Vernd

Það er mikilvægt að vernda vörumerkið með skráningu. Þannig má varnast því að aðrir noti merkið án samþykkis eiganda þess. Með því að sækja um skráningu vörumerkis fæst niðurstaða um hvort merkið sé skráningarhæft.

Meðferð vörumerkjaumsókna

Umsóknir um vörumerki eru meðhöndlaðar skv. lögum og reglum um vörumerki. Kannað er hvort vörumerkið hafi sérkenni og hvort það sé nægjanlega ólíkt öðrum merkjum sem þegar eru skráð hér á landi, fyrir sambærilega vöru eða þjónustu.

Ef merkið uppfyllir ekki kröfur um skráningarhæfi er því synjað en umsækjandinn fær frest til að svara synjuninni. Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd.

Andmæli

Með birtingu vörumerkja í Hugverkatíðindum hefst tveggja mánaða andmælatímabil. Þá geta þeir sem telja sig eiga betri rétt andmælt merkinu. Ef engin andmæli berast telst merkið skráð.

Gerðir vörumerkja

Félagamerki og Ábyrgðar- og gæðamerki eru í eðli sínu vörumerki. Um þau gilda að meginstefnu til sömu ákvæði og gilda um vörumerki.

Allir geta sótt um skráningu vörumerkis en aðeins félög, samtök og opinberir aðilar geta sótt um skráningu félagamerkis og aðeins þeir sem setja staðla eða hafa eftirlit með vörum eða þjónustu geta sótt um skráningu ábyrgðar- og gæðamerkis.

Einstaklingar geta ekki sótt um félagamerki. Aðeins félög, samtök eða opinberir aðilar geta sótt um skráningu félagamerkis.

Með skráningu félagamerkis geta félög eða samtök öðlast einkarétt á sameiginlegu auðkenni fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi.  Félagamerki eru í eðli sínu vörumerki og þurfa því að uppfylla sömu skráningarskilyrði. Í umsókn þarf því að tilgreina tegund þess merkis sem óskað er verndar fyrir og þá vöru og/eða þjónustu sem merkið óskast skráð fyrir. Merkið þarf að uppfylla skilyrði um skráningahæfi samkvæmt 13. og 14. gr. vml., þó með þeirri undantekningu, sbr. 3. mgr. 13. gr. vml. að þau mega gefa til kynna landfræðilegan uppruna vöru og/eða þjónustu. Áður en umsóknin er tekin fyrir hjá Hugverkastofunni verður kallað eftir reglum um notkun merkisins.

Í reglum um notkun félagamerkja skal koma fram:

1. Hverjir hafa heimild til þess að nota merkið.

2. Hvaða skilyrði gilda um notkun merkisins og hvaða afleiðingar og viðurlög óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér.

3. Hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið.

4. Hvaða reglur gilda um aðild að því félagi sem á merkið.

Verði breytingar á reglum félagamerkis eftir skráningu er skylt að tilkynna um þær til Hugverkastofunnar. Breytingarnar eru birtar samhliða nýrri gildistökudagsetningu í Hugverkatíðindum.

Reglur um notkun merkja

Aðeins þeir sem setja staðla um eða annast eftirlit með vörum eða þjónustu, t.d. einstaklingur, stofnun, samtök eða önnur félög, geta sótt um og átt ábyrgðar- og gæðamerki, að því tilskildu að viðkomandi stundi ekki rekstur sem felur í sér að afhenda vöru eða veita þjónustu af sambærilegum toga og merkið vottar.

Ábyrgðar- og gæðamerki eru í eðli sínu vörumerki og þurfa því að uppfylla sömu skráningarskilyrði og vörumerki. Í umsókn þarf því að tilgreina tegund þess merkis sem óskað er verndar fyrir og þá vöru og/eða þjónustu sem merkið óskast skráð fyrir. Merkið þarf að uppfylla skilyrði um skráningahæfi samkvæmt 13. og 14. gr. vml., þó með þeirri undantekningu, sbr. 3. mgr. 13. gr. vml. að þau mega gefa til kynna landfræðilegan uppruna vöru og/eða þjónustu. Áður en umsóknin er tekin fyrir hjá Hugverkastofunni verður kallað eftir reglum um notkun merkisins.

