Ertu með höfundaréttarvarið efni?

Hvað nær höfundaréttur yfir?

Höfundarréttur verndar gegn óleyfilegri eintakagerð eða aðlögun teikninga, rita eða ljósmynda er lýsa hugmynd ykkar, í fjölda ára. Hann verndar ekki hugmyndina sjálfa, en er í sumum tilfellum eina virka leiðin til að vernda hugverkaeign ykkar, t.d. ef um er að ræða tölvukóða.

Hvernig skapast höfundaréttur?

Ekki þarf að sækja um skráningu af neinum toga til að höfundaréttarvernd stofnist. Höfundarréttur kostar ekkert og verður til af sjálfu sér. Hann skiptir máli vegna þess að á grundvelli hans má auðveldlega segja til um hvenær hugmynd kemur fram eða hvenær hún breytist. Hins vegar veitir hann enga vernd gegn þeim sem kemur á eigin spýtur fram með sömu hugmynd eða svipaða. Samkeppnisaðili getur sagt það tilviljun að hugmynd hans líkist ykkar eða að ykkar hugmynd sé eftirlíking af hans. 

Höfundaréttur er réttur sem skapast við birtingu verks. Um réttinn gilda höfundalög og almennt er ekki hægt að skrá réttinn sérstaklega. Einstaka ríki bjóða þó upp á það. Það eru ekki aðeins listaverk, bókmennta- og kvikmyndaverk sem eru vernduð af höfundarétti heldur á þetta verndarform einnig við um tölvuforrit, byggingarlist, nytjalist, teikningar, líkön o.fl. Höfundaréttur getur því tekið til hluta vöru sem einnig er vernduð með öðrum hætti, s.s. snjallsíma, sem hefur iðulega að geyma öll verndarform.

Sanna birtingu

Gott er að halda utan um birtingu á höfundaréttarvörðu efni til sönnunar seinna meir.

Nota © merki

Þó að höfundaréttarmerkið,  © , veiti enga lagalega vernd þá getur það ásamt nafni höfundaréttarhafa sýnt á skýran hátt að efnið varði sé höfundaréttarvarið og hver eigandi þess sé.

Halda úti hugverkaskrá

Til að hafa góða yfirsýn yfir hugverk fyrirtækis getur reynst gott að halda úti hugverkaskrá þar sem öll hugverk eru listuð og skýrt sé hvernig þau eru varin, hvar þau eru varin og hve lengi sú vernd varir.

Höfundaréttargagnagrunnar

Með því að notast við höfundaréttargagnagrunna er hægt sanna eignarhald og koma í veg fyrir ágreining um höfund verks. WIPO Proof gagnagrunnur Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og i-Depot gagnagrunnur Hugverkastofu Benelúxlandanna (BOIP) eru dæmi um slíka gagnagrunna en tímastimpill gagnagrunnsins getur vegið þungt í að sanna eignarhald á höfundaréttarvörðu efni fyrir dómstólum.

Gildistími

Höfundaréttur á Íslandi helst þangað til 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir.

Hagnýting og hugverkaáætlun

Höfundaréttur getur verið verðmæt eign og mikilvægt viðskiptatæki fyrir fyrirtæki. Þess vegna ættir þú alltaf að fara vel yfir höfundarétt í hugverkaáætlun fyrirtækisins.

Það er enginn tæmandi listi um hvað er hægt að verja með höfundarétti. En sem dæmi má nefna:

 • Bókmenntir eins og skáldsögur, ljóð, leikrit og blaðagreinar
 • Tölvukóði og gagnagrunnar
 • Kvikmyndir, tónverk og dansverk
 • Listaverk eins og málverk, teikningar, ljósmyndir og höggmyndir
 • Byggingarlist, kort og tækniteikningar
 • Skissur og þrívíðarverk sem tengjast landafræði, svæðislýsingum, arkitektúr og vísindum
 • Auglýsingar
 • Bæklingar, kynningarefni og handbækur

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með höfundaréttarmálefni og stjórnsýslu vegna hagsmunamála rétthafa höfunda, flytjenda, útgefenda, framleiðenda, fjölmiðla og samtaka þeirra. Ráðuneytið fer með aðild Íslands að alþjóðlegum samningum á sviði höfundaréttar í umboði utanríkisráðuneytisins og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á vegum alþjóðahugverkastofnunarinnar WIPO auk þess að taka þátt í samstarfi norræna ráðuneyta og starfi sérfræðingahópa á vegum Evrópusambandsins og EFTA um hugverkaréttarmálefni.

Heimasíða mennta- og menningamálaráðuneytisins

Hvað felst í höfundarétti?

Höfundaréttur veitir höfundi verksins ákveðin réttindi:

 • Rétturinn til birtingar (birtingaréttur). Með því að birta hugverkið ertu að dreifa því til almennings.
 • Rétturinn til gera eintök af verkum sínum (oft nefnt fylgiréttur eða réttur til eintakagerðar)
 • Sæmdarréttur, en hann felur í sér að skilt er að geta nafns höfundar í hvert skipti sem verkið er birt. Ekki er hægt að afsala sér sæmdarrétti.

Sem höfundur verks getur þú einnig framselt réttindi þín til annarra og þannig skapað tekjulind. Hinsvegar getur þú ekki afsalað þér sæmdarrétti.

Image
Mynd
Teikningar - arkitektúr