1. skref: Er ég með uppfinningu sem uppfyllir skilyrði til einkaleyfis?

Hvað er einkaleyfi?

Með einkaleyfi er hægt að vernda tæknilega útfærslu á hugmynd. Ekki er hægt að vernda hugmyndina sjálfa heldur aðeins útfærslu hennar, s.s. búnað, afurð, aðferð eða notkun.

Skilyrði fyrir einkaleyfi

Frumskilyrði fyrir því að hægt sé að fá  einkaleyfi fyrir uppfinningu er að hún sé ný, frumleg og hæf til framleiðslu. Það að umsókn þurfi að vera ný tekur ekki aðeins til Íslands, heldur þarf hún að vera ný á heimsvísu. Hún þarf jafnframt að vera nægjanlega frábrugðin því sem þegar er þekkt.

Í einkaleyfaleitarvél Hugverkastofunnar er hægt að finna öll einkaleyfi sem eru í gildi á Íslandi.

Í Espacenet einkaleyfagagnagrunni Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) er hægt er að fletta upp eftir leitarorðum (á ensku) og skoða um 110 milljónir einkaleyfaskjöl frá öllum helstu iðnríkjum heims, sem innihalda upplýsingar um uppfinningar og tækniþróun frá árinu 1836.

Þarftu aðstoð?

Samtalsleit einkaleyfa er þjónusta Hugverkastofunnar sem getur gefið hugmynd um nýnæmi uppfinningar en einnig  upplýsingar um hvaða fyrirtæki og aðilar eru starfandi á tilteknu tæknisviði.

Einnig getur verið gott að leita sér aðstoðar sérfræðings í hugverkaréttindum til að aðstoða við leit í einkaleyfagagnagrunnum.

Við mælum alltaf með því að leita sér aðstoðar sérfræðings í hugverkaréttindum við gerð einkaleyfaumsóknar.

Þú getur lagt inn umsókn um einkaleyfi hjá Hugverkastofunni í gegnum vefgátt Evrópsku einkaleyfastofunnar.

Einnig getur þú fundið eyðublöð fyrir einkaleyfaumsóknir með því að smella hér.

Athugaðu að ef þú ert með lögheimili erlendis þarftu að tilnefna umboðsmann til að koma fram fyrir þína hönd varðandi umsóknina. Sjá nánar reglur um umboð hér.

Einkaleyfaumsóknir eru birtar 18 mánuðum eftir að þær eru lagðar inn (nema hún sé dregin til baka). Hinsvegar getur þú óskað eftir því að umsóknin birtist fyrr.

Gott er að hafa í huga að þegar einkaleyfaumsóknir eru birtar þá eru þær aðgengilegar öllum, líka samkeppnisaðilum.

 

Rannsókn á einkaleyfaumsókn getur tekið langan tíma, jafnvel nokkur ár. Hún getur líka falið í sér mikil samskipti við Hugverkastofuna þar sem óskað er eftir nánari upplýsingum.

 

Andmæli

Innan 9 mánaða frá því að einkaleyfi er gefið út getur hver sem er lagt inn andmæli gegn einkaleyfinu hjá Hugverkastofunni. Hugverkastofan skoðar andmælin og tekur ákvörðun um það hvort einkaleyfið skuli standa óbreytt, í breyttri mynd eða hvort það skuli fellt niður, allt eftir því hvaða upplýsingar koma fram í andmælagögnunum. 

Nánari upplýsingar um andmæli.

Árgjöld

Til þess að viðhalda einkaleyfi á Íslandi, þarf að greiða árgjöld til Hugverkastofunnar á hverju ári, í allt að 20 árum.  Tíminn byrjar að líða um leið og umsókn er lögð inn, ef útgáfan dregst um nokkur ár, þarf að greiða árgjöld af umsókninni með sama hætti og af einkaleyfinu. Árgjöld fyrir einkaleyfisumsóknir og einkaleyfi má sjá í gjaldskrá hér á heimasíðunni.

Ógilding einkaleyfis

Ógilda má einkaleyfi ef:

  1.  það hefur verið veitt án þess að skilyrðum hafi verið fullnægt
  2.  það varðar uppfinningu sem ekki er lýst svo greinilega að fagmaður geti á grundvelli lýsingarinnar útfært uppfinninguna, 
  3.  það tekur til einhvers sem ekki kom fram í umsókn þegar hún var lögð inn eða 
  4.   verndarsvið einkaleyfisins hefur verið rýmkað eftir að einkaleyfayfirvöld tilkynntu umsækjanda að unnt væri að veita einkaleyfi

Viltu vita meira?

Hugverkaréttindi

Hvað eru hugverk og hvaða leiðir standa til boða til að vernda þau?

Viðhald og endurnýjun skráninga

Hvað geri ég eftir skráningu?