Útgáfa » Fréttir

Ársskýrsla Hugverkastofunnar 2023 er komin út

Ársskýrsla Hugverkastofunnar 2023 er komin út

12. júní 2024

Ársskýrsla Hugverkastofunnar 2023 er komin út. Í skýrslunni er m.a. að finna tölfræði varðandi umsóknir og veitingu hugverkaréttinda, yfirlit yfir helstu þætti starfseminnar á árinu, innlent og erlent samstarf, pistla starfsfólks um falsanir og eftirlíkingar, vörumerki í íþróttum og mikilvægi hugverkaverndar í nýsköpun og lykiltölur úr rekstri.

Í ávarpi Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra, kemur m.a. fram að árið hafi verið ár breytinga hjá Hugverkastofunni og stofnunin hafi flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði að Katrínartúni 4 þar sem allir starfsmenn vinna nú saman á einni hæð í opnu og nútímalegu vinnurými sem endurspeglar áherslur stofnunarinnar á samvinnu og nýsköpun. Þá hafi vinna hafist á árinu við mótun nýrrar stefnu Hugverkastofunnar.

Stór skref voru stigin í stafrænni vegferð Hugverkastofunnar á árinu og er nú hægt að sinna öllum helstu og algengustu erindum á vefnum. Þetta endurspeglast í því að 99% allra umsókna sem bárust Hugverkastofunni á árinu voru sendar inn með rafrænum hætti. Á árinu innileiddi stofnunin m.a. nýja umsóknargátt fyrir einkaleyfi, hóf að senda skjöl í stafrænt pósthólf  og birta upplýsingar um hugverkaréttindi á island.is. Umfangsmesta verkefni ársins 2023 hvað varðar stafræna þróun var þó að stofnunin tók í notkun nýtt rannsóknarkerfi fyrir vörumerki.

Hugverkastofan skipulagði og tók þátt í fjölmörgum viðburðum á árinu. Má þar nefna Gulleggið, UTmessuna, ÍMARK-daginn, málþing um nýsköpunarkraft kvenna í tilefni alþjóðahugverkadagsins, fræðslufund um eitt evrópskt einkaleyfi, hádegisviðburð tileinkaðan mistökum í nýsköpun í Nýsköpunarvikunni, Vísindavöku Rannís og Nýsköpunarþing.

Í umfjöllun um erlent samstarf kemur fram að Hugverkastofan á í viðamiklu samstarfi við alþjóðlegar stofnanir á sviði hugverkaréttar, svo sem Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO), Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO).  Á árinu var norrænt samstarf á sviði einkaleyfa styrkt með undirritun viljayfirlýsingar milli Nordic Patent Institute (NPI) og hugverkastofnana Svíþjóðar og Finnlands með það að markmiði að skiptast á hugmyndum og upplýsingum um starfshætti við alþjóðlegar einkaleyfaleitir og -rannsóknir.

Breytingar á þeim alþjóðasamningum sem varða Hugverkastofuna voru þær helstar á árinu að 1. júní  tóku gildi tvær reglugerðir Evrópusambandsins (ESB) og samningur nokkurra ESB-ríkja um sameiginlegan einkaleyfadómstól í tengslum við eitt evrópskt einkaleyfi (e. Unitary Patent). Með þeim er notendum evrópska einkaleyfakerfisins gert kleift að sækja um einkaleyfavernd í kjölfar veitingar Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) á evrópsku einkaleyfi í mörgum ríkjum ESB samtímis í stað þess að sækja um vernd í hverju þeirra um sig.

Umsóknum um landsbundin einkaleyfi fjölgaði um 25% milli ára og staðfestingum evrópskra einkaleyfa fjölgaði um 8% á árinu eftir mikla fækkun sem varð milli áranna 2021 og 2022.

Umsóknum um skráningu vörumerkja fækkaði um 9% ár árinu. Þar af fækkaði alþjóðlegum umsóknum um 13% en landsbundnum umsóknum fjölgaði um 2%. Loks fjölgaði landsbundnum hönnunarumsóknum um 12% ár árinu en alþjóðlegum hönnunarumsóknum fækkaði um 13%. Í lok árs voru 63.158 skráð vörumerki hér á landi, 9.523 einkaleyfi í gildi og 1.454 hönnunarskráningar.

Ársvelta Hugverkastofunnar 2023 var kr. 664,7 milljónir og rekstrarkostnaður var 677,2 milljónir kr. Tekjur stofnunarinnar samanstanda fyrst og fremst af innheimtum þjónustugjöldum frá innlendum og erlendum aðilum sem kosið hafa að vernda hugverk sín hér á landi. Stærsti útgjaldaliðurinn var launakostnaður sem er um 67% af heildarkostnaði.