Í reglum um notkun ábyrgðar- og gæðamerkja skal koma fram:

1. Hverjir hafa heimild til þess að nota merkið.

2. Hvaða skilyrði gilda um notkun merkisins og hvaða afleiðingar og viðurlög óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér.

3. Hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið.

Verði breytingar á reglum ábyrgðar- og gæðamerkis eftir skráningu er skylt að tilkynna um þær til Hugverkastofunnar. Breytingarnar eru birtar samhliða nýrri gildistökudagsetningu í Hugverkatíðindum.

Rerglur um notkun merkja

Orðmerki

Merki sem samanstendur eingöngu af orðum, bókstöfum, tölustöfum eða öðrum táknum eða samsetningu þeirra.

Í umsókn skal leggja fram eintak af merkinu í stöðluðu formi og uppsetningu, án myndrænna eiginleika eða litar. 

Myndmerki

Merki sem sýnir tákn í myndrænni útfærslu, hvort sem er í lit eða ekki, til dæmis mynd eða samsetning myndrænna hluta með eða án orða.

Í umsókn skal leggja fram eintak af merkinu sem sýnir alla þætti þess og þar sem við á, lit merkis.

Form: JPG

Þrívíddarmerki

Merki sem getur verið t.d. umbúðir, pakkningar, varan sjálf eða útlit hennar, með eða án orða. 

Í umsókn skal  tilgreina merkið myndrænt, svo sem með tölvugerðri mynd eða ljósmynd sem sýnir þrívíða eiginleika merkisins.

Form: JPG

Staðsetningarmerki

Merki sem samanstendur af tákni sem sett er á tiltekinn stað á vöru.

Í umsókn skal sýna vöruna sjálfa þar sem staðsetning táknsins er skýrlega afmörkuð. Þeir hlutar vörunnar sem ekki er óskað verndar fyrir skulu vera afmarkaðir á skýran hátt, til dæmis með brotalínu.

Form: JPG

Mynsturmerki

Merki sem inniheldur tákn sem eru endurtekin með jöfnu millibili og mynda tiltekið mynstur.

Í umsókn skal tilgreina endurtekningu táknanna, þ.e. mynstrið sjálft.

Form: JPG

Litamerki

Merki sem inniheldur einn stakan lit eða samsetningu lita án útlína. 

Í umsókn skal leggja fram skýra og nákvæma eftirmynd litarins eða litasamsetningarinnar og vísa til viðkomandi litar (litakóða ) í viðurkenndu litakerfi.

Form: JPG

Æskilegt er að lýsing fylgi umsókn um litamerki.

Hljóðmerki

Merki sem samanstendur eingöngu af hljóði eða samsetningu hljóða.

Með umsókn skal leggja fram annað hvort hljóðskrá með eftirmynd hljóðsins eða nákvæma tilgreiningu hljóðsins með nótnaskrift.

Form: JPG, MP3

Hreyfimerki

Merki sem felur í sér hreyfingu eða breytingu á staðsetningu tiltekinna tákna.

Með umsókn skal fylgja myndskrá eða röð stillimynda sem sýna nákvæmlega þá hreyfingu eða breytingu tákna sem óskað er eftir að vernd nái yfir. Heimilt er að númera stillimyndir svo hreyfingin eða breytingin sé skýrlega tilgreind.

Form: JPG, MP4, GIF

Æskilegt er að lýsing fylgi ef um röð stillimynda er að ræða.

Margmiðlunarmerki

Merki sem felur í sér bæði hljóð og mynd með eða án texta.

Með umsókn skal fylgja mynd- og hljóðskrá sem inniheldur samsetningu myndar/texta og hljóðs.

Form: MP4

Heilmyndarmerki

Merki sem er með heilmyndareiginleika, þ.e. sem breytist eftir því frá hvaða sjónarhorni horft er á merkið.

Með umsókn skal fylgja myndskrá eða myndræn eftirmynd af merkinu þar sem sýnd eru þau sjónarhorn merkisins sem nauðsynleg eru til þess að hægt sé að átta sig á heildarmynd þess.

Form: JPG, MP4