Til hvers að fá vörumerkið skráð?

 • Mikilvægt er að hafa merki skráð ef verja þarf það fyrir ágangi annarra. Skráning vörumerkis gefur eiganda einkarétt á að nota merkið og getur hann þá bannað öðrum að nota í atvinnustarfsemi vörumerki sem eru eins eða lík vörumerki hans
 • Vörumerki eru viðskiptatæki sem geta hjálpað þér að laða að fjárfesta, komast á nýja markaði og finna samstarfsaðila
 • Vörumerki eru oft verðmætustu eignir fyrirtækja
 • Til þess að sanna eignarétt á grundvelli notkunar þarf að halda vel utan um öll gögn sem staðfest geta notkun merkisins sem vörumerkis fyrir tilteknar vörur/þjónustu, jafnvel langt aftur í tímann.
Image
Mynd
Times square

Til hvers eru vörumerki?

 • Vörumerki eru til að aðgreina vöruna eða þjónustuna þína á markaði
 • Halda utan um orðspor ímynd og viðskiptavild
 • Viðskiptatæki sem er hægt að nota til að laða að fjárfesta, komast inn á nýja markaði og finna samstarfsaðila

Vörumerki eru ekki til að lýsa vörunni eða þjónustunni.

Image
Mynd
Skráð vörumerki

1. skref: Ertu með skráningarhæft vörumerki?

Vörumerkið verður að:

 • Hafa aðgreiningarhæfi, þ.e. vera til þess fallið að greina vörur eða þjónustu eiganda þess frá vörum eða þjónustu annarra.
 • Hafa sérkenni, þ.e. vera nægjanlega sérkennilegt svo það skapi tengingu sem vörumerki.

Vörumerkið má ekki:

 • Lýsa tegund vöru eða þjónustu, ástandi, magni, notkun, verði, uppruna, eiginleikum o.fl. 
 • Villa fyrir neytendum um tegund vöru eða þjónustu, ástand, magn, notkun, verð, uppruna, eiginleika o.fl.
 • Vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli.
 • Innihalda opinber tákn s.s. fána eða skjaldamerki, nema að fengnu sérstöku leyfi*.
 • Vera of líkt skráðu vörumerki eða heiti á fyrirtæki annars aðila í samskonar eða tengdri starfsemi.
 • Fara gegn höfundarétti annars aðila.

 

*Heimilt er að nota íslenska fánann í eða með flestum vörumerkjum en sé ætlunin hins vegar að skrá merkið hjá Hugverkastofunni þarf leyfi Neytendastofu fyrir notkun fánans að koma til.

Leitaðu í vörumerkjagagnagrunnum

Í vörumerkjaleitarvél getur þú fundið öll vörumerki sem eru skráð á Íslandi í dag.

Þó að vörumerki finnist ekki í leitarvél þá þýðir það ekki endilega að það sé ekki í notkun. 

Þarftu aðstoð?

Hugverkastofan býður upp á samanburðarleit fyrir vörumerki gegn gjaldi. Einnig getur verið gott að leita sér aðstoðar sérfræðings í hugverkaréttindum til að aðstoða við leitina.

Vörumerki þarf að skrá í að minnsta kosti einum af 45 flokkum yfir vörur- og þjónustu.

Því fleiri flokkar sem eru valdir því meira kostar umsóknin.

 • Til þess að opna rafræna umsóknarformið fyrir vörumerki þarftu að hafa rafræn skilríki eða Íslykil.
 • Reikningur vegna umsóknarinnar birtist í heimabanka eiganda kennitölu umsækjanda merkisins. Reikningurinn er merktur Ríkissjóðsinnheimtum.
 • Viðvörun um falsaðar greiðslubeiðnir. Hugverkastofunni hafa borist ábendingar um að íslenskum umsækjendum hafi borist erindi frá erlendum aðilum þar sem óskað er eftir greiðslu fyrir birtingu vörumerkja í erlendum gagnagrunnum. Hugverkastofan hefur enga tengingu við þessa aðila og biður viðskiptavini sína um að greiða ekki umbeðin gjöld þar sem tilgangur þeirra virðist eingöngu vera sá að blekkja umsækjendur.
 • Á umsóknareyðublaðinu þarf að færa inn númer vöru- og þjónustuflokka, ásamt upptalningu þeirrar vöru/þjónustu sem merkið óskast skráð fyrir. Vöru- og þjónustuflokkarnir eru 45 og gefur yfirskrift þeirra til kynna hvaða vöru eða þjónustu þeir innihalda. Nánari upplýsingar hér.
 • Umsóknin verður ekki tekin til meðhöndlunar fyrr en umsóknargjöld hafa verið greidd. Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd verði umsókninni hafnað.

Sækja um

Umsókn um skráningu vörumerkis - eyðublað

Ef skráningu er synjað sendir Hugverkastofan umsækjanda tilkynningu um það og honum er gefinn frestur til að gera athugasemdir við niðurstöðuna.

Ef engir formgallar eru á umsókninni og Hugverkastofan gerir engar athugasemdir við skráningarhæfi merkisins, má gera ráð fyrir að skráningarferlið taki 4-8 vikur.

Þegar merkið hefur verið skráð er það birt á heimasíðu Hugverkastofunnar í ELS-tíðindum. Blaðið kemur út 15. hvers mánaðar.  

Andmælaréttur

Í tvo mánuði frá birtingardegi skrásetts vörumerki getur hver sem er andmælt skráningunni. 

Endurnýjun

Eigandi skráðs vörumerkis getur endurnýjað skráningu vörumerkis síns á 10 ára fresti. Umsókn um endurnýjun má leggja inn 6 mánuðum fyrir og allt að 6 mánuðum eftir skráningardagsetningu. 

Endurnýjun vörumerkjaskráningar

Vernd skráðs vörumerkis hefst á þeim degi sem umsókn er lögð inn og gildir í 10 ár frá skráningardegi. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til 10 ára í senn, eins oft og eigandi þess óskar.

Image
Mynd
Málsmeðferð og stefna placeholder

Verndun erlendis

Vörumerki sem skráð eru hjá Hugverkastofunni er einungis vernduð á Íslandi.  Ef markaðssetning er fyrirhuguð erlendis, er mikilvægt að skrá vörumerkið einnig í öðrum löndum.

Mikilvægt er að huga að því í hvaða löndum þú sérð fyrir þér að vera á markaði í nálægri framtíð og huga að vörumerkjaskráningu.

Ýmsar leiðir eru í boði, en hægt er að skrá vörumerki í alþjóðlegt Madrid ferli en einnig er hægt að skrá um ESB-vörumerki hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO).

Image
Mynd
skráning erlendis - placeholder

Þarftu aðstoð með vörumerkjavernd?

Hugverkaráðgjöf

Vantar þig aðstoð við að fóta þig í heimi hugverkaréttinda? Hafðu samband og kíktu í heimsókn.

Samanburðarleit fyrir vörumerki

Ert þú með hugmynd að vörumerki? Veist þú hvort að vörumerkið sé einstakt?