Hugverk eru allstaðar og fyrirtæki þurfa að grípa til ráðstafana til að vernda og hámarka verðmæti þeirra á ýmsum stigum nýsköpunar. Ákjósanlegt er að vernda hugverk með fjölþættri nálgun þar sem fleiri en ein tegund hugverkaréttinda vinna saman. Hvert fyrirtæki er þó einstakt og því þarf nálgunin að vera sérsniðin að innri starfsemi þess og ytra umhverfi. 

Samþætt hugverkaáætlun, þar sem litið er til kosta og galla er besta leiðin fyrir fyrirtæki til að minnka áhættu og hámarka tækifærin sem felast í hugverkum og hugverkaréttindum. 

Slík áætlun getur meðal annars falist í: 

 • Vitundarvakningu um hugverkaréttindi innan fyrirtækisins. 

 • Uppbyggingu þekkingar á leiðum til að vernda og hagnýta hugverk. 

 • Reglum um uppfinningar og aðra nýsköpun starfsmanna og ytri þjónustuaðila. 

 • Nýnæmisleit í byrjun rannsóknar- og þróunarferlis og á meðan því stendur. 

 • Einkaleyfavöktun þar sem reglulega er leitað að nýjum einkaleyfaskjölum. 

 • Skoðun á mögulegum verndarleiðum frá byrjun. 

 • Aðstoð hugverkalögfræðinga og umboðsmanna. 

 • Að ákveða leiðir til verndunar á hugverkum (einkaleyfi, vörumerki, hönnun, höfundaréttur, viðskiptaleyndarmál). 

 • Greining á frelsi til athafna (er verið að brjóta á hugverkaréttindum annarra?). 

 • Gagnavistun. 

 • Nýsköpunarstjórnun. 

 • Samningagerð. 

Þegar kemur að því að vernda uppfinningar er lykilspurningin oft hvort sækja eigi um einkaleyfi eða ekki. Ákvörðunin þarf að vera vel ígrunduð og í samræmi við eðli uppfinningarinnar og viðskipta- og markaðsáætlanir fyrirtækisins. Það er kostur að vera með skráð hugverk en hins vegar getur verið ókostur að þurfa að veita nánari upplýsingar um uppfinningu, en það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að sækja um einkaleyfi.  

 

Aðstoð sérfræðinga

Við gerð hugverkaáætlunar er alltaf mælt með því að leitað er ráðgjafar hugverkaréttindasérfræðinga. Hægt er að sjá lista yfir umboðsmenn vörumerkja- og einkaleyfa á heimasíðu FUVE og lögmanna sem sérhæfa sig í hugverkarétti á heimasíðu Lögmannafélags Íslands.

Image
Mynd
Fagaðili - Hugverkastofan - Karl