1. skref: Ertu með skráningarhæft vörumerki?

Vörumerkið verður að:

 • Hafa aðgreiningarhæfi, þ.e. vera til þess fallið að greina vörur eða þjónustu eiganda þess frá vörum eða þjónustu annarra.
 • Hafa sérkenni, þ.e. vera nægjanlega sérkennilegt svo það skapi tengingu sem vörumerki.

Vörumerkið má ekki:

 • Lýsa tegund vöru eða þjónustu, ástandi, magni, notkun, verði, uppruna, eiginleikum o.fl. 
 • Villa fyrir neytendum um tegund vöru eða þjónustu, ástand, magn, notkun, verð, uppruna, eiginleika o.fl.
 • Vera algengt tákn eða orð sem algengt er í viðskiptum eða notað í daglegu máli.
 • Innihalda opinber tákn s.s. fána eða skjaldamerki, nema að fengnu sérstöku leyfi.
 • Vera of líkt skráðu vörumerki eða heiti á fyrirtæki annars aðila.
 • Fara gegn höfundarétti annars aðila.   

Verndarumfang:

 • Verndun vörumerkis nær einungis til þeirrar útgáfu af merkinu sem lögð er fram við umsókn. Stílfærð merki (orð- og myndmerki) eru vernduð í heild sinni og nær verndin ekki endilega til texta í slíkum merkjum. Sé ætlunin að skrá tiltekinn texta eða mynd er rétt að kanna hvort þurfi að sækja um það sérstaklega.
 • Athugið að frá og með 1. apríl 2021 afmarkast verndarumfang merkja eingöngu af þeim litum sem fram koma í umsókn. Ef sótt er um skráningu merkis í svart/hvítu eða grátóna lit verndar það aðeins þá útfærslu en nær ekki til hvaða litasamsetningar sem er eins og fyrri túlkun kvað á um.

Gerðir vörumerkja

Auk vörumerkja er hægt að sækja um Félagamerki eða Ábyrgðar- og gæðamerki.  Um þau gilda að meginstefnu til sömu ákvæði og gilda um vörumerki. Áður en farið er yfir umsókn þurfa reglur um félaga-, ábyrgðar- og gæðamerkja að liggja fyrir.

Einungis félög, samtök og opinberir aðilar geta sótt um skráningu félagamerkis.

Í reglum um notkun félagamerkja skal koma fram:

 1. Hverjir hafa heimild til þess að nota merkið.
 2. Hvaða skilyrði gilda um notkun merkisins og hvaða afleiðingar og viðurlög óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér.
 3. Hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið.
 4. Hvaða reglur gilda um aðild að því félagi sem á merkið.

Aðeins þeir sem setja staðla um eða annast eftirlit með vörum eða þjónustu, t.d. einstaklingur, stofnun, samtök eða önnur félög, geta sótt um og átt ábyrgðar- og gæðamerki.

Í reglum um notkun ábyrgðar- og gæðamerkja skal koma fram:

 1. Hverjir hafa heimild til þess að nota merkið.
 2. Hvaða skilyrði gilda um notkun merkisins og hvaða afleiðingar og viðurlög óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér.
 3. Hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið.

Tegundir vörumerkja 

Orðmerki: Merki sem samanstendur eingöngu af orðum, bókstöfum, tölustöfum eða öðrum táknum eða samsetningu þeirra.

Myndmerki: Merki sem sýnir tákn í myndrænni útfærslu, hvort sem er í lit eða ekki. Sendið inn eina mynd af merkinu eins og hún óskast skráð á JPG formi.

Orð- og myndmerki: Samsetning myndar og texta eða stílfært letur, hvort sem er í lit eða ekki. Sendið inn eina mynd af merkinu eins og hún óskast skráð á JPG formi.

Þrívíddarmerki: Merkið getur verið t.d. mynd af umbúðum, pakkningar, varan sjálf eða útlit hennar, með eða án orða. Sendið inn tölvugerða mynd eða ljósmynd (JPG) sem sýnir þrívíða eiginleika merkisins.

Staðsetningarmerki: Merki sem samanstendur af tákni sem sett er á tiltekinn stað á vöru. Mynd (JPG) með umsókn skal sýna vöruna sjálfa þar sem staðsetning táknsins er skýrlega afmörkuð. Þeir hlutar vörunnar sem ekki er óskað verndar fyrir skulu vera afmarkaðir á skýran hátt, til dæmis með brotalínu.

Mynsturmerki: Merki sem inniheldur tákn sem eru endurtekin með jöfnu millibili og mynda tiltekið mynstur. Mynd með umsókn (jpg) skal sýna endurtekningu táknanna, þ.e. mynstrið sjálft.

Litamerki: Merki sem inniheldur einn stakan lit eða samsetningu lita án útlína. Í umsókn skal leggja fram skýra og nákvæma eftirmynd litarins eða litasamsetningarinnar (JPG) og vísa til viðkomandi litar (litakóða ) í viðurkenndu litakerfi. Æskilegt er að lýsing fylgi umsókn um litamerki.

Hljóðmerki: Merki sem samanstendur eingöngu af hljóði eða samsetningu hljóða. Með umsókn skal leggja fram annað hvort hljóðskrá með eftirmynd hljóðsins (MP3) eða nákvæma tilgreiningu hljóðsins með nótnaskrift (JPG).

Hreyfimerki: Merki sem felur í sér hreyfingu eða breytingu á staðsetningu tiltekinna tákna. Með umsókn skal fylgja myndskrá eða röð stillimynda sem sýna nákvæmlega þá hreyfingu eða breytingu tákna sem óskað er eftir að vernd nái yfir. Heimilt er að númera stillimyndir svo hreyfingin eða breytingin sé skýrlega tilgreind. Form: JPG, MP4, GIF. Æskilegt er að lýsing fylgi ef um röð stillimynda er að ræða.

Margmiðlunarmerki: Merki sem felur í sér bæði hljóð og mynd með eða án texta. Með umsókn skal fylgja mynd- og hljóðskrá sem inniheldur samsetningu myndar/texta og hljóðs (MP4)

Heilmyndarmerki: Merki sem er með heilmyndareiginleika, þ.e. sem breytist eftir því frá hvaða sjónarhorni horft er á merkið. Með umsókn skal fylgja myndskrá eða myndræn eftirmynd af merkinu þar sem sýnd eru þau sjónarhorn merkisins sem nauðsynleg eru til þess að hægt sé að átta sig á heildarmynd þess. Form: JPG, MP4

Leitaðu í vörumerkjagagnagrunnum

Í vörumerkjaleitarvél Hugverkastofunnar getur þú fundið öll vörumerki sem eru skráð á Íslandi í dag.

Þó að vörumerki finnist ekki í leitarvélinni þá þýðir það ekki endilega að það sé ekki í notkun. 

Vörumerkjaleitarvél Hugverkastofunnar

 
Þarftu aðstoð?

Hugverkastofan býður upp á samanburðarleit fyrir vörumerki gegn gjaldi. Einnig getur verið gott að leita sér aðstoðar sérfræðings í hugverkaréttindum til að aðstoða við leitina.

Vörumerki þarf að skrá í að minnsta kosti einum af 45 flokkum yfir vörur- og þjónustu. Þessir flokkar eru til þess að tilgreina hvaða vara eða þjónusta er á bak við þitt vörumerki.

Vöru- og/eða þjónustulisti þarf að vera á íslensku eða ensku.

Einn vöru- eða þjónustuflokkur er innifalinn í umsóknargjaldi. Umfram einn flokk bætist við auka flokkagjald. Verð er samkvæmd gjaldskrá

45 flokkar yfir vörur- og þjónustu

Ef umsækjandi er ekki með lögheimili á Íslandi er honum skylt að tilnefna umboðsmann sem getur komið fram fyrir hans hönd varðandi umsóknina. Umboðsmaðurinn má vera búsettur á EES-svæðinu. Nauðsynlegt er að umboðsmaðurinn staðfesti með einum eða öðrum hætti að hann taki að sér umboðsmennskuna.

Sjá nánar reglur um umboð hér.

Rafræn umsókn
 • Til þess að opna rafræna umsóknarformið fyrir vörumerki þarftu að hafa rafræn skilríki eða Íslykil.
  • Þótt verið sé að sækja um fyrir fyrirtæki er hægt að skrá sig inn með sínum persónulegum skilríkjum en fyrirtækið er þá sett sem eigandi vörumerkisins. 
 • Reikningur vegna umsóknarinnar birtist í heimabanka eiganda kennitölu umsækjanda merkisins. Reikningurinn kemur frá Ríkissjóðsinnheimtur í heimabanka eiganda merkisins. Greiðsluseðilar eru aðgengilegir inn á www.island.is 

Sækja um vörumerki - Rafræn umsókn

 
Eyðublöð
 • Á umsóknareyðublaðinu þarf að færa inn númer vöru- og þjónustuflokka, ásamt upptalningu þeirrar vöru/þjónustu sem merkið óskast skráð fyrir. Vöru- og þjónustuflokkarnir eru 45 og gefur yfirskrift þeirra til kynna hvaða vöru eða þjónustu þeir innihalda. Nánari upplýsingar hér.
 • Athugið að einstaklingar geta ekki sótt um félagamerki  og einungis þeir sem  setja staðla um eða annast eftirlit með vörum eða þjónustu geta sótt um ábyrgðar- og gæðamerki

Sækja um vörumerki Sækja um félagamerki Sækja um ábyrgðar- og gæðamerki

Athugið  að umsóknin verður ekki tekin til meðhöndlunar fyrr en umsóknargjöld hafa verið greidd.
Umsóknargjöld eru ekki endurgreidd verði umsókninni hafnað.
Eftir að umsókn hefur verið lögð inn er greiðslufrestur 30 dagar. 

Viðvörun um falsaðar greiðslubeiðnir

Hugverkastofunni hafa borist ábendingar um að íslenskum umsækjendum hafi borist erindi frá erlendum aðilum þar sem óskað er eftir greiðslu fyrir birtingu vörumerkja í erlendum gagnagrunnum. Hugverkastofan hefur enga tengingu við þessa aðila og biður viðskiptavini sína um að greiða ekki umbeðin gjöld þar sem tilgangur þeirra virðist eingöngu vera sá að blekkja umsækjendur.

-->

Rannsóknartími

Ef engir formgallar eru á umsókn og Hugverkastofan gerir engar athugasemdir við skráningarhæfi merkisins, má gera ráð fyrir að skráningarferlið taki að meðaltali 10-12 vikur. 

Ábending

Umsóknir um vörumerki eru birtar  í vörumerkjaleitarvél á heimasíðunni fljótlega eftir að þær berast. Þá getur þriðji aðili lagt fram ábendingu sem mælir gegn skráningu merkisins. Framlagning ábendingar veitir viðkomandi aðila ekki aðild að málsmeðferð fyrir Hugverkastofunni. 

Ef umsókn er synjað

Ef umsókn er synjað sendir Hugverkastofan umsækjanda tilkynningu um það með tölvupósti og honum er gefinn frestur til að gera athugasemdir við niðurstöðuna.

Birting og réttur til að andmæla

Ef Hugverkastofan telur merkið skráningarhæft er það birt í Hugverkatíðindum á heimasíðu Hugverkastofunnar. Tíðindin koma út 15. hvers mánaðar.  Með birtingu merkisins í Hugverkatíðindum hefst tveggja mánaða andmælatímabil, en meðan á því stendur getur hver sá sem telur sig eiga betri rétt andmælt skráningunni. Upplýsingar um andmæli eru hér.

Endurnýjun

Eigandi skráðs vörumerkis getur endurnýjað skráninguna á 10 ára fresti. Umsókn um endurnýjun má leggja inn 6 mánuðum fyrir og allt að 6 mánuðum eftir skráningardagsetningu. Ef vörumerki er ekki endurnýjað innan innan tilskilins tímaramma verður vörumerkið afmáð. Ekki er hægt að endurvekja afmáð merki. 

Rafræn endurnýjun vörumerkjaskráningar

Umsókn um endurnýjun skráningu vörumerkis - eyðublað

Viltu vita meira?

Hugverkaréttindi

Hvað eru hugverk og hvaða leiðir standa til boða til að vernda þau?

Viðhald og endurnýjun skráninga

Hvað geri ég eftir skráningu?