálfstætt innan stofnunarinnar. 

Á hugverkasviði fer fram efnisleg meðferð umsókna um skráningu vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar. Á sviðinu eru teknar ákvarðanir um skráningu eða höfnun eftir atvikum og sinna lögfræðingar sviðsins rökstuðningi í þeim tilvikum þegar umsóknum er hafnað. Leyst er úr andmæla- og niðurfellingarmálum á sviðinu, auk þess sem beiðnum um endurveitingu réttinda er sinnt.

Verkefni rekstrarsviðs munu snúa að innri þjónustu, þ.e. fjármálum, rekstrarmálum, mannauðsmálum, upplýsingatækni, skjala- og gæðamálum og umhverfismálum.

Nýtt kjarnasvið þjónustu hefur störf 1. maí 2021 í takt við stefnumið 2021-2022. Á nýju þjónustusviði mun m.a. fara fram formleg meðhöndlun umsókna og erinda, útgáfa Hugverkatíðinda og önnur ytri þjónusta. Markmið sviðsins verður að byggja upp skilvirka og notendamiðaða þjónustu.

Skrifstofa forstjóra annast sameiginleg málefni sviða Hugverkastofunnar s.s. innri og ytri samskipti, stafræna þróun og stefnumótun. Skrifstofan veitir jafnframt lögfræðilega ráðgjöf og vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra eða sviðsstjóra.

Frá árinu 2006 hefur faggildingarsvið (Icelandic Board for Technical Accrediation- ISAC) starfað innan Einkaleyfastofunnar (nú Hugverkastofunnar) en þar starfar einn starfsmaður auk sviðsstjóra. Faggildingarsvið er sjálfstætt starfandi svið innan Hugverkastofunnar og markast starfsemi þess af lögum um faggildingu o.fl. nr. 24/2006. Sjá nánar á vefsvæði faggildingar https://www.faggilding.is.