Stefna Hugverkastofunnar 2018-2021

Umfang

Undir stefnu þessa fellur öll starfsemi Hugverkastofunnar að undanskilinni starfsemi faggildingar. Stefnan var unnin í samráði við starfsfólk og aðra hagsmunaaðila stofnunarinnar fyrri hluta ársins 2018.  

Í stefnunni er lögð áhersla á fimm megin þætti: Fræðslu og miðlun, þjónustu og samskipti við hagsmunaaðila, tækni og þróun, mannauð og umhverfismál. Stefnan kallast á við Hugverkastefnu fyrir Ísland 2016 – 2022. 

Hlutverk og skylduverkefni

Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignaréttinda á sviði iðnaðar. Stofnuninni ber að veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. 

Gildi   

Mikilvægt er að stofnunin sé leiðandi á sviðinu fyrir íslenskt samfélag og einnig alþjóðlega sem þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á sviði hugverkaréttar og -skráningar 

FAGMENNSKA

Við viljum að öll okkar starfsemi einkennist af fagmennsku vel þjálfaðs og hæfs starfsfólks.

ÞEKKING

Við viljum að hin mikilvæga sérfræðiþekking okkar standi viðskiptavinum okkar til boða. 

TRAUST

Við viljum að viðskiptavinir beri fullt traust til vinnubragða okkar og geti verið þess fullvissir að þagnarskyldan sé í heiðri höfð. 

Leiðarljós 

Hugverkastofan fer með málefni hugverka á Íslandi, veitir faglega og trausta þjónustu og er eftirsóknarverður vinnustaður. Hugverkastofan miðlar þekkingu og á í virku samtali við samfélagið um málefni tengd hugverkarétti. 

Framtíðarsýn 

 • Hugverkastofan verði þekkingarmiðstöð hugverkaréttinda í hugverkadrifnu samfélagi og atvinnulífi - sterkur hlekkur í keðju nýsköpunar.  

 • Hugverkastofan hafi ávallt á að skipa vel þjálfuðu starfsfólki sem hefur framúrskarandi þekkingu á sínu sviði og er tilbúið að takast á við ný verkefni. 

 • Hugverkastofan veiti þjónustu í samræmi við þær tæknilausnir sem koma til móts við þarfir viðskiptavina.

Stefnumið Hugverkastofan fyrir árin 2018-2021

Markmið stofnunarinnar til þriggja ára ára snúa að: þjónustu og tengslum við samfélagið, fræðslu og miðlun, þróun og tækni, mannauði og umhverfismálum:  

Hugverkastofan verði þekkt í samfélaginu sem miðstöð hugverkaréttinda -traust og fagleg þjónustustofnun sem er í góðum tengslum við hagsmunaaðila. 

Hugverkastofan hefur á að skipa helstu sérfræðingum landsins á sviði hugverkaréttinda. Starfsfólkið og þekking þess er grundvöllur starfseminnar og þess að stofnunin geti sinnt sínum skylduverkefnum og þjónustað samfélagið. Mikilvægt er að stofnunin sé áfram leiðandi á sviðinu fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag en einnig alþjóðlega sem þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á sviði hugverkaréttar. Lykillinn að því að veita góða þjónustu er að eiga gott samband við hagsmunaaðila og bregðast við þörfum þeirra.  

Markmið um þjónustu og tengsl við samfélagið 

 • Stofnunin fái heiti sem lýsir starfseminni betur  

 • Þjónustuleiðir verði bættar og nýjar þróaðar  

 • Heimasíða verði öflugt tæki sem miðar að mismunandi þörfum viðskiptavinahópa 

 • Aukið og bætt samráð verði haft við hagsmunaaðila 

 • Stofnunin sé virkur þátttakandi í samtali um hugverk, nýsköpun, rannsóknir og þróun 

Hugverkastofan leggur áherslu á að auka vitund um áhrif hugverkaréttinda á verðmætasköpun í samfélaginu með fræðslu og miðlun sérþekkingar.  

Undanfarin ár hefur mikil gróska verið í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi og hlutdeild óáþreifanlegra verðmæta sem felast í hugverkum aukist. Það er mikilvægt að þeirri þekkingu sé miðlað svo vitund um mikilvægi hugverkaréttinda og verðmæti þeirra nái til sprotafyrirtækja og fyrirtækja á sviði nýsköpunar. 

Markmið um fræðslu og miðlun 

 • Stofnunin leiði samtal um hugverkarétt í samfélaginu og atvinnulífinu  

 • Fræðsla og upplýsingamiðlun verði uppfærð í takt við þarfir viðskiptavina, iðnað, atvinnulíf og menntasamfélagið 

Áhersla verður lögð á þróun þjónustuleiða með nýjustu tækni og þarfir viðskiptavina í fyrirrúmi. 

Það eru margar áskoranir sem þarf að takast á við í nútímasamfélagi og hraðar tæknibreytingar og auknar kröfur um nýjustu tækni í þjónustu aukast. Hugverkastofan mun nýta sér tæknilausnir eftir fremsta megni við starfsemi sína og þjónustu.  

Markmið um þróun og tækni 

 • Tækninýjungar verði nýttar eftir fremsta megni til að mæta þörfum viðskiptavina og standa framarlega í þjónustu samanborið við aðrar hugverkastofur í Evrópu 

 • Gagnagrunnar verði endurbættir 

 • Umsóknaferli verði rafræn, aðgengileg og sett fram á skýran og einfaldan hátt 

Hugverkastofan leggur sig fram við að vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólk sýnir hvert öðru virðingu, deilir og viðheldur þekkingu sinni og veitir viðskiptavinum faglega og trausta þjónustu. 

Hugverkastofan leggur áherslu á að hafa í sínum röðum vel þjálfað og framúrskarandi starfsfólk sem er tilbúið að takast á við ný verkefni og störf.  

Markmið um mannauð 

 • Upplýsingamiðlun og samvinna milli sviða verði aukin 

 • Þekkingarstjórnun verði efld frekar og þekking starfsfólks gerð sýnilegri út á við 

 • Innanhússfræðsla verði aukin og henni komið í skipulegan farveg 

Sérstök áhersla verður lögð á að starfsemi Hugverkastofunnar hafi sem minnst áhrif á umhverfið og starfsfólk njóti stuðnings við það  

Það er í takti við umhverfisverndarsjónarmið og skýr vilji stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila að taka upp vinnubrögð sem stuðla að umhverfisvernd. Hugverkastofan mun hafa umhverfisvottunarstaðla til hliðsjónar við innleiðingu umhverfisvænni starfshátta.   

Markmið í umhverfis málum 

 • Málsmeðferð og útgáfa skírteina verði einungis rafræn 

 • Markvisst verði leitað leiða til að draga úr sóun  
   

Framkvæmd, ábyrgð og eftirfylgni  

Forstjóri Hugverkastofunnar er ábyrgur fyrir innleiðingu stefnunnar og eftirfylgni með framkvæmdaáætlun í samvinnu við gæðastjóra